11.05.1925
Sameinað þing: 5. fundur, 37. löggjafarþing.
Sjá dálk 134 í D-deild Alþingistíðinda. (3181)

131. mál, steinolíuverslunin

Flm. (Sigurjón Jónsson):

Jeg get að mestu leyti slept að minnast á ræður þeirra hv. þm., sem valist hafa til andmæla, að undanskilinni ræðu hv. þm. V.-Ísf. (ÁÁ). Hv. þm. N.-Ísf. (JAJ) hefir rækilega svarað ræðu hv. 2. þm. Reykv. (JBald). Sannast að segja var ræða hv. 2. þm. Reykv. mjög einhliða og lagði í raun og veru ekkert til málsins. Hjer er um það að ræða, hvort Landsverslun geti útvegað hagstæðust kjör á þessari vörutegund, en ekki um hitt, hvort Landsverslunin sjálf skerðist eða rýrnar. En það var aðalmergur málsins hjá hv. 2. þm. Reykv., og það kann að vera eðlilegt frá hans sjónarmiði, sem vill draga alla verslun og öll viðskifti inn á ríkiseinkasölubrautina.

Í fyrri ræðu minni gat jeg þess, að nú væri hægt að fá olíu keypta hvar sem er í öllum stærri borgum Norður-álfunnar, einkum í Hamborg og London, og er þess vegna engin hætta á því, að það fjelag nje nokkurt fjelag annað geti náð hjer heljartökum á olíuversluninni, jafnvel þó að Landsverslunin verði alveg lögð niður, sem við ætlumst þó ekki til fyrst um sinn.

Jeg læt mig engu skifta miður góðgjarnlegar getsakir, eins og t. d. að við flm. sjeum að reka erindi einhverra stórgróðamanna o. s. frv.

Hv. 1. þm. S.-M. (SvÓ) talaði mikið um þrælatök, sem þjóðin hafi verið tekin í olíusölunni hjer áður, og mundi vafalaust tekin, ef verslunin yrði gefin frjáls aftur. Ennfremur sagði hann, að við vildum láta hag almennings víkja fyrir hagsmunum einstakra gróða manna. Slíkar öfgar og getsakir vil jeg alveg leiða hjá mjer, enda hrína þær ekki á okkur.

Jeg skal gjarnan koma dálítið nánar inn á ummæli mín um forstjóra Landsverslunarinnar. Hv. 1. þm. S.-M. (SvÓ) og hv. þm. V.-Ísf. (ÁÁ) þótti jeg vera nokkuð þungorður í garð forstjórans út af álagningu Landsverslunarinnar fyrir útistandandi skuldum. Það gerði jeg með vilja. Jeg álít, að reglugerð stjórnarráðsins um einkasölu á steinolíu taki af allan efa um það, hvað leggja megi á steinolíuna. Þar segir, að leggja skuli 22/3 aur. á hvert kg., og renni gjald þetta að jöfnu í ríkissjóð og varasjóð einkasölunnar, enda beri sá sjóður allan óvæntan halla verslunarinnar. En þegar farið er inn á þá braut að leggja sjerstaklega á olíuna fyrir afföllum á skuldum, þá er ekki gott að vita, hvar staðar verður numið. Að vísu eru 27 au. á hvert fat engin upphæð, sem skiftir verulegu máli. En ef farið er inn á þessa braut, þá eru brotin ákveðin laga- og reglugerðarfyrirmæli, og þess vegna er forstjóranum með öllu óheimilt að leggja nokkurt aukagjald á olíuna, jafnvel þó ekki væri nema 5 au. á tunnu. Ef einu sinni er komið inn á þessa braut, getur enginn vitað, nema gjaldið verði orðið 50 aur., 1 kr. eða jafnvel enn meira, áður en nokkurn varir.

Það er af þessum sökum, að jeg var nokkuð þungorður í garð forstjóra einkasölunnar.

Þá skal jeg lítillega koma inn á þau ummæli ýmsra hv. þm., að ekki kenni samræmis í till. þessari, þar sem gert er ráð fyrir að gefa verslunina frjálsa frá næstu áramótum, en þó jafnframt svo til ætlast, að Landsverslunin starfi áfram í frjálsri samkepni við aðra innflytjendur. ósamræmið á að vera í því fólgið, að við sjeum á móti Landsverslun með steinolíu, en leggjum þó til, að henni verði haldið áfram.

Í greinargerð till. stendur, að við veljum þessa leið til að koma í móti þeim, sem hafa góða trú á landsverslun. Fæ jeg ekki sjeð nokkra mótsetningu í þessu fólgna, enda tók jeg skýrt fram, að ekki væri til ætlast, að Landsverslunin starfaði lengur en þangað til trygging væri fyrir því fengin, að innflutningur olíu verði nægur og hún seld sanngjörnu verði.

Og jeg er hræddur um, að hv. 2. þm. Reykv. (JBald) o. fl. hv. þm. hafi sömu trú og við, að þessa verði ekki langt að bíða, því annars mundu þeir varla leggjast svo fast á móti till. Ef olíuverslunin kemst ekki í sæmilegt horf án þess að Landsverslunin hafi þar hönd í bagga, þá verður hún að sjálfsögðu látin halda áfram og e. t. v. tekin upp einkasala aftur. En það skín út úr orðum hv. andmælenda till., að þeir eru undir niðri okkur sammála um þetta atriði. Þeir þykjast sjá, að landsverslunar verði ekki þörf eftir að verslunin verður gefin frjáls.

Meining okkar er sú, að Landsverslunin haldi áfram fyrst um sinn, að því leyti sem þörf gerist. Hinsvegar vakir það ekki fyrir okkur, að hún starfi svo lengi sem ekki verður tap á rekstri hennar.

Við viljum fela hæstv. stjórn að hafa auga með því, hvort steinolíuverslunin í landinu er hagkvæm og hvort það er fyrir tilverknað Landsverslunar eða ekki. Ef svo er ekki, þá er landsverslunar ekki þörf lengur, og ætlumst við þá til, að hæstv. stjórn leggi hana niður með öllu.

Þá skal jeg víkja nokkrum orðum að ræðu hv. þm. V.-Ísf. (ÁÁ). Jeg verð að segja, að hún stakk mjög í stúf við ræður annara hv. andmælenda till., þar sem hún kom þó dálítið nálægt því máli, sem hjer er til umr.

Hv. þm. (ÁÁ) þótti það bera vott um ósamræmi hjá mjer, þegar jeg sagði, að steinolíuverslunin hafi oft verið mjög óhagstæð áður en einkasalan tók til starfa, en samt líkaði mjer best við þá, sem væru einkasölunni mótfallnir.

Jeg er nú svo gerður, að jeg vil frelsi í verslun, eins og á öðrum sviðum. Jeg held, að einstaklingseðlið og þroski þjóðarinnar yfirleitt verði því fullkomnari, sem frjálsræðið er meira á öllum sviðum þjóðlífsins. Hinsvegar gat jeg þess, að ef steinolíuverslun landsmanna væri í ólestri og ríkið gæti kipt henni í lag, án þess að taka einkasölu, þá áliti jeg það ekki nema sjálfsagt og heppilegt. Og jeg vil minna hv. þm. (ÁÁ) á kaflann, sem jeg las úr ræðu núverandi forstjóra Landsverslunarinnar á þingi 1917, þar sem hann heldur einmitt þessu sama fram, að ef þörf gerist, sje rjett að láta Landsverslun versla með steinolíu í frjálsri samkepni, til þess að aftra því, að verðið keyri fram úr öllu hófi.

Jeg get sagt, að einmitt árin 1920–1922 var steinolíuverslun landsins í besta lagi, sem hún hefir verið, áreiðanlega betra lagi en eftir að einkasalan tók til starfa. Þá voru margir steinolíuinnflytjendur, sem störfuðu jafnhliða Landsverslun og H. í. S., og gátu útvegað sjer ódýrari olíu en þessar stofnanir seldu.

Annars þótti mjer hv. þm. (ÁÁ) fara óvirðulegum orðum um frjálsa verslun yfirleitt. Hann sagði, að menn ljetu þennan „frasa“ villa sjer sýn. Mjer þykir leiðinlegt, að svo niðrandi orð skuli viðhaft hjer á Alþingi, því hugsjón frjálsrar verslunar hefir allajafna átt svo mikil ítök í hugum okkar Íslendinga, sem vonlegt er. Þá vil jeg snúa mjer að þeim ummælum hv. þm. (ÁÁ), er hann vildi fetta fingur út í tölur þær, sem jeg fór með í morgun, og einmitt á þeim grundvelli er mjer kærast að ræða málið, að taka dæmi, sem fyrir liggja, gagnrýna þau og sjá, hver niðurstaðan verður.

Hv. þm. sagði, að jeg hafi ekki lagt öll þau gjöld á Sólarolíu, sem hljóta að leggjast á hana frá því hún kemur um borð í erlendri höfn og þar til hún ei komin í hendur kaupenda. Sagði hann að jeg hafi í öðru dæminu tekið söluverð Landsverslunar, en í hinu verð olíunnar hjer á hafnarbakka. Þetta er rjett, og jeg ætlast til, að hv. þm. skildu, hvað fyrir mjer vakti með samanburðinum, enda tók jeg þennan mismun skýrt fram, að mjer fanst.

Jeg sagði í dæminu, sem jeg tók, að söluverð Landsverslunar hafi verið kr. 63.75 hvert fat, þegar fatið sjálft er reiknað á 14 kr. þá var allur kostnaður, þar á meðal gjald til ríkissjóðs og í varasjóð, reiknaður með. Í annan stað upplýsti jeg, að sama olíutegund hefði þá fengist fyrir kr. 47.35 hvert fat hjer á hafnarbakkanum, og var jeg þá búinn að gera fyrir hafnargjaldi, kr. 0.10, uppskipun, kr. 0.50, og vörutolli, kr. 1.50, eða samtals kr. 2.60 á fatið. Til þessa kostnaðar er venjulega ekki tekið tillit, þegar talað er um cif- kaup. Hjer verður mismunurinn kr. 15.60 á hverju fati, sem gengur þá til að standast straum af öðrum kostnaði, sem legst á olíuna frá því hún er komin á hafnarbakkann og þar til hún er afhent kaupendum.

En allan kostnað við olíuna frá því hún er komin hjer á höfn, uppskipun, vörugjald, ríkissjóðsgjald, varasjóðsgjald o. fl., reiknar Landsverslunin sjálf kr. 13.40 á fat. Í mínu dæmi voru kr. 15.60 eftir til að standast þennan kostnað, og var jeg þó búinn að draga kr. 2.60 frá, sem eru innifaldar í kostnaði Landsverslunarinnar, kr. 13.40. Ef jeg hefi talað óskýrt í framsöguræðu minni, þá vonast jeg til, að hv. þm. (ÁÁ) skiljist nú, hvað jeg fór. Hinn raunverulegi kostnaður Landsverslunarinnar, miðað við verð, sem sannanlega var hægt að fá jafngóða olíu fyrir, er hjer orðinn kr. 18.20, í stað kr. 13.40, sem Landsverslunin segir sjálf að hann þurfi að vera. Niðurstaðan verður því sú, að Landsverslunin hefir lágt kr. 4.80 um of á hverja olíutunnu sem um getur í dæminu, samkvæmt hennar eigin útreikningum og í samanburði við verð, sem hægt var að fá olíuna fyrir. Auðvitað reynir Landsverslunin að forsvara þessa álagningu í varnarskjali sínu, en samkvæmt hennar eigin skýrslu og ef útreikningar mínir standast, sem enginn hefir vefengt með minstu rökum, þá er ekki annað hægt en að viðurkenna þennan mismun.

Hv. þm. (ÁÁ) sagði, að jeg hefði reiknað með 2% gengismun á danskri krónu, en þetta er ekki rjett. Jeg reiknaði með 4%. Olían, sem jeg nefndi til dæmis, var flutt inn bæði fyrir og eftir síðustu áramót og eftir að gengi sterlingspunds var komið niður í kr. 27,75; þá er síst of lítið í lagt að reikna gengi d. kr. 104.

Þá mintist hv. þm. (ÁÁ) á dæmið, sem jeg tók um gasolíu í Englandi. Það er rjett, að í þessu tilfelli reiknaði jeg ekki heldur þann kostnað, sem legst á olíuna frá því að hún er komin um borð í Hull og þar til hún er afhent kaupendum, en jeg komst líka að þeirri niðurstöðu, að fatið var 25 krónum ódýrara í Hull en útsöluverð Landsverslunar hjer. Og jeg vildi halda því fram, að þessar 25 kr. væru meira en nóg til þess að borga með allan þennan kostnað, að flutningsgjaldi meðtöldu, eftir því sem Landsverslunin gefur sjálf upp.

En með þessu dæmi vildi jeg einkum sýna það, að hver sem er getur fengið þessa olíu í Englandi fyrir ekki lakara verð en Landsverslunin, og ennfremur vildi jeg ósanna það, sem í skýrslunni stendur, að olíuverð í Englandi sje hærra yfirleitt en Landsverslunin greiðir.

þar stendur, að verð Landsverslunar sje 2–4 d. lægra hvert enskt gallon heldur en smásalar þar á staðnum fái olíuna fyrir hjá sama fjelagi. Þetta er auðvitað ekki rjett, eins og dæmið um verðmismuninn sýndi.

Þá sagði hv. þm. (ÁÁ), að slæmt væri að þurfa að ræða þetta mál hjer nú, í stað þess að það hefði komið fram í frumvarpsformi. Jeg skal viðurkenna, að jeg hefði einnig kosið þá meðferð fremur. Enda hefði málið verið fyr borið fram, ef mjer hefði verið ljóst, að ekki væri hægt að afnema steinolíueinkasöluna, nema að fengnum þingvilja þess efnis.

En hinsvegar ætlaði hv. þm. (ÁÁ) einmitt að gera þetta sama. Hann ætlaði að láta taka ákvörðun um þetta mál eftir einungis eina umr. um þáltill, er hann flutti sjálfur í hv. Nd.

þess vegna getur hann allra manna síst talið ósanngjarnt af okkur að flytja þessa till.

Jeg býst við, að hv. þm. vilji ekki standa við það, að til mála geti komið að lækka 2 kr. gjaldið, sem nú er tekið af hverri tunnu, þannig að svifta ríkissjóð sínum tekjum, sem eiga að vera samkvæmt vörutollslögunum nálægt kr. 1,40 á tunnu. Þetta gjald er því í rauninni ekki nema um 60 aurar, og þó minna af hráolíu. En ef þessi uppástunga hv. þm. (ÁÁ) á að ná fram að ganga, þarf að breyta vörutollslögunum, en það hygg jeg að hafi ekki vakað fyrir honum.

Jeg þarf ekki að lengja umr. meira að sinni. Jeg legg mesta áherslu á þau dæmi, sem jeg hefi tekið, enda hygg jeg, að þau sjeu svo skýr sem kostur er á.