11.05.1925
Neðri deild: 77. fundur, 37. löggjafarþing.
Sjá dálk 1118 í B-deild Alþingistíðinda. (287)

1. mál, fjárlög 1926

Hákon Kristófersson:

Háttv. frsm. síðari kafla fjárlagafrv. (TrÞ) lagði mikla áherslu á að beina því til hv. deildar, að hún skyldi snúast á móti till. minni við komandi Staðarfellsskólanum. Jeg er samt ekki að lá honum það frá sínum bæjardyrum sjeð, þótt hann skori á menn að fylgja sjer í þessu efni. Hann benti á það, að ef Sigurborg Kristjánsdóttir og bróðir hennar hefðu jörðina, þá mundu þau með sínum alþekta dugnaði setja sitt menningarmark á staðinn. Jeg viðurkenni þennan vitnisburð, sem þessar heiðursmanneskjur eiga skilið, en frá mínu sjónarmiði á þetta alls ekki að snúast um mennina; þetta er sjerstakt málefni, sem getur aldrei gilt til lengdar fyrir sömu persónur. Þessi skoðun hjá hv. þm. Str. (TrÞ), vini mínum, er alveg hliðstæð því, þegar hann sagðist fylgja landsverslun svo fast vegna þess, að sá heiðursmaður Magnús Kristjánsson stæði fyrir henni. Reyndar vorum við sammála hvað Magnús snertir, en jeg læt mjer ekki detta í hug að blanda málefnunum saman við mennina.

Ef Magnús Friðriksson er nú samþykkur því að setja húsmæðraskóla á stofn, þá hefir hann hlotið að taka aftur skilyrðin í gjafabrjefi sínu, eftir því sem jeg hefi best vit á. Ef hv. deildarmönnum er ekki vel kunnugt um það, þá vil jeg taka það fram, að fyrsta skilyrði hans, er hann gefur jörðina, er það, að hinn fyrirhugaði kvennaskóli frú Herdísar Benediktsen yrði settur að Staðarfelli. Svo tengir hann þetta skilyrði fast við gjöf sína, að hann áskilur sjer, að lífeyrir sje sjer borgaður úr ríkissjóði eða sjóði Herdísar Benediktsen. Þá áskilur hann sjer 4 herbergi, en það er aukaatriði, en síðan segir hann: „Það er ósk mín, að hinn fyrirhugaði kvennaskóli gæti einnig orðið húsmæðraskóli, ef það þætti tiltækilegt, þegar til skólans kemur. En þetta er aðeins ósk mín.“ Hann hlýtur að hafa breytt fyrra gjafabrjefinu; það þarf ekki að leika á tveim tungum, að hann getur ekki hafa gefið seinni gjöfina með andstæðum skilyrðum við hina fyrri, nema hann hafi tekið fyrra brjefið aftur. Nei, það er með öllu heimildarlaust að bendla á nokkurn hátt Staðarfellsgjöfina við gjafabrjef frú Herdísar Benediktsen. Jeg vona, að hv. þm., ef þeir vilja hugsa um málið frá þeirri hlið, sem jeg nú hefi bent á, að þeir verði mjer sammála um þetta.

Það hefir verið dálítið deilt um það, hvað mikils virði Staðarfell væri. Það er nú sjálfsagt mikils virði, en til glöggvunar á því máli hefir Magnús Friðriksson sjálfur metið það á 70 þús. kr. Þegar þar er dregin frá 8 þús. kr. skuld, þá eru rúmar 60 þús. kr. eftir.

Jeg ætla svo ekki að fjölyrða um þetta mál; framkoma þess byggist á frændsemi og vináttu, og jeg veit, að þeir hafa heiðurinn af því, sem koma því fram á þann hátt.