11.05.1925
Neðri deild: 77. fundur, 37. löggjafarþing.
Sjá dálk 1105 í B-deild Alþingistíðinda. (271)

1. mál, fjárlög 1926

Fjármálaráðherra (JÞ):

Háttv. frsm. fyrri hlutans (ÞórJ) hefi jeg engu að svara, því að það yrði ekki annað en endurtekning þess, sem jeg hefi sagt hjer áður. Þó var eitt orð, sem mjer virtist hann misbrúka. Hann vildi gera mjer upp þau orð viðvíkjandi láni til bæjarfógetans í Vestmannaeyjum, að það ætti að vera til þess að koma upp veglegum bústað til þess að taka á móti útlendingum. Jeg geri ekki ráð fyrir því, að hann hafi sagt þetta viljandi. En jeg sagði, að vegna sóma landsins þyrfti hann að vera forsvaranlegur eða a. m. k. viðunandi, en það eru skrifstofuherbergi þessa embættismanns ekki nú.

Hv. þm. Str. (TrÞ) þarf jeg að svara nokkrum orðum, og vil jeg þá fyrst leiðrjetta þann misskilning hans, að jeg hefði ekki átt að leggja neitt til þessa máls, sem hann gerði að umtalsefni, vegna þess að það heyrði ekki undir mitt ráðher. embætti. Fyrst skal jeg þá geta þess, að hv. þm. Str. getur ekki tekið af mjer eða mínum kjósendum þann þingmannsrjett, sem jeg hefi sem fulltrúi þeirra hjer í þinginu til þess að víkja að almennum landsmálum. Og þegar jeg tók við mínu ráðherrastarfi, þá lýsti jeg yfir því, að jeg mundi ekki afsala mjer þeim rjetti, enda er jeg vanur að nota hann, þegar jeg tel að þess þurfi.

Hv. þm. Str. gaf mjer ástæðu til þess sjerstaklega að gera að umræðuefni styrkveitinguna til Búnaðarfjelags Íslands. Nú er farið fram á, að styrkurinn til Búnaðarfjelagsins verði hækkaður um 25 þús. krónur, en hækkunartillögur við frv. í heild eru á annað hundrað þúsund krónur, og það er upphæð, sem fjármálaráðherra verður að telja varða sitt embætti. Jeg hafði því fullan rjett og skyldu til þess að gera þessa till. að umtalsefni. Hv. frsm. síðari kafla (TrÞ) hafði í einu atriði ekki rjett eftir mjer. Hann sagði, að jeg hefði sagt, að þessi styrkveiting væri óforsvaranleg. Jeg efast ekki um, að unt er að verja 200 þús. kr. forsvaranlega í þarfir landbúnaðarins, en jeg kvartaði undan því, að ekki væri gerð grein fyrir nýjum verkefnum fyrir þessa 60 þús. kr. hækkun, sem farið er fram á frá því, sem er í núgildandi fjárlögum. Jeg verð að segja, að mjer finst það vera undarlegt og átakanlegt skilningsleysi hjá hv. frsm., þegar hann heldur, að hann geti bætt úr þessu með því í þriðja sinn að lýsa, hvaða menn sjeu kosnir í stjórn Búnaðarfjelags Íslands og telja upp ýmsa ágætismenn í búnaðarþinginu. Þetta vissu allir hv. þdm. áður, en það, sem menn munu ekki vita, er það, til hvers á að verja styrkhækkuninni. Um það er ósagt enn. En það kynni að hafa sætt ýmsa hv. þdm. við þessa hækkun, ef þeir hefðu fengið að vita, til hvers ætti að nota fjeð. Hitt er alveg út í bláinn sagt, að með þessu væri gert lítið úr mönnum í búnaðarþinginu. Jeg tók fram, að ekki væri nema eðlilegt, að menn, sem skoðuðu sig sem fulltrúa sinnar stjettar, færu fram á sem mesta fjárveitingu henni til handa. Út á það er ekkert að setja, og að hæsta till., sem fram kom í búnaðarþinginu, sje samþykt í einu hljóði, er svo eðlilegt og sjálfsagt, að mjer finst undarlegt, að hv. frsm. skuli leggja nokkuð upp úr því, þó að enginn greiði mótatkvæði, vegna þess að hún sje of há.

Þá mintist hv. frsm. á ummæli mín um breytta aðstöðu fjvn. frá því í fyrra og vildi skilja þau svo, sem jeg væri að ámæla einum manni, sem ekki átti sæti í nefndinni í fyrra, sem sje hv. þm. Dala. (BJ). Þetta er misskilningur, en verið getur, að jeg hafi ekki verið nógu skýrmæltur. Hv. þm. Dala. hefir sömu aðstöðu í fjárveitingum og hann hefir haft, að minsta kosti öll þau þing, sem jeg hefi setið með honum, og enginn hefir búist við öðru af honum. En jeg kvartaði undan því, að nú væri brostin sú samheldni í fjvn., sem búast hefði mátt við af sömu mönnunum, sem áttu þar sæti í fyrra. Jeg þarf ekki að kvarta undan fjárveitingatillögum nefndarinnar sjálfrar, því að þær hafa átt mikinn rjett á sjer, en þegar svo nefndin fer að taka afstöðu til brtt. annara þm., þá kemur munurinn fram. Þar stóð nefndin saman í fyrra. En nú er afstaðan venjulega sú, einkum í þeim hluta, sem háttv. þm. Str. (TrÞ) hefir með að gera, að annaðhvort hafa nefndarmenn óbundin atkvæði eða meiri hlutinn er með. Við atkvgr. falla svo atkvæði nefndarmanna á víð og dreif. En í þessu sambandi mintist jeg ekki á hv. þm. Dala.

Þá talaði hv. frsm. um, að jeg gengi fastast fram í því að svifta ríkissjóð tekjum. Þetta nær engri átt. Fyrst og fremst hefi jeg ekki gert það, en þótt svo væri, að fjármálaráðherra hefði sjeð sjer fært að stinga upp á linun á sköttum, gæti það ekki rjettlætt þá aðstöðu, sem nú er tekin upp af þinginu, að heimta, að gjaldþegnar borgi bæði lausaskuldir og leggi stórum fram fje til verklegra framkvæmda samtímis. Jeg teldi mjer það síður en svo til ámælis, þó að jeg stingi upp á skattalinunum og vildi láta verklegar framkvæmdir bíða. Það eina ákveðna, sem hv. frsm. nefndi, var rangt. Hann talaði um 600 þús. kr. tekjumissi, sem missist við stjfrv., og átti þar við tekju- og eignarskatt. Ef hann hefði kynt sjer málið nokkuð, hefði hann komist að því, að ekki er um neinn 600 þús. kr. tekjumissi að ræða, heldur færist upphæðin af tekjum ársins 1925 yfir á tekjur áranna 1926 og 1927, sinn helmingurinn á hvort árið. Allur missir fyrir ríkissjóð var. samþyktur ágreiningslaust hjer í þinginu, sem sje ákvæðið um skattfrelsi ákveðins hluta af tekjum hlutafjelaga, sem lagðar eru í varasjóð.

Hvað kjötútflutningnum viðvíkur, skal jeg láta í ljós ánægju mína yfir því, að það er komið í ljós, sem mig grunaði, að við þyrftum ekki að fleygja frá okkur öllum vonum um að koma kjötinu kældu, þ. e. a. s. nýju, á markaðinn. Vona jeg, að þetta komi síðar enn betur í ljós.