11.05.1925
Neðri deild: 77. fundur, 37. löggjafarþing.
Sjá dálk 1113 í B-deild Alþingistíðinda. (276)

1. mál, fjárlög 1926

Sveinn Ólafsson:

Örfá orð út af brtt þeirri á þskj. 527, sem nú samstundis var útbýtt. Hv. 2. þm. Reykv. (JBald) hefir mælt fyrir henni og gert grein fyrir, hvers vegna hún er fram komin. Jeg skal þá að gefnu tilefni geta þess, að fjhn. beggja deilda komu fyrir nokkrum dögum saman á fund til þess að útkljá meðferð launalagafrv. Það varð að samkomulagi milli nefndanna að leggja til, að í fjárlögum yrðu veittar alt að 20 þús. kr. í því skyni að bæta þeim lægst launuðu opinberu starfsmönnum upp laun sín, auk þess sem nú þegar er ætlað í fjárlagafrv. til að bæta upp laun símastúlkna sjerstaklega. Átti fjhn. efri deildar að bera till. fram, þar eð fjárlagafrv. var þá til umr. í Ed. Af því að hjer er farið fram á 10 þús. kr. meira heldur en þar varð að samkomulagi, þá finn jeg mig knúðan til að koma fram með skriflega brtt. í þá átt, að í staðinn fyrir 130 þús. kr., eins og stendur í brtt., komi 120 þús. kr., og að í stað þess, sem stendur í 2. lið till., 30 þús., komi 20 þús. Jeg þykist vita, að hv. fjvn. sjái sjer ekki fært að greiða atkv. með till. eins og hún er, en finst dálítil von um, að hún geti fylgt henni, ef farið er eftir því, sem að samkomulagi varð með báðum nefndunum.

Jeg veit ekki, hvort hæstv. forseti vill taka þetta til greina, en það er síðasta tilraun til þess að bjarga málinu.