06.03.1925
Neðri deild: 27. fundur, 37. löggjafarþing.
Sjá dálk 1033 í C-deild Alþingistíðinda. (2890)

76. mál, bæjargjöld í Reykjavík

Jakob Möller:

Jeg get ekki látið hjá líða að mótmæla því, sem hv. þm. hafa slegið fram, um að það hafi verið rangt að samþykkja í fyrra heimildina fyrir Reykjavík til að leggja útsvar á utansveitarmenn. Það var ekki rangt, heldur fullkomlega í samræmi við það, sem búið var að setja áður í hin almennu sveitarstjórnarlög. Það er ómögulegt að gera upp á milli þess, að leggja útsvör á kaupafólk og fólk á skipum. Það er algert samræmi í því. Enda þótt hv. 1. þm. Árn. (MT) segi, að útsvar á kaupafólki sje ekki í samræmi við lögskýringuna, þá er lögskýringin mjög vafasöm nú orðið, og þó að hún hafi einhverntíma verið staðfest af landsyfirrjettinum, sem var lagður niður um áramótin 1919–1920, veit jeg ekki, hvort hún fær staðist nú; að minsta kosti er hún að engu höfð, og hæstarjettardómur er enginn til um þetta. Það er að minsta kosti augljóst, að sú lögskýring er mjög vafasöm, nú eftir allar breytingarnar, sem gerðar hafa verið á sveitarstjórnarlögunum síðustu árin. Og viðvíkjandi því, að órjettmætt sje að leggja á skipafólk, vil jeg vekja athygli á því, að þegar útgerðin vex, vex einnig áhætta í sambandi við útgerð. Ef útgerð legst niður, fara utansveitarmennirnir burt, en kaupstaðarfólkið situr eftir með alla ábyrgðina og stendur uppi atvinnulaust. Af þessu sjest, að ekki er ósanngjarnt, að menn, sem stunda atvinnu á skipum, leggi fram til viðkomandi bæjarfjelags. Jeg get alls ekki fallist á, að rjett sje að afgreiða þetta frv. frá þingi í von um, að siðar verði komið samræmi á lögin í heild sinni, því að vel getur endað svo, að þetta frv. verði samþykt, en lögunum ekki breytt síðan. Meðan þeim er ekki breytt fyrir aðrar sveitir, er rangt að breyta Reykjavíkurlögunum og neita Hafnarfirði um þennan rjett.