13.05.1925
Neðri deild: 79. fundur, 37. löggjafarþing.
Sjá dálk 944 í C-deild Alþingistíðinda. (2785)

35. mál, löggiltir endurskoðendur

Bjarni Jónsson:

Það ber vitni um mælsku manns, að geta haldið skemtilega ræðu um alvarleg málefni, eða lítið efni.

Nú hefir hv. 1. þm. Árn. (MT) sýnt hversu snjall hann er að sjá grýlur og vofur, þar sem engar slíkar forynjur er að finna. Ein fyrsta fyndni hans var að segja, að um löggilding endurskoðenda væri engin skilyrði í frv., önnur en það að maðurinn væri skapaður í kross. Þetta stendur nú hvergi í frv. Hv. þm (MT) er því svo snjall, að sjá skilyrð sem hvergi eru sett. En hinsvegar sást honum líka yfir öll skilyrðin, sem frv. setur, enda gat hann með því móti betur notið fyndni sinnar.

Í fyrri lið 2. gr. eru sett hin sömu skilyrði, sem bæði dómarar og æðri embættismenn verða að fullnægja, áður en þeir fá veitingu fyrir embættum sínum, t. d. að þeir sjeu fjárráðir og hafi óflekkað mannorð o. s. frv.

Í 2. lið greinarinnar er ennfremur krafist hins sama af endurskoðendunum sem t. d. krafist er af dómurun að þeir færi sönnur á kunnáttu sína með þeim hætti, sem stjórnarráðið telur gildan, t. d. með prófvottorði, eins og embættismenn gera að jafnaði. Má því segja, að í frv. þessu sjeu sett nákvæmlega samskonar skilyrði sem öðrum opinberum sýslunarmönnum er sett. Hinsvegar er þess hvergi krafist, að endurskoðendurnir skuli vera skapaðir í kross. Er ekkert því til fyrirstöðu, að í þá vanti t. d. einhverja sveif eða eitt hvað þessháttar, enda mun þess ekki heldur krafist af dómurum.

Hv. þm. (MT) sagði, að endurskoðendurnir mættu ekki vera þjófar. Í frv. er þetta sama skilyrði, sem bæði hv. þm. (MT) og aðrir opinberir starfsmenn hafa orðið að fullnægja, óflekkað mannorð.

Þá segir hv. þm. (MT) að hættulegt sje að hafa löggilta endurskoðendur, sem heita því við drengskap sinn, að vinna verk sín eftir bestu vitund og ljósta ekki upp leyndarmálum, og telur ósvinnu, að endurskoðun þeirra skuli talin jafngild endurskoðun dómkvaddra manna. Jeg hygg, að dómarar telji yfirleitt skyldu sína að kveðja bestu menn, sem völ er á, til slíkra starfa, en hjer er sjaldan völ á verulega góðum endurskoðendum. En þegar slík stjett kemst hjer á legg og aldur og þroski færist yfir hana, þá verður nóg mannval til endurskoðunar. Löggilt endurskoðun getur aldrei raskað rjettarvissu, heldur einmitt aukið hana. Ekki getur hún heldur gert dómurum erfiðara fyrir, heldur ljett undir með þeim.

Jeg ímynda mjer, að hvorki hv. 1. þm. Arn. (MT) nje nokkur annar dómari myndi hugsa sig tvisvar um, áður en hann leitaði til löggiltra endurskoðenda, ef þess væri kostur.

Hv. þm. (MT) þótti voðalegt að þurfa að nota löggilta endurskoðendur við endurskoðun þrotabúa og atvinnufyrirtækja, vegna þess, að ekki sje víst, að þeim verði treyst. Það er rjett, sem hv. þm. Barð. (HK) skaut hjer fram í umr., að yfirleitt verða menn að sætta sig við opinbera sýslunarmenn, þó að þeir vantreysti þeim persónulega. Ríkið hefir treyst þeim, þegar þeir fengu embættin, og það á að vera meiri trygging en þó að einhverjir einstaklingar vantreysti þessum sömu mönnum.

Jeg fæ ekki skilið þá fullyrðingu hv. þm. (MT), að orð endurskoðendanna eigi að standa sem dómsorð. Dómarar dæma auðvitað eftir sem áður eftir sinni betri þekkingu og viti, ef endurskoðendurnir gera eitthvað skakt.

Hv. þm. (MT) þótti óhæfa að tala um kauptaxta, vegna þess að endurskoðendurnir myndu einkum vinna hjá burgeisum, sem hann kallaði.

Taxtann á einmitt að setja vegna þeirra, sem efnaminni eru, en þurfa þó að nota endurskoðendurna, og svo vegna hins opinbera. — Annars skilst mjer, að þetta orð: „burgeis“, sje hið sama og franska orðið „bourgeois“, sem þýðir „borgari“, en þeir geta bæði verið fátækir og ríkir, eins og allir aðrir hv. þm. vita. Að vísu er ekki ósennilegt, að hæstv. stjórn verði í vanda stödd, að ákveða taxta fyrir jafnerfið endurskoðunarstörf sem þau t. d., að þrautreyndur og alfullkominn dómari þarf ekki minna en ár til að endurskoða einn reikning. En hæstv. stjórn reynir hvað hún getur, því sjálfsagt er, að slíkum endurskoðendum sje sett gjaldskrá, sem mörgum öðrum opinberum sýslunarmönnum. Hinir efnaminni eiga líka að geta aflað sjer þeirrar tryggingar, sem felst í endurskoðun löggiltra manna.

Þá sagði hv. þm. (MT), að þessir endurskoðendur hafi hingað til aðallega verið notaðir til þess að hjálpa hlutafjelögum til að draga undan rjettmætum tekjuskatti í ríkissjóð. Hversvegna erum við þá að ræða þetta mál, ef löggiltir endurskoðendur eru til í landinu og hafa hjálpað mönnum til að gefa upp til skatts um langan tíma? Nú um 6–8 ára skeið hefir minn tilgangur verið sá, að stjett þessi yrði til í landinu og menn geti aflað sjer þeirrar tryggingar, sem felst í endurskoðun manna, sem hafa vit og næga þekkingu á endurskoðun, og það eiga löggiltir endurskoðendur að hafa. Það er rjett, að þessi stjett er ung og fámenn; hún er alls ekki til enn.

Að lokum vil jeg þakka hv. þm. (MT) andmæli hans gegn frv., þar sem þau hafa snúist í hin bestu meðmæli, sem jeg get kosið.