11.05.1925
Sameinað þing: 5. fundur, 37. löggjafarþing.
Sjá dálk 125 í D-deild Alþingistíðinda. (3178)

131. mál, steinolíuverslunin

Ásgeir Ásgeirsson:

Saga steinolíumálsins hefir nú nokkuð verið rakin hjer af öðrum hv. þm. Jeg minnist þess, að hv. þm. Ísaf. (SigurjJ) rakti hana og hældi yfir höfuð öllum, sem stóðu á móti einkasölunni árin 1912 og 1917; en jafnframt lýsti hann yfir því, að steinolíuverslunin hefði verið verst og í megnasta ólagi alt til ársins 1920 og þá verið viðskiftamönnum sínum ærið þungbær. Jeg sje ekki, hvernig þetta getur farið saman, því að hv. þm. (SigurjJ) viðurkendi annarsvegar þann einokunarblæ, sem var á öllu, þegar Landsverslunin tók til starfa, en hældi þó jafnframt þeim, sem stóðu á móti því, að landið tæki að sjer steinolíuverslunina. Um hitt skal jeg ekki segja, hvort steinolíusamkepnin hefði færst hjer í aukana eftir 1920, það er engin reynsla fyrir því, og síðustu árin, sem Steinolíufjelagið starfaði hjer, var ekki um samkepni að ræða nema að litlu leyti, og sú samkepni kom ekki frá erlendu steinolíufjelagi, sem kepti við Standard Oil, heldur frá Fiskifjelagi Íslands. Nú er meiri samkepni í þessari verslun á heimsmarkaðinum heldur en var fyrir 1920, og hættan verður mest á því hjer á landi, ef eitt fjelag næði versluninni, og mundi þá engum detta í hug að fara að keppa við þetta sterka fjelag í þessu litla landi. Það hefir þekst, að hin fjelögin hafa látið það land í friði, sem eitt fjelagið hefir sigrað, og stundum skifta þau löndunum á milli sín; jeg veit t. d. ekki betur en að Standard Oil hafi, eftir samkomulagi við sína keppinauta, haft einokun á öllum Norðurlöndum þegar stríðið byrjaði. Deutsches Bank reyndi t. d. að brjóta vald þess á bak aftur í Norðurálfunni, en mistókst, því að það er ekki ljett um vik að berjast við milliardafjelög. Það mætti í þessu sambandi minna á það, að Jón heitinn Ólafsson, ekki meiri „Bolsjevíki“ en hann var, nefndi slík fjelög kolkrabba, sem teygði armana um öll lönd og enginn rjeði neitt við. Það væri annars vel viðeigandi að rifja upp sitthvað af þeim hörðu ummælum, sem Hannes Hafstein og Jón Ólafsson viðhöfðu árin 1912 og 1913. En þeir segja, hv. flm. þessarar till., að samkepnin sje orðin svo geysilega mikil annarsstaðar í löndum álfunnar. Mjer er ekki kunnugt um, að hjer í álfunni starfi nema 3 stórfjelög, Anglo-Persian, Standard Oil og Shell. Af þessum fjelögum eru tvö náskyld, Anglo-Persian og Shell, og þegar litið er á samkepnina í Danmörku, þá höfum við orð hv. þm. N.-Ísf. (JAJ) fyrir því, að verð á hreinsaðri olíu hafi staðið óbreytt í eitt ár. (JAJ: Eins er það í Ameríku). Það er einmitt það, sem jeg vil vekja athygli á, að ekki lítur út fyrir, að samkepnin sje mikil, fyrst verðið er hið sama frá fyrsta degi ársins til hins síðasta, þó nú sje látið í veðri vaka af flm., að hún sje öflug. Hvað er þetta annað en skýr vottur um einokun? Við kaupum okkar olíu með heimsmarkaðsverði. Svo framarlega sem við ættum að kaupa hana frá einu fjelagi, þá myndum við ekki njóta heimsmarkaðsverðsins. Það er reynsla fyrir því, að þar sem fjelag hefir náð einokun í einhverju landi, hvort sem það hefir skapað sjer hana með samkepni eða náð henni með samningum við sína keppinauta, þá hækkar ávalt verðið. Okkar íslenska einkasala hefir getað trygt okkur heimsmarkaðsverð í innkaupum, en fjelag, sem hefði hjer einræði, mundi aldrei taka meira tillit til heimsmarkaðsverðsins en því fyndist nauðsynlegt til þess að hylja sinn mikla gróða.

Jeg skal svo ekki tala meira um olíusamkepnina, en aðeins benda á, að olíuverslunin er eitt af þeim sviðum, þar sem samkepnin er oft alls ekki til, eða þá ekki nema að einhverju litlu leyti.

Þá vil jeg minna á, að þeir, sem hjer þykjast berjast öflugast fyrir frjálsri verslun, með öllu sínu athæfi, hafa stundum komið með frv., sem fara í öfuga átt, t. d. frv. um innflutningsbann á heyi og ýmsu fleiru, sem á ekkert frekar skylt við frjálsa verslun heldur en einkasala eða einokun. Nei, jeg er hræddur um, að þeir láti þann verslunar-„frasa“, sem þeir skilja ekki meir en svo, og er í þeirra munni orðatiltækið eitt, villa sjer svo sýn, að þeir gæti þess ekki að heimta nægilega rannsókn og nægilegar skýringar á í þessum málum áður en gengið er til atkv. um það, hversu steinolíuverslun skuli hagað í framtíðinni. Má vera, að þeir sjeu hjer að berjast fyrir einokun einstakra fjelaga, en ekki frjálsri verslun.

Í greinargerð till. stendur, að mikil fjárhætta sje samfara þessari verslun, og hv. flm. (SigurjJ) lagði mikla áherslu á það. Það má vera, að svo sje, en sú áhætta er jöfn fyrir hina „frjálsu“ verslun. Hún gefur ekki töpin, fremur en einkasalan, og vinnur þau rækilega upp fyrir og eftir óáranina. Landsverslunin hefir nú starfað í nokkur ár, sem hafa hreint ekki verið góð fyrir útveginn, og það væri óskandi, að ekki kæmu verri ár yfir hann en þau, sem hún hefir starfað. Það má jafnvel ætla það, að verslunin hafi hjálpað útveginum stórmikið á þessum örðugu tímum, því að eins og hv. þm. Ísaf. (SigurjJ) benti á, þá hafa bátar m. a. aldrei þurft að hætta fyrir þá sök, að ekki fengist olía, þó að birgðir hafi stundum verið litlar, og er það mikil hjálp, einkum þar sem svo er, að steinolíureikningurinn er víða lítill hluti af útgerðarkostnaðinum, og veltur því mest á því, að steinolían sje altaf til, en jafnvel minna á hinu, hvað hún kostar. Er því auðskilið, hversu mikils er um vert, að trygt sje, að nægar birgðir sjeu til af olíunni, auk þess sem örugt er um gott verðlag. Mjer er vel kunnugt um það, að þetta er ekki svo alstaðar á landinu, því sumstaðar er olíukostnaðurinn svo mikill, að ekki er hægt að segja, að aðalatriðið sje, að olían fáist

Hv. aðalflm. till. (SigurjJ) bar hjer fram ákæru á stjórn Landsverslunarinnar fyrir það að hafa lagt óheimil gjöld á notendur, og komst dálítið hátíðlega að orði um það, að hann ákærði hana til endurgreiðslu til allra á því, sem hún hefði ofheimt af þeim. Þetta mun vera um 27 aurar á tunnu, og ef miðað er við stærð Krossanesmála, þá verður þetta ekki kallað gífurlegt ákæruatriði, ef tillit er tekið til þess, að það fje, sem kallað er ofheimt, rennur ekki til einstakra gróðamanna, heldur í ríkissjóð, og er því miklu minni ástæða til þess að ákæra heldur en þegar mælt er í of stórum síldarmálum, sjerstaklega þegar þess er gætt, að lagaákvæði, nokkuð rúm, heimila þessa álagningu. Jeg má segja, að lagaákvæðin eru á þá leið, að það skuli lagður á ríf1egur kostnaður, og það vita allir, að ekki er hægt að reikna það svo nákvæmlega út, að þetta megi ekki heita ríflegur kostnaður. Nú, en þetta ákæruatriði verður aldrei svo stórt, að það verði nauðsynlegt, að aðrir en hæstv. atvrh. (MG) skeri úr um, hvora regluna skuli hafa, að leggja á fatið ríflega fyrir kostnaði í framtíðinni, eins og gert hefir verið, eða heldur óríflegar.

Þá hafa menn tekið hjer ýms dæmi, og hafa þau öll verið mjög lík; en með því að það er heldur ilt að fylgjast með tölum, sem lesnar eru upp á fundum, þá skal jeg ekki þreyta menn með því að þræða hvert atriði, en því tók jeg eftir hjá hv. flm. (SigurjJ), að í dæminu, sem hann tók af gasolíu, lagði hann til grundvallar söluverð Landsverslunar, og það verð bar hann svo saman við cif-verð hjá öðrum innflytjanda. Nú vil jeg segja, að það er alls ekki hægt að bera saman verð Landsverslunar til notenda, útsöluverð hennar, við verð á olíu, sem tekin er við skipshlið, og auk þess skal jeg benda hv. flm. (SigurjJ) á ýms gjöld, er Landsverslunin verður að greiða, sem hann ljet ótalin. Hann nefndi t. d. hvergi bankagjald, 3/4%, hvorki vexti, 3%, nje heldur rýrnun, og neitaði algerlega, að 15% rýrnun gæti átt sjer stað, eins og verslunin tilgreinir í sinni skýrslu í þessu tilfelli, en Landsverslunin fullyrðir, að rýrnunin hafi að minsta kosti verið þetta, vegna þess, að tunnumar hafa oft verið ljelegar og brotnar, og er ekkert við það ótrúlegt. Jeg skal ekki deila um þá hluti, en aðeins geta þess, að fleiru hefir verið slept, svo sem öllum innlendum rekstrarkostnaði, sem sjálfsagt er að taka með, þegar verið er að bera saman við útsöluverð Landsverslunar. Ennfremur slepti hv. þm. (SigurjJ) fjögra króna lögákveðnu ríkissjóðsgjaldi, en tók aðeins vörutollinn, sem ekki er nema kr. 1.50 á fat. Gengið reiknaði hv. flm. (SigurjJ) á kr. 1.02, en það var á þessum tíma kr. 1.06. Margt slíkt mætti telja, og ef reiknað er nákvæmlega saman, þá býst jeg við, að það færi nærri því, að verð Landsverslunar yrði ekki fyrir ofan, heldur jafnvel fyrir neðan það, sem hv. þm. (SigurjJ) er að bera saman við, ef alt væri talið með. En þetta sýnir það, að ekki er komið með fullnægjandi hliðstæður. Það er hætt við að reikna dæmin á miðri leið og svo borið saman við Landsverslunarverð, þar sem alt er talið. Jeg skal ekkert um það segja, hver niðurstaðan yrði við nákvæma og ítarlega meðferð á dæminu, en meðferð þessara manna á málinu er svo, að það er full ástæða til, að það vakni efi um góðan undirbúning málsins hjá hv. deildarmönnum, sem hjer hlusta á og eiga síðar að greiða atkv. um málið.

Það er vitanlegt, að þegar tekið er cif-verð, þá má ekki gleyma vöxtum og gengismun og bankagjaldi, sem nemur 3–4 krónum á tunnu. Cif-verð Landsverslunarinnar er 49.60, en cif-verðið hjá hv. þm. Ísaf. (SigurjJ) er 50.75. Þetta er strax munur. Og þó er reiknað ríkissjóðsgjald í Landsverslunarverðinu, en ekki nema vörutollur á kr. 1.50 hjá hv. þm. Annars skal jeg ekki fara ítarlega út í þetta eða þreyta hv. þm. með því að lesa upp mikið af tölum, eins og hv. flm. (SigurjJ) gerði. Það er ilt í fljótu bragði að átta sig á margbreyttum útreikningum. Mál, slík sem þessi, á að sækja og verja í þingskjölum, en ekki á þingfundum. óviljandi vitleysur geta haft mjög víðtækar afleiðingar. Menn geta hæglega ruglað saman vörugæðum, lítrafjölda o. s. frv., og getur slíkt óviljandi valdið stórskekkju. Yfirleitt er í fljótu bragði ilt að átta sig á, hvort rjett er frá skýrt eða ekki, þegar um einstök dæmi um olíuverslun er að ræða, og hvar og í hverju villan liggur. Nú er þetta mál borið hjer fram í þinglokin, og á að knýja það fram á einum degi. En það þykir mjer harla fljótfærnisleg afgreiðsla, þegar grundvöllurinn til að byggja á dómsúrskurð er ekki traustari en hjer er raun á. Mál þetta þarf að rannsaka betur. Það eru ekki litlar ákærur, sem hjer hafa komið fram á hendur stjórninni, ef það er rjett, að olíukaupendur hafi tapað 10–20 krónum á hverri tunnu. Nú hefir stjórnin haft umsjón með versluninni, og jeg get ekki betur sjeð en hún hafi bakað sjer ábyrgð gagnvart olíukaupendum með því að gera sjálf enga tilraun til að losa þá undan þessari byrði, ef nokkuð er hæft í fullyrðingum flutningsmanna.

Eins og nú er í pottinn búið, álít jeg það heppilegasta meðferð þessa máls að fella till. núna, en stjórnin geri á næsta þingi tillögur um málið, ef henni, að lokinni ítarlegri rannsókn, finst ástæða til þess að breyta til í einhverju.

Jeg get ekki sjeð, að færðar hafi verið líkur fyrir meiru en því, að heildsalar geti ef til vill fengið olíuna með sama verði og Landsverslunin, en engar líkur til þess, að smáútgerðarmenn geti fengið hana með sama verði, hvað þá heldur betra verði.

Jeg skal leyfa mjer að vitna til ummæla hv. 1. þm. Rang. (EP) á þinginu 1912, er steinolíueinkasalan var hjer fyrst til umræðu. Hann sagði, að það væri tilgangurinn, að olían yrði sem ódýrust, en landssjóður fengi þó ágóða af rekstrinum. Þetta tvent getur vel farið saman, og hygg jeg, að sú hafi orðið reyndin á.

Jeg er algerlega á móti þessari þáltill. að svo stöddu. Jeg æski eftir ítarlegri rannsókn, óska, að málið sje vel undirbúið, og vil fá skýr plögg á borðið til þess að dæma eftir. Það er svo margt, sem þarf rannsóknar í þessu máli. Það mætti athuga, hvort ekki ætti að lækka ríkissjóðsgjaldið úr fjórum krónum niður í tvær krónur. Þá ætti og að rannsaka, hvort heppilegra væri, að Landsverslunin hefði fasta samninga við fjelög um innkaup eða frjáls innkaup. Eins að athuga, hvort setja ætti hjer olíugeyma. Landsverslunin hefir fært sterkar líkur fyrir því í skýrslu til Alþingis, að það mundi vera heppilegast fyrir vjelbátaútveginn, að komið væri hjer upp olíugeymum. Það þyrfti ekki að íþyngja útgerðinni neitt, þó þeir væru afskrifaðir á 4–5 árum. Hjer eru margir möguleikar fyrir hendi, sem vert væri að athuga. Jeg skal engan dóm leggja á það, hver niðurstaðan gæti orðið af slíkum rannsóknum. Hún gæti ef til vill orðið sú, að leggja bæri steinolíueinkasöluna niður. En hitt er alveg óforsvaranlegt, að ætla sjer að flaustra þessu máli af hjer óathuguðu á einum einasta degi í þinglokin.

Mjer hefir skilist það svo, að flutningsmenn þessarar tillögu ætlist til þess, að landsverslun með steinolíu haldi áfram meðan hún tapar ekki. Ef þetta stendur ómótmælt, verð jeg að skoða það svo, sem þetta sje meining þeirra.