06.03.1925
Neðri deild: 27. fundur, 37. löggjafarþing.
Sjá dálk 1032 í C-deild Alþingistíðinda. (2888)

76. mál, bæjargjöld í Reykjavík

Halldór Stefánsson:

Það mátti skilja á umr. um daginn um Hafnarfjarðarfrv. svokallaða, að mönnum þykir of langt gengið í því, að elta menn með útsvarsálagningar, þó að þeir dvelji stuttan tíma við atvinnu annarsstaðar en þar, sem þeir eiga heima. Þegar Reykjavíkurlögin voru samþykt í fyrra, var gengið lengra en áður, og ný ákvæði voru sett, sem ákveða, að menn, skrásettir á skipum í Reykjavík, sjeu útsvarsskyldir þar, jafnvel hvað stuttan tíma, sem um er að ræða. Mun þetta hafa verið gert aðallega með tilliti til fiskiflotans, en nær þó einnig til flutningaskipa, t. d. Eimskipafjelagsskipanna. Afleiðing þess er sú, að þetta eina ár hafa skipshafnirnar á skipunum orðið útsvarsskyldar hjer, jafnframt því sem þeir eru útsvarsskyldir þar, sem þeir af eðlilegum ástæðum hafa fast aðsetur eða heimili, en svo stendur vitanlega á með marga af þessum mönnum. T. d. er svo með skipstjórana á tveim aðalskipum Eimskipafjelagsins, að annar er búsettur á Norðurlandi, en hinn á Austurlandi. Báðir hafa kvartað mjög undan þessu, því að erfitt er að fá leiðrjettingu gjalda á tveim stöðum, ef þörf er á, og vera þó ef til vill fjarverandi á báðum stöðum.

Eftir því sem mönnum hafa farist orð í þessu máli, má ætla, að menn vilji ekki lengra ganga, heldur miklu fremur draga að sjer hendina. Það ætlar að rætast gamla orðtakið, að ein syndin býður annari heim. Þessi lög eru fram komin meðfram af því, að Hafnarfjörður óskar nú eftir sömu aðstöðu og Reykjavík fjekk í fyrra með bæjargjaldalögunum. Má búast við, að hver kaupstaðurinn komi á fætur öðrum og æski hins sama. Af því að þetta atriði um skrásetning skipanna er sjerstakt atriði, sem enga hliðstæðu á annarsstaðar, þá finst mjer rjett að afnema þennan brodd nú þegar og samþykkja þetta frv.

Einn af kostunum við að Alþingi kemur saman árlega er sá, að með því móti er hægt að leiðrjetta eftir eitt ár, ef mistök hafa orðið, en svo hefir einmitt orðið nú. Þó að þetta frv. verði samþ., þá þarf það ekki að vera til fyrirstöðu því, að sveitarstjórnarlöggjöfinni verði vísað til sjerstakrar nefndar eða stjórnarinnar til athugunar til næsta þings.