11.05.1925
Sameinað þing: 5. fundur, 37. löggjafarþing.
Sjá dálk 187 í D-deild Alþingistíðinda. (3189)

131. mál, steinolíuverslunin

Jón Auðunn Jónsson:

Háttv. 2. þm. Reykv. (JBald) vildi vjefengja útreikning minn og taldi innanlandskostnað mun meiri en jeg hefði gert ráð fyrir, og eins var hann í efa um, hverja tegund olíu jeg tók í dæmi mínu. Jeg lagði til grundvallar þá olíu, sem mest er flutt inn af. Árið 1924 var innflutningur af henni 21500 föt, en ails er innflutt á því ári:

Standard White ... 21500 tn.

Water White .........13500 —

Hráolía .................10000 —

Alls 45000 tn.

Allur innanlandskostnaður er sama árið 473543 kr., þar í vextir, ágóði til ríkissjóðs og tillag til varasjóðs. Koma því kr. 10,52 á hverja tunnu.

Hv. 5. landsk. (JJ) þóttist hafa fengið mikinn stuðning fyrir álagningu þeirri, sem nú er, þar sem núv. hv. 2. þm. G.-K. (BK) leggur til 1917, að álagningin sje 6%. En vilji hann athuga þetta nánar, þá hlýtur hann að sjá, að álagningin er meiri en 6%.

Annars var öll ræða hv. þm. miðuð við það, að við værum enn þá að berjast við erlendan steinolíuhring. En ástæðurnar í heiminum hafa breyst mjög til hins betra að því er olíuverslunina snertir síðan 1917. Þá börðust menn við raunverulega, erlenda einokun, sem jeg nú með engu móti fæ sjeð að gangi aftur. Þá voru aðeins þrjú eða fjögur fjelög, sem höfðu alla verslun með steinolíu. En eftir stríðið hefir tala þeirra margfaldast og samkepni aukist.