11.05.1925
Sameinað þing: 5. fundur, 37. löggjafarþing.
Sjá dálk 88 í D-deild Alþingistíðinda. (3173)

131. mál, steinolíuverslunin

Flm. (Sigurjón Jónsson):

Nú um 20 ára skeið hefir innflutningur til landsins af steinolíu vaxið mjög og að heita má jafnt og þjett. Að vísu er dálítill áramunur í þessum vexti, en á þessum 20 árum hefir árlegur innflutningur vaxið úr nokkrum þúsundum fata upp í 45 þúsund föt, en það var hann 1924. Þessi geysimikli vöxtur á innflutningi steinolíu stafar auðvitað af mjög mikilli fjölgun vjelbátanna hjá okkur. Fyrstu vjelbátana fáum við hjer við land rjett eftir aldamótin síðustu, en sá bátaútvegur vex ákaflega ört og þá jafnframt notkunin á steinolíu.

Verslun landsmanna með þessa vörutegund hefir oft verið mjög óhagkvæm, sakir þess, að einstök fjelög hafa haft steinolíuverslunina í hendi sjer. Hafa þessi einstöku fjelög því ráðið verði olíunnar, og naut frjáls verslun sín því ekki með þessa vöru. Þannig var þessu varið hjer á landi, og þannig var þessu varið um öll Norðurlönd, alt fram að 1920. Eftir stríðið eða sjerstaklega frá 1920 fer að skapast samkepni í sölu á steinolíu, einkum á þeim tegundum af olíu, sem notaðar eru til vjela. En samkepni þessi kemur af framleiðslu olíunnar í Austur-Evrópu og Asíu.

Eins og jeg sagði, hefir verslunin með steinolíu oft þótt landsmönnum mjög óhagkvæm. Hefir þetta oft komið mjög skýrt fram, bæði í ræðu og riti. Einkum þótti fjelag það, er um mörg ár hafði hjer steinolíuverslunina á hendi, harðdrægt við landsmenn um samninga og verð á olíunni. Kemur þetta berlega fram í ræðum háttv. þm. hjer á Alþingi 1912, er rætt var um einkasölu á steinolíu. Á þinginu 1912 komu fram frv. um einkasölu á kolum og steinolíu. Frv. þessi vöru fram borin til þess að afla ríkissjóði tekna á þennan hátt, en afstaða þingmanna til þessara mála sýnir það ljóslega, að Alþingi kunni þá sem oftar að meta verslunarfrelsi okkar, því aðalástæðan hjá þeim, sem vilja sinna steinolíueinkasölunni, er sú, að einokun sje á þessari vöru hvort sem er, og þetta sje eina ráðið til þess að bæta verslunina með þessa vöru. Sje varan á annað borð einokuð, þá sje betra, að landið einoki hana en aðrir. Samt voru þá í þinginu nokkrir þingmenn svo einlægir vinir frjálsrar verslunar, að þeir tjá sig mótfallna hverskonar einkasölu sem er. Eiga sumir þeirra þingmanna sæti hjer enn, eins og hv. þm. N.-þ. (BSv), hv. þm. Dala (BJ) og hv. 2. þm. G.-K. (BK). Hefir mjer þótt sjerstaklega ánægjulegt að lesa það, sem hv. þm. N.-Þ. sagði þ á um þessi mál.

Á stríðsárunum og einnig á árunum eftir stríðið hneigðust hugir margra manna að margskonar einkasölu, og var það eðlileg afleiðing af þeim mörgu og miklu takmörkunum, sem lögðust á öll verslunarviðskifti manna á þeim tímum. Árið 1917 eru nokkur einkasölufrv. á ferðinni hjer á Alþingi, svo sem frv. um einkasölu á kolum, sementi og steinolíu. Af þessum frv. verður frv. um einkasölu á steinolíu eitt að lögum. Vilji þingsins 1917 er enn sá sami og áður, að ganga ekki inn á einkasölubrautina nema alveg sjerstakar ástæður sjeu til. En þær ástæður voru, að því er steinolíuna snerti, að verslunin með þessa vöru var í rauninni ekki frjáls. Samt var það einmitt á þessum árum, 1917–21, að hugir fleiri manna en nokkru sinni áður hneigðust að einkasölu ríkisins á ýmsum vörum.

Til þess nú að sjá ljóslega tilgang þessara einkasölulaga frá 1917 verð jeg að athuga gang þessa máls þá á Alþingi. Frv. er stjfrv., lagt fram samkvæmt ósk og sniðið eftir frv. frá tveim hv. núverandi þm., þm. N.-þ. (BSv) og 2. þm. Árn. (JörB), á næsta þingi á undan. í umræðunum um málið kemur það berlega í ljós, að aðaltilgangurinn er sá, að tryggja landsmönnum næga steinolíu með sem lægstu verði. Hinsvegar voru skiftar skoðanir um það, hvort ríkissjóður ætti að hafa nokkrar tekjur af þessari einkasölu. í stjórnarfrv. var gert ráð fyrir 6% álagi, en þegar í byrjun umræðnanna um málið kemur það skýrt fram, að gjald þetta þykir of óákveðið og of hátt. Hv. þm. N.-þ. (BSv), sem flutt hafði frv. það, er stjfrv. var sniðið eftir, tekur það ótvírætt og ákveðið fram, að þessi einkasala megi ekki og eigi ekki að skoðast sem tekjulind fyrir ríkissjóð, en eitthvert gjald verði ríkissjóður að hafa, til þess að tryggja hann fyrir áhættu. Hv. 2. þm. Árn. (JörB) fær gjaldið af hverju fati lækkað ofan í 4 kr., þegar nefnd hafði lagt það til, að álagningin skyldi verða 5 kr. af fati. Varð sú niðurstaðan, að þetta 4 króna gjald skyldi að jöfnu skiftast milli ríkissjóðs og varasjóðs Landsverslunarinnar, en varasjóður átti þá líka að sjálfsögðu að greiða þau töp, er Landsverslun biði, að því leyti sem varasjóðurinn hrykki, en ríkissjóður að taka við, ef meiri töp yrðu. Þegar nú á það er litið, að vörutollur af steinolíu fellur niður með einkasölunni, en það gjald væri nú til ríkissjóðs um kr. 1.40 á fatið, og þegar jafnframt er tekið tillit til, hvernig þessi lög eru til orðin 1917, þá er ekki rjett, og hefir aldrei verið rjett, að skoða þessa einkasölu sem tekjulind fyrir ríkissjóð. Er það hvorttveggja, að gjaldið til ríkissjóðs er svo lágt, þegar vörugjaldið er frá dregið, en þó sjerstaklega hitt, að ómögulegt er fyrir ríkissjóð að reka þessa verslun svo, að henni fylgi ekki mikil fjárhagsleg áhætta.

Hin fjárhagslega áhætta er meira að segja svo mikil, að samlagt gjald það, er rennur í varasjóð Landsverslunarinnar, og svo gjald það, er ríkissjóður fær umfram vörutollinn, er hlutfallslega mjög lágt til þess að standast þá áhættu. Í þessu sambandi skal jeg skjóta því að, að jeg hefi fulla ástæðu til þess að ætla, að steinolíueinkasalan sje í þessu efni ekki rekin samkvæmt þar um gildandi lögum; jeg hefi ástæðu til þess að ætla, að á olíuna sje lagt fyrir afföllum skulda, í stað þess að láta varasjóð Landsverslunarinnar bera þau töp. Vitna jeg þar bæði til laganna sjálfra, en auk þess til reglugerðar um einkasölu á steinolíu, frá 28. des. 1922, 4. gr. Vil jeg skjóta því til hæstv. stjórnar að láta rannsaka þetta atriði. Gögn mín í þessu máli eru ekki rýrari en það, að þau byggjast á skýrslu frá Landsversluninni sjálfri. En reynist þetta rjett, að lagt sje á olíuna fyrir afföllum skulda, þá ákæri jeg hjer í heyranda hljóði forstjóra Landsverslunarinnar fyrir að innheimta skatt í ríkissjóð, móti lögum og rjetti, af þeim, er steinolíuna nota og hana borga, en það eru sjerstaklega útvegsmenn og sjómenn. Hafi nokkuð kveðið að því, að menn hafi þannig, þvert ofan í lög og reglugerð, verið skattlagðir, þá eiga kaupendur olíunnar fullan rjett til þess að fá það endurgreitt af varasjóði Landsverslunarinnar.

Af því, sem jeg nú hefi sagt, ætti það að vera ljóst, að einkasala landsins með steinolíu á ekki að vera tekjulind fyrir ríkissjóð, enda væri slík skattlagning í alla staði mjög ósanngjörn, þar sem aðeins nokkur hluti landsmanna væri með því skattlagður, og þá aðallega sjávarútvegurinn, mótorbátaútvegurinn.

Nei, tilgangur einkasölunnar hefir verið og á að vera, svo lengi sem hún stendur, einvörðungu sá, að tryggja landsmönnum næga steinolíu fyrir sem lægst verð. Kem jeg þá að því að tala um till. þá til þál., sem hjer liggur fyrir, út frá þeim grundvelli einum.

Ber þá að athuga tvent:

1. Hefir einkasala ríkisins á steinolíu náð þeim tilgangi, sem henni var ætlaður?

2. Eru hugsanleg önnur jafngóð ráð eða betri til þess að ná sama tilgangi?

Um fyrra atriðið er það að segja, að einkasalan hefir verið rekin með nokkurn veginn viðunanlegri forsjálni, því að ekki hefir borið á olíuþurð. En það hefir heldur aldrei skeð, sem þó mætti altaf eiga von á, að skipi hlektist á, eða einhverjar tafir aðrar kæmu fyrir, og mætti því segja, að teflt hafi verið á fremsta hlunn með að hafa ekki miklar birgðir í landinu.

Kem jeg þá að verðlaginu hjá einkasölunni. Er það skoðun mín og margra annara, er reynt hafa að kynna sjer það mál eftir föngum, að þar hafi einkasalan ekki fullnægt sínum tilgangi. Skal jeg þegar taka fram, að um þetta atriði eru skiftar skoðanir, enda hefir einkasalan haldið fram fyrir sig allmiklum vörnum í þessu máli, en einmitt á þeim vörnum byggja meðhaldsmenn hennar aðallega skoðanir sínar.

Til þess að rökstyðja skoðun mína tek jeg hjer ákveðin dæmi um olíutegundir, sem vel eru hjer þektar.

Tek jeg þá fyrst dæmi um mótorolíu þá, sem Sólarolía er kölluð, en fyrir og um síðastliðin áramót keypti Landsverslunin talsvert af þessari olíutegund í Kaupmannahöfn — frá Alf. Olsen. —

Þessa olíutegund seldi Landsverslunin á 30 aura per kíló og fatið á 14 kr., ef fatið var keypt af þeim, sem olíuna keyptu, en annars hafa fötin verið seld á kr. 14.50 og 15.00. Jeg hefi nú farið yfir afhendingarmiða á 80 fötum af þessari steinolíu, og var meðalþungi í hverju fati 1641/2 kíló.

Fatið af þessari steinolíu seldi því Landsverslunin hjer:

1641/2 kíló á 0/30 ...kr. 49.35

Fatið tómt til olíukaupenda.. — 14.00

Kr. 63.35

Þessi olía var keypt í Kaupmannahöfn á 131/2 eyri per kíló, en fatið sjálft kostaði kr. 12.00, hvorttveggja í dönskum peningum. Þessi olía hefði orðið einstökum kaupendum, sem keypt hefðu 2–300 föt, sem hjer segir, hefði einkasalan ekki verið:

1641/2 kíló á 131/2 eyri per kíló kr. 22.21

Fatið sjálft — 12.00

Flutningsgjald 9/00, vátrygging 0/20 –9.20

Gengismunur á kr. 43.41 á 4 aur. per 1/00 –1.74

Vörutollur til ríkissjóðs 1/50 — 1.50

Hafnargjald, ef losað er hjer í Rvík —0.60

Uppskipun á hafnarbakkann — 0.50

Kr. 47.75

Mism. frá verði Landsverslunar kr. 15.60

þennan mismun gerði jeg dálítið hærri, er jeg mintist á þetta dæmi hjer í vetur. Gerði jeg flutningsgjaldið kr. 1.00 lægra og gengismun eins og hann þá var, 2%, í stað 4% nú. Jeg mun ekki heldur hafa tekið uppskipun, sem Landsverslunin greiðir ekki, ef hún tekur á móti steinolíunni við skipshlið.

Hver treystir sjer nú til þess að halda því í alvöru fram, að Landsverslunin í þessu dæmi, sem hjer er tekið, sje að bæta olíuverslun landsins eða stuðli að því að lækka olíuverðið í landinu?

Jeg hefi sjálfur haft handa á milli skjal, þar sem Landsverslunin reynir til þess að rjettlæta þetta verð. Er þar fyrst til að greina, að tilfært er 15% rýrnun á steinolíunni. Satt að segja get jeg nú ekki tekið alvarlega, að hráolía — Sólarolía — rýrni um 15%. Þessa olíutegund frá sömu verslun höfðum við ýmsir notað talsvert áður en einokunin komst á, og þótti 3–5% rýrnun mjög mikil rýrnun; vanalega var rýrnunin sama sem engin, enda óþarfi að taka stórar sendingar í einu, þegar olían er flutt frá þeim stað, sem tíðar samgöngur eru við.

Jæja, Landsverslunin gefur nú upp 15% rýrnun; þetta leggur hún til peninga og leggur það við innkaupsverð, flutningsgjald og allan annan kostnað; síðan tyllir hún ofan á það 20% álagningu, sem hún kallar kaupmannsálag fyrir innlendum rekstrarkostnaði og verslunarágóða, en þá er líka verðið komið 2 aurum hærra á hverju kílói en verð Landsverslunarinnar eða upp í 32 aura kíló. En þegar þetta 32 aura verð er fengið, þá fylgir Landsverslunin sinni vanaaðferð og reiknar út, hve mikið fje olíunotendur og ríkissjóður græði á því, að Landsversl. er til og að kílóið af þessari olíu er selt á 30 aura, en ekki 32 aura.

Jeg ætla ekki að fara frekar út í þetta dæmi að sinni, en aðeins skjóta því fram, í viðbót við það tilgreinda, að í nýgerðri skýrslu segir sjálf Landsverslunin:

Innlendur kostnaður: Uppskipun, vörugjald, flutningsgjöld til útbúarekstrarkostnaðar, vextir og afföll skulda, fyrning eigna, rýrnun, ríkissjóðsgjöld og útsvör. Þetta alt kr. 13,40 — satt að segja fullhátt. —

Áðan fjekk jeg þó, að eftir væru kr. 15.60, þegar olían var uppskipuð og búið var að tilfæra greiðslu fyrir vörutolli 1/50, vörugjald 0/60 og uppskipun 0/50, alls 2/60.

Mismunurinn áður tilgreindur frá verði Landsverslunar, kr. 15.60. Hjer við bætist kr. 2.60. Alls kr. 18.20. Landsverslun segist ekki þurfa nema kr. 13.40. Mismunur kr. 4.80.

Mjer skilst, að Landsverslunin sje sjálf að segja, að þessari upphæð sje ofaukið í álagningunni.

Á blaðsíðu 3 í skýrslu Landsverslunarinnar frá í vetur stendur: „Innkaupsverð Landsverslunarinnar í London hjá British Petroleum Co. er 2–4 pence lægra hvert enskt gallon en verð fjelagsins til enskra heildsala í London“.

Þetta er nú reiknað út að nemi 15–17 kr. pr. tunnu. Einhverju mun mismunurinn vera minni á hráolíu, segir skýrslan. Skýrslan gefur í skyn, að við græðum nú þessa upphæð á hverri tunnu, sem við kaupum, á því að hafa þessa samninga við B. P. Co. Það er nú ekki um litla upphæð að ræða. Jeg tel sjálfsagt, að Landsverslun láti reikna hana út. Annars er hjer nú ekki um neitt algerlega nýtt fyrirbrigði að ræða, því að altítt er, að varan er dýrari, þegar hún er seld af „lager“ sem kallað er, þ. e. a. s. hefir verið flutt inn í landið og tekið á sig skatta og gjöld til ríkisins og hafnarinnar, auk annars kostnaðar; það er annað verð á henni þannig en þegar varan er seld sem „transitvara“, annaðhvort í fríhöfn eða frá svokölluðum „Credit-Oplagsplads“. Hvað þetta á að gefa mönnum til kynna í skýrslunni, svona alveg skýringarlaust, skal jeg ekki leiða neinar getur að.

En það vill svo vel til, að jeg get líka gefið hv. þm. dálitlar upplýsingar um olíuverð á Englandi. Sannanirnar fyrir því, sem jeg hjer tilfæri, liggja hjá hv. þm. N.-Ísf. (JAJ), og eru það kvittaðir reikningar fyrir hráolíu, sem keypt var í okt. síðastl. haust í Hull. Þetta er nákvæmlega samskonar olía í samskonar tunnum og Landsverslunin seldi hjer heima, svo kölluð gasolía, og var keypt af mótorkútter, sem fór til Englands með fisk. Fatið af þessari olíu, með yfir 160 kg. af olíu, kostaði þar, komið um borð í mótorkútterinn, kr. 45.64. Á sama tíma var fatið af þessari olíu selt hjer heima á 65.20, eða kr. 19.20 dýrara, þá meira að segja nýlækkað. Þessi olía var nú keypt af smásala í Hull; hve mikið hann hefir lagt á vöru sína, skal jeg láta ósagt; en nýútkomin skýrsla Landsverslunarinnar segir, að 16% sje lagt á steinolíu af smásölum í Danmörku. Jeg vil nú gera ráð fyrir mun minni álagningu, en þótt hún væri ekki gerð nema 8%, þá gerir það á 4. krónu, og þegar einnig er tekið tillit til, að kostnaður var yfir kr. 3.00 á tunnu, við að koma þeim um borð og annar flutningur á þeim, þá fáum við út, að heildsalaverðið til smásalans í Englandi er orðið á fatið meira en kr. 25.00 lægra en heildsöluverð Landsverslunarinnar hjer heima. Ef smásalinn nú í Englandi hefði samt sem áður gefið svona 10 krónum meira fyrir fatið en Landsverslunin fyrir sína olíu, þá færi nú Landsverslunin að verða dýr milliliður. Þessa frásögn í skýrslunni get jeg ekki, eftir að hafa kynt mjer þetta, tekið mjög alvarlega. En þetta dæmi, sem jeg hefi hjer nefnt, sannfærir mig enn um það, að Landsverslunin hefir ekki útvegað landsmönnum lægra olíuverð.

þá skal jeg taka hjer eitt dæmi enn, og er það af Standard White olíu, sem er hjer mjög þekt og við notum mikið af, um 20 þúsund föt. Jeg hefi hjer markaðsskýrslur frá New York um verðið á þessari tegund árið sem leið og markaðsskýrslur og tilboð um sölu á þessari olíu frá Þýskalandi, bæði í fyrra og sömuleiðis í janúar í vetur. Verðið á Standard White hefir nú staðið alveg stöðugt síðan í apríl í fyrra. Er verðið nú sem stendur í N.-Y. 1. 61/2 c. pr. amerískt gallon (3.785), 50 gallons í fati. Ensk gallons eru stærri, og eru ekki nema 40 af þeim í fatinu. Verðið í Hamborg á Standard White er nú 3 doll. fyrir hver 100 kg. Með því að taka þessa steinolíu frá Hamborg með skipum Bergenska fjelagsins kostar þessi olía nú, cif á Íslandi:

1 fat, 150 kg., 3 doll. pr. 100 kg., gengi 5.54, kr. 24.23.

Leiga af járnfati 2.00, kostnaður í Hamb. 0.50 = kr. 2.50.

Flutningsgjald 11.00, vátrygging, vextir o. fl. 1.57 =12.57.

Retur-flutningsgjald 5.00. — Alls kr. 45.00 — eða 30 a. kílóið. Þessi olía hefir verið seld hjer hjá Landsverslun, þennan tíma, sem hún hefir staðið í sama verði á heimsmarkaðinum, frá 46 aurum til 40 aura, til 1. des. síðastl. Hefir þetta mismunandi verð farið eftir mismunandi gengi krónunnar. Sje verðið lækkað ofan úr 40 aurum, þá er það alveg nýverið.

Hjer við er nú þetta ennfremur að athuga, að væri olían flutt frá Hamborg í heilum förmum, mundi flutningsgjaldið undir tómu fötin mega reiknast mjög lágt, ef farmgjaldið upp væri reiknað 11 kr., og enn það, að nú sendum við mikinn hluta af okkar lýsi til Hamborgar, og væri þar bæði að ræða um flutning til Hamborgar, og eins væri hægt að nota tómu járnfötin undir lýsið.

Þetta dæmi verður þá enn til þess að sannfæra mig um það, að Landsverslunin útvegar ekki landsmönnum þessa olíutegund fyrir lægra verð en þeir gætu fengið hana með frjálsri verslun; síður en svo.

Hvað síðustu skýrslu Landsverslunarinnar snertir, þar sem haldið er fram, að hagnaðurinn af einkasölusamningnum við B. P. Co. sje um 11 kr. á tunnu af þessari olíutegund, þá er það eina, sem jeg get um það sagt, að jeg er forviða á þeirri lítilsvirðingu, ef ekki frekju, sem slík skýrsla ber með sjer, þar sem því er auðsjáanlega treyst, að þeir, sem skýrsluna sjá, hafi ekki vilja nje tækifæri til þess að setja sig neitt inn í málið. — Fleiri dæmi tek jeg ekki að sinni.

Kem jeg nú að öðru atriðinu, sem jeg gat um áðan. Eru ekki önnur ráð er einkasalan jafngóð til þess að tryggja næga olíu og sanngjarnt verð? Þótt við flutningsmenn sjeum sjálfir sannfærðir um, að þessari verslun sje nú svo háttað í Evrópu, að frjáls verslun ein muni tryggja okkur sanngjarnt verð á þessari vöru, þá viljum við samt ganga það til móts við þá, er mjög góða trú hafa á landsverslun með þessa vöru, að ákveðið skuli, að ríkið haldi áfram að flytja inn og versla með steinolíu, þar til að sjeð verður, að verslun þessi er komin í gott horf.

Viljum við í þessu efni ganga inn á skoðun núverandi forstj. Landsverslunarinnar, eins og hans skoðun kom fram á þinginu 1917, og vil jeg, með leyfi hæstv. forseta, lesa nokkur orð í ræðu hans.

„En jeg fyrir mitt leyti hefi ekki enn þá sjeð eða sannfærst um ávinninginn af því, þótt landsstjórnin tæki að sjer einkasölu, hvort sem er á steinolíu eða öðrum vörutegundum. Hygg jeg, að til sjeu aðrar leiðir miklu heppilegri til þess að ná því takmarki, sem stefnt er að í frv.

Þar að auki mundi einkasala engu öðru koma til leiðar en því, sem einmitt nú á sjer stað, sem sje því, að landsstjórnin hafi til vörutegundir og versli með þær og haldi þeim í sanngjörnu verði, þegar verslunarfjelög eða einstakir menn, sem með vöruna versla, halda henni í alt of háu verði. En þessu takmarki, að tryggja landsmönnum sanngjarnt verð á ýmsum vörutegundum, virðist mjer að verði náð með því fyrirkomulagi, sem nú sje á landssjóðsversluninni, sem þó ekki útilokar frjálsa samkepni“. (Alþt. 1917, B. 766).

Hjer, það er í ræðu Magnúsar, er sögð nákvæmlega mín skoðun á þessu máli, og treysti jeg mjer ekki til þess að búa hana í styttri eða gleggri búning en þarna er gert. Vonast jeg til þess, að sem flestir hv. þm. geti mæst hjer í þessu máli. Rætist trú okkar, sem treystum best frjálsri verslun með þessa vöru, sem aðrar, þá hverfur ríkisverslunin með olíu úr sögunni af sjálfu sjer. Rætist aftur trú hinna, sem álíta ríkisverslun nauðsynlega til þess að tryggja næga steinolíu og sanngjarnt verð á henni, þá heldur Landsverslunin áfram að versla í frjálsri samkepni við aðra innflytjendur olíunnar. Eitt vil jeg leggja áherslu á, um leið og jeg lýk máli mínu nú, að um einkasölu ríkisins á steinolíu má ekki hugsa sem tekjulind fyrir ríkissjóðinn, heldur verður ákvörðun hv. þm. um þetta mál einungis að skapast af einlægum vilja til þess að gera það eitt í málinu, sem megni að gera verslunina með þessa vöru sem eðlilegasta og óþvingaðasta, en jafnframt hagkvæmasta fyrir þá, er mest nota þessa vöru, en það er sjómannastjett landsins.