12.05.1925
Sameinað þing: 6. fundur, 37. löggjafarþing.
Sjá dálk 201 í D-deild Alþingistíðinda. (3194)

131. mál, steinolíuverslunin

Fjármálaráðherra (JÞ):

Hv. þm. Str. (TrÞ) hefir misskilið dálítið þá yfirlýsingu, sem jeg gaf hjer á síðasta fundi.

Jeg var að lýsa afstöðu stjórnarinnar til þess máls, sem nú er til umr., en vildi ekkert sagt hafa um fyrirætlanir hennar í einkasölumálinu, ef annað yrði hjer ofan á en að þessi þáltill., sem stjórnin styður, næði samþykki.

Jeg færði fram þær fjárhagsástæður fyrir fylgi stjórnarinnar við þáltill., að úr því sem komið væri bæri nauðsyn til að draga inn í ríkissjóð eitthvað af varasjóði Landsverslunarinnar, og það verður hægt, ef þáltill. nær samþykki.

Yfirleitt var efni yfirlýsingarinnar miðað við það, að till. nái fram að ganga, og snerist eingöngu um þetta mál. Það er því misskilningur hjá hv. þm. (TrÞ), að stjórnin hafi ákveðið, hvað gera skuli, jafnvel þó að þessi þáltill., sem er studd af stjórninni, verði feld. Um það efni hefi jeg ekkert sagt.

Þó að þetta mál heyri ekki undir mig, að öðru leyti en því, sem það snertir fjárhag ríkissjóðs, þá vil jeg þó, úr því umr. eru orðnar svo langar á annað borð, gera fáeinar athugasemdir sem þingmaður.

Þetta mál er stefnumál þeirra manna, sem hafa þá trú, að olíuframleiðslan í heiminum sje komin í það horf, að virkilega frjáls samkepnisverslun fáist með þessa vörutegund, ef till. nær fram að ganga. Steinolía er mikil verslunarvara og mjög mikil nauðsynjavara, og skiftir því miklu máli, hvort verslun með hana er frjáls eða ekki, svo framarlega sem landsmenn eiga kost á því að velja þar á milli, en það eiga þeir, ef skipulag framleiðslu og sölu á steinolíu er komið í það horf, að nægilega margir geti haft olíu á boðstólum.

Frá sjónarmiði ríkissjóðs vil jeg bæta því við, að jeg tel alt of áhættusamt fyrir hann að hafa alla steinolíusölu í landinu á sínum herðum. Jeg þarf varla að lýsa því, hvernig farið getur, ef afli bregst eða verðfall verður á fiski. Þá vofir yfir stórtap á olíuverslun ríkissjóðs í mótorbátaverstöðvum landsins. Enda er óeðlilegt að ríkið hafi þessa áhættu á sínum herðum, svo famarlega sem kostur er á frjálsri verslun með steinolíu, þar sem til er annar aðili, sem á að bera áhættuna við þessa verslun, en það er verslunarstjett landsins.

Jeg veit reyndar, að nokkrum hluta verslunarstjettarinnar er engan veginn hugleikið að taka aftur við steinolíur versluninni, því að þessi verslun er áhættusöm, en gefur aftur á móti tiltölulega lítið í aðra hönd. Er mörgum því ósárt um, að ríkið beri áhættuna. En jeg verð að segja, að það fer best á því, að hver stjett inni að fullu af hendi sín skylduverk í þjóðfjelaginu, og gegnir auðvitað sama máli um verslunarstjettina. Það er hennar skylda að taka við steinolíuversluninni, ef nokkur kostur er frjálsrar verslunar með þessa vöruteg., enda hafa kaupmenn betri aðstöðu en landsverslun getur haft, þar er þeir eru dreifðir um land alt og eiga langtum hægara með að semja við kaupendur á afskektum stöðum og tryggja á þann hátt hagsmuni sína, ef illa árar.

Það hefir verið mikið um það talað, — og með rjettu —, að steinolíuverð væri hærra hjer en vera þyrfti. En mjer hefir fundist, að ekki hafi nægilega verið bent á orsakir þessa ástands. Menn hafa annað veifið kent Landsversluninni um þetta, að álagning hennar hafi verið of mikil, en ekki getað fært full rök fyrir, að því er mjer hefir virst.

Orsökin liggur og á öðru sviði, sem jeg mun nú sýna fram á.

Verð jeg þá að víkja að samningi þeim, sem nú er grundvöllur fyrir einkasölunni, og gerður var 10. ágúst 1922 milli fjelagsins British Petroleum Co. og forstjóra Landsverslunarinnar, Magnúsar Kristjánssonar, með einum vitundarvotti, Hjeðni Valdimarssyni.

Eftir samningi þessum er olían venjulega keypt í London, en verðlagið miðað við útreikning, sem samningurinn gerir grein fyrir og jeg mun nú víkja hjer að nokkrum orðum. Kaupandi skal greiða seljanda fyrir olíuna, komna til Englands, sem hjer segir:

a) Tíðkanlegt markaðsverð á fermingardegi í amerískri höfn. b) Farmgjöld með tankskipum frá flóahöfnum til Bretlands. c) Sjóvátrygging. d) Lekatjón á sjó.

Þegar hjer er komið og þetta er greitt, er olían komin í hendur seljendum í olíugeyma í London. Með greiðslu þessa verðs hefir seljandi aðeins fengið umboðslaun sín, sem hann vafalaust getur fengið af skráðu markaðsverði í Ameríku.

En þá kem jeg að næsta lið útreikningsins: e) Álagning seljandans. Er svo ákveðið, að hún skuli vera 1/4 sterlingspunds af venjulegu steinolíufati, sem er 40 gallon, en 1/6 punds af hráolíu.

Vil jeg þá fyrst gera grein fyrir, hverju þessi álagning nemur.

Samkv. skýrslum Landsverslunar voru árið 1924 flutt inn tæp 45 þús. olíuföt alls. Af þeim munu 8 þús. hafa verið hráolíuföt, en 37 þús. steinolíuföt. Það er því næsta auðveldur reikningur að finna, hverju álagningin nemur. Hún verður alls árið 1924 tæp 10600 sterlingspund. Ef sterlingspundið er reiknað á 30 ísl. kr. árið 1924, eins og mun láta nærri, nemur álagningin um 320 þús. ísl. krónum.

Um þessa álagningu væri nú ekki mikið að segja, ef hún væri sama eðlis og venjuleg álagning kaupmanna og í henni væri fólgin borgun fyrir kostnað, áhættu og vinnu við verslun þá, sem um er að ræða. En um slíkt er ekki að ræða í þeim liðum, sem á undan eru gengnir. Þessi álagning mun nema 30–35% af verði olíunnar, kominnar til London, samkv. áætlun um olíuverðið, sem fylgdi samningnum í ágúst 1922, er hann var gerður. Sje miðað við verð olíunnar fob. í amerískri höfn, er álagningin 37–49% eftir sama áætlunarverði.

Nú fyrst byrja hin eiginlegu viðskifti B. P. Co. og Landsverslunar. Olían er komin í geyma fjelagsins í London, en áður en hún er flutt til Íslands, þarf að koma henni í tunnur. Hefði mátt ætla, að fjelagið krefðist einskis sjerstaks gjalds fyrir að afhenda sínar eigin vörur, láta olíuna í tunnur og koma að skipshlið. En hvað segir samningurinn hjer um?

Næstu liðirnir, sem borga ber fyrir olíuna eru: f) og g): Fyrir ílátningu og flutning að skipshlið skal greiða 118 sterlingspund. Að vísu er gert ráð fyrir því í samningnum, að upphæð þessi geti breyst, og má vera, að svo hafi verið að einhverju leyti, það er mjer ekki kunnugt um, en þetta gjald var fastákveðið 6 fyrstu mánuði einkasölunnar. Þessi þóknun fyrir afhendingu á steinolíunni árið 1924 nemur því um 168 þús. krónur, ef reiknað er með 30 kr. gengi.

Til þess að athuga, hvort fjelagið fái nú sinn kostnað upp borinn eftir alt þetta, má bera þennan kostnað saman við kostnað Landsverslunar innanlands.

Allur kostnaður við steinolíusöluna innanlands nam árið 1924, að meðtöldum flutnings- og útskipunargjöldum, alls 162317 kr., eða nokkru minni upphæð en B. P. Co. tekur fyrir að láta olíuna í tunnur og flytja að skipshlið í sömu höfn. Allir geta því sjeð, hvort seljandanum er þessi upphæð nægileg eða ekki til að standast kostnað við afhendingu á sínum eigin vörum.

Fleira er það í samningnum, sem er næsta athugavert. Má geta þess, að afgreiðist olían í Leith, en ekki í London, skal greiða aukreitis 3/8 sterl.pd. eða 11 kr. 25 au. á fat hvert. Flutningsgjald milli Englands og Íslands er 8 til 9 kr. á fatið. B. P. Co. vill fá 11 kr. 25 au. fyrir flutning á olíunni milli Leith og London — og er kaupandi víst ekki ofsæll af.

Að öllu þessu athuguðu sje jeg ekki betur en að oss hafi hent sú óhamingja með einkasölunni að lenda í höndum (jeg vil ekki segja klóm) á nýju einokunarfjelagi, sem síst gefur hinu fyrra eftir. Þótt sjálfsagt megi margt misjafnt segja um danska steinolíufjelagið og íslenska, þá efast jeg um, að þau fjelög hafi nokkru sinni gengið svo langt sem þetta fjelag, sem tekur sína álagningu fullkomlega áhættulaust, þar sem ríkissjóður er milliliður milli þess og notenda olíunnar og ber því öll skakkaföll, ef vanskil eða önnur viðskiftavandræði kæmu fyrir al hálfu notendanna.

Nærri liggur að spyrja, hvort það mundi hafa verið tilætlun löggjafans, að samningur sem þessi væri gerður. Verð jeg hiklaust að svara því neitandi, og vil jeg í því sambandi vísa til 4. gr. laganna 1917, þar sem svo segir (með leyfi hæstv. forseta):

„Landsstjórnin má þá fyrst nota þessa heimild, er hún hefir fengið banka- eða handveðstryggingu, er hún álítur fullnægjandi, fyrir því, að áreiðanleg verslunarhús selji landinu nægar birgðir af steinolíu fyrir eigi hærra verð en alment stórkaupamarkaðsverð er á hverjum tíma á þeim stað, sem olían er keypt .... “

Jeg hefi að vísu engin gögn í höndum um olíuverð í stórkaupum í London, en eftir þekkingu minni á almennum viðskiftum þætti mjer einkennilegt, ef það ætti að fara fram úr olíuverðinu í amerískri höfn, að viðbættri sjóvátryggingu, flutningsgjaldi og lekagjaldi. En þá hefir líka álagning B. P. Co. verið með öllu umfrám lagaleyfi.

Þessi samningur er fyrsta og fremsta orsökin til þess, hve dýr olían hefir verið í einkasölunni. Álagning fjelagsins fer fram úr öllu hófi, og auk þess sýnir það beina harðdrægni í viðskiftunum, eins og t. d. með hinu háa gjaldi, er það tekur fyrir afhendinguna á sínum eigin vörum. Þetta veldur því, að mönnum hefir virst, og með rjettu, að hægt væri að fá olíu með langtum betri kjörum í útlöndum heldur en hjer í einkasölunni.

Þrátt fyrir öll þau mistök, sem hjer hafa orðið, hefir þá farið hjer, sem víðar, þar sem einokun nær að hreiðra um sig, að kringum hreiðrið myndast ýmiskonar tengslabönd hagsmuna flokka og einstaklinga, er mynda nokkurskonar varnargarð kringum einokunina, er fram líða stundir. Þetta þarf ekki að stafa að því, að menn vilji í raun og veru veita einokuninni þjónkun sína, heldur af þeim kringumstæðum, er einokunin hefir valdið í landinu.

Þótt ótrúlegt megi virðast, hafa tveir flokkar landsins, Framsóknarflokkurinn og Jafnaðarmenn, tekið þessa steinolíueinokun að sjer til þess að verja hana með oddi og egg. Þetta mun þó ekki koma af því, að þeir vilji styrkja þetta útlenda einokunarfyrirtæki, heldur af því, að þeim finst, að þeir sjeu til knúðir fyrir rás viðburðanna. (TrÞ: Hver hefir ráðið því, að samið var við þetta fjelag?). Jeg er ekki að ásaka neinn fyrir orðinn hlut. Samkv. lögunum var skylda að semja við eitt einstakt fjelag. (TrÞ: En hvers vegna var þá samið við þetta fjelag?). (BL: það hefði kannske átt að semja við Standard Oil?). (TrÞ: Eru ekki fleiri til?).

Jeg lýk máli mínu í þeirri von, að þingið beri gæfu til þess að losa landsmenn úr öllum viðjum þeirrar einokunar, er jeg nú hefi gefið nokkra lýsingu á. (JJ: Fyrir Standard Oil og íslensku leppana).

Sú aðferð, sem stungið hefir verið upp á hjer, í dagskrártill. hv. þm. N.-þ. (BSv), að veita undanþágur frá einkasölunni, mundi að litlu eða engu gagni koma. Hin stærri steinolíufjelög mundu ekki álíta heiðarlegt eða sæmilegt að senda steinolíu sína inn á umsamið svið annars fjelags, og sú olía, sem fengist á þennan hátt, yrði því að koma frá annari eða þriðju hendi. Það er því mjög ófullnægjandi að ætla sjer að ráða bót á þessu með undanþágum.

Vjer höfum nú í 3 ár verið skuldbundnir til að greiða árlegan skatt til B. P. Co. Hann nam rúmum 300 þús. kr. árið 1924 og tilsvarandi við innflutning steinolíu hin árin.

Alþingi hefir verið brugðið um margt, og meðal annars það, hve það væri kostnaðarsamt. Þó hefir það aldrei kostað jafnstóra fúlgu sem þá, er B. P. Co. hefir tekið af oss í árlegan skatt undanfarið. Þótt það þing, er nú stendur yfir, ljeti ekkert annað eftir sig liggja en að ljetta þessum skatti af, með því að gefa olíuverslunina frjálsa, held jeg, að ekki yrði hægt annað að segja en að það hefði unnið fyrir sjer.