11.05.1925
Neðri deild: 77. fundur, 37. löggjafarþing.
Sjá dálk 1117 í B-deild Alþingistíðinda. (285)

1. mál, fjárlög 1926

Jakob Möller:

Jeg vil benda hv. 1. þm. S.-M. (SvÓ) á það, ef hann mætti vera að hlusta á mig, að í raun og veru var aðalágreiningsefnið í fjhn. um þessa aukauppbót til lægst launuðu starfsmanna, hvort ætti að setja upphæðina í lögin um dýrtíðaruppbót eða setja hana í fjárlög. Um annað var eiginlega enginn ágreiningur, því að meðan nefndin vann saman varð ekki komist að neinni niðurstöðu um neina ákveðna upphæð. En eins og hv. 2. þm. Reykv. (JBald) hefir bent á, þá var varla hægt að koma þessu fram öðruvísi en að hafa þessa upphæð nú, ef ætti að fara eftir reglum, sem búnar voru til af meiri hl. fjhn. En það hefir farið svo óhöndulega, að önnur regla hefir ekki verið búin til. Þetta gildir aðeins fyrir þetta ár. Næsta þing getur auðvitað minkað uppbótina, ef ástæður sýnast fyrir hendi. Jeg vildi því mælast til þess, að hv. minni hl. nefndarinnar og þeir hv. þdm., sem honum fylgdu að málum um dýrtíðaruppbótarfrv., settu þetta ekki fyrir sig í þetta sinn, og tækju helst aftur þessar skriflegu brtt. Og sömu áskorun vil jeg leyfa mjer að beina til hv. þm. V.-Ísf. (ÁÁ), því að jeg get ekki annað sjeð en að tillaga hans verði bara til að fella þetta mál að þessu sinni. Hann gæti síðan borið slíka tillögu fram á næsta þingi. Hinsvegar vil jeg endurtaka það, sem jeg skaut fram áðan, að ef þetta verður ekki sett í fjárlög, þá geri jeg ekki ráð fyrir öðru en þau fari í sameinað þing, þar sem fjhn. Ed. er öll á einu máli um að setja einhverja slíka upphæð í fjárlög. En ef fjárlögin þurfa hvort sem er í sameinað þing, má breyta þessari upphæð samkvæmt till. hv. 1. þm. S.-M. (SvÓ); en mjer finst það of lítilfjörlegt, sem greinir á um, til þess að láta það valda miklum vafningum.