06.03.1925
Neðri deild: 27. fundur, 37. löggjafarþing.
Sjá dálk 1034 í C-deild Alþingistíðinda. (2891)

76. mál, bæjargjöld í Reykjavík

Flm. (Hákon Kristófersson):

Jeg ætla ekki að vera langorður, en vil aðeins geta þess, að svo er sem sumir álíti óþarft að fjölyrða um þetta mál. Finst mjer þó meiri ástæða til að tala um þetta en það mál, sem mest hefir verið rætt hjer undanfarna daga.

Sjerstaklega vil jeg þakka hv. 2. þm. Rang. (KIJ) fyrir góðgjarnar og viturlegar undirtektir hans í þessu máli. En mjer virtist hann fallast á, að frv. mitt færi í rjetta átt, en álíta, að það ætti samt að sofna í nefnd. (KIJ: Til næsta árs.) Það er ekki rjett, nema í sjerstöku tilfelli, sem sje, ekki nema vissa sje fengin fyrir því, að stjórnin taki það til rækilegrar íhugunar. Fyrir mjer vakir hin sama skoðun og fyrir hv. sessunaut mínum (HStef), að útsvarsskyldu utanbæjarmanna beri að taka úr Reykjavíkurlögunum. Jeg er ekki samþykkur því, sem hv. 3. þm. Reykv. (JakM) sagði, að þegar menn kæmu úr sveitunum til að stunda hjer sjó, sætu bæjarmenn eftir með alla ábyrgðina, ef útgerðin legðist niður. Þetta get jeg ekki sjeð að sje rjett.

Að öðru leyti skal jeg ekki fjölyrða um þetta, en jeg vænti, að hv. deild, og hv. nefnd taki til greina viturlegar tillögur hv. 1. þm. N.-M. (HStef), sem hann tók fram í ræðu sinni.