15.05.1925
Efri deild: 79. fundur, 37. löggjafarþing.
Sjá dálk 66 í D-deild Alþingistíðinda. (3135)

139. mál, verndun frægra sögustaða

Flm. (Jónas Jónsson):

*) Jeg get verið stuttorður um þessa till. Jeg vænti þess, að hún verði borin undir atkv. í tvennu lagi, því sumir kunna að vilja greiða atkvæði með A-lið, þótt þeir fallist ekki á B-lið. Tilgangur þáltill. er fyrst og fremst að vekja sjerstaka athygli á verndun þingvalla. 1000 ára afmæli Alþingis fer bráðum í hönd, og má ekki seinna vera en að farið sje að hugsa til einhverra framkvæmda til verndunar og umbóta á staðnum. Jeg ber ekki þessa till. fram samkv. ósk þingvallanefndarinnar, en hitt veit jeg, að nefndarmenn óska allir einhverrar löggjafar um þingvöll. En bæði nefndin og aðrir líta í rauninni svo á, að ekki þurfi annars með en að gefa þessari nefnd, sem þegar er skipuð og starfar að undirbúningi hátíðahaldanna, víðtækara starfssvið. Að fimm árum liðnum má búast við miklum fólksstraumi til þingvalla víðsvegar af landinu og frá öðrum löndum, til þess að vera við hátíðahöldin. Það þarf því að hefjast handa sem allra fyrst, bæði um friðun á þessum helga stað þjóðarinnar og að gera nauðsynlegan undirbúning undir hátíðahöldin og til að taka á móti öllum þeim mannfjölda, sem þangað mun leita, án þess að leggja alt of mikið í kostnað. Og það verður að líta jafnt eftir veradun staðarins utan þinghelginnar sem innan. Ef t. d. einhver fyndi upp á því að byggja hús á vestari bakka Almannagjár, sem er utan þinghelginnar, yrði það til að stórspilla þessum fornhelga stað.

Um annan lið till. er það að segja, að sæmd þjóðarinnar krefst þess, að staðir, sem frægir eru úr fornsögum vorum, falli ekki í niðurníðslu. Mætti t. d. nefna staði eins og Hlíðarenda, Bergþórshvol og Hjarðarholt í Dölum og fleiri.

Jeg ætla að nefna eitt dæmi um staðreyndir þær, sem hjer eru hverjum manni sýnilegar, um meðferð þessara frægu sögustaða, enda þótt mörgum sje þetta allviðkvæmt mál. Fyrir 40 árum síðan var hjer á ferð W. Morris, merkismaður mikill og hinn mesti Íslandsvinur. Segir hann í ferðaminningum sínum, að sig hafi brostið orð til að lýsa hrifning sinni, er hann kom í landsýn, enda var maðurinn búinn að lesa mikið um land og þjóð og mjög fróður í sögu okkar. Hann ferðaðist hjer víðsvegar um landið og kom meðal annars að Hlíðarenda, Bergþórshvoli og víðar. En maðurinn var alt of kurteis og vinveittur í okkar garð til þess að lýsa tilfinningum sínum, þegar hann kom þangað. En það er auðsætt, að koma hans á þessa forahelgu staði hefir verkað á hann eins og ískalt steypibað.

Jeg vil ekki mæla í gegn till. hv. 2. þm. S.-M. (IP), en jeg hugsa mjer, að hæfir menn verði fengnir til að gera skynsamlegar tillögur um endurreisn fornra sögustaða, þegar að því verður horfið. Enda þótt B-liður till. minnar og viðhorf háttv. 2. þm. S.-M. (IP) við henni sje ekki gagnhugsað enn, eru þar þó nefndir ýmsir þeir staðir, sem einna brýnust nauðsyn ber til að teknir verði til varðveislu og verndunar.

Óyfirlesin ræða.