12.05.1925
Sameinað þing: 6. fundur, 37. löggjafarþing.
Sjá dálk 218 í D-deild Alþingistíðinda. (3197)

131. mál, steinolíuverslunin

Björn Líndal:

Hv. 5. landsk. (JJ) hefir nú í nálega tvö ár ekki aðeins hælt sjer sjálfur, heldur og látið aðra hæla sjer af því, að jeg hafi ekki þorað að svara honum á fundi einum norður á Akureyri fyrir nál. tveim árum.

Jeg býst nú við, að ef jeg virti hann ekki svars nú, þá myndi hann æðilengi og að minsta kosti ekki skemmri tíma hæla sjer af því, að jeg hafi ekki þorað að svara sjer. Þar eð jeg helst vil hlífa þjóðinni sem mest við hólræðum hans um sjálfan sig og þó einkum þeim, sem hann lætur borga sjer fje fyrir að skrifa níð um aðra og hrós um sjálfan sig, þá vil jeg nú beina til hans nokkrum orðum, en jeg skal samt vera afar stuttorður.

Jeg heyrði aðeins byrjunina á ræðu hv. þm. (JJ) í gær, en er lengja tók klausurnar, er hann þuldi upp úr þingtíðindunum, þreyttist jeg og fór út. Jeg vildi líka satt að segja, að jeg þyrfti aldrei að hlusta á þennan hv. herra, og komist jeg ekki hjá því, þá vil jeg heyra sem allra minst. Ber tvent til. Fyrst það, að jeg græði aldrei neitt á mælgi hans, nema þá það að kynnast innræti mannsins enn betur en hingað til, en það þekki jeg nægilega vel áður, og satt að segja hálfhryllir mig við því að kynnast því betur en orðið er. Önnur ástæða til þess, að jeg fer út, er þm. (JJ) talar, er sú, að þá hættir manni fremur en ella til þess að svara honum einhverju, ef á hann er hlýtt. En mín skoðun er sú, að þá sje sóma hins háa Alþingis best borgið, ef allir góðir þm. gerðu það að skyldu sinni að virða þennan hv. herra sem allra fæstra orða. Jeg hefi ógeð á því að heyra hann tala, samskonar ógeð og að heyra illa uppalinn götustrák kasta ókvæðisorðum eða saur á heiðvirt fólk, sem fer um götuna og ekkert hefir til saka unnið. Aldrei getur þessi hv. herra talað alvarlega um alvarlega hluti, nei, hann veður fram og aftur úr einu og í annað og altaf í kringum kjarna málanna, sem hann kemur aldrei að. Ef einhver virðir hann svars, þá verður úr því endalaust rifrildi, því hv. þm. kann sjer ekkert hóf í deilum og hættir aldrei. Alveg er og sama, hversu oft og greinilega ósannindi hans eru ofan í hann rekin og sýnt fram á, hve frámunalega vitlausar ræður hans eru. Þessi hv. þm. getur aldrei gert greinarmun á rjettum málstað og röngum, og kemur það auðvitað af því, að hann virðist ekki þekkja sannleika frá lygi. En hann er hagsýnni að því er hann sjálfan snertir en margur annar. Hann lætur ekki aðeins Sambandið kosta prentun allra sinna óhróðursgreina í blöðum flokks síns, og auk þess borga sjer sjálfum ríflega fyrir, heldur lætur hann líka ríkissjóð gjalda stórfje fyrir, að þvættingur hans komi í Alþingistíðindunum, auk alls þess feiknatíma, sem hann eyðir fyrir þinginu.

Jeg ætla mjer nú ekki að nota hið háa Alþingi til þess að bera af mjer persónulegar sakir, og jeg get sagt þessum hv. herra það, að jeg mun hvorki leita til Alþingis eða í blöð til þess að bera af mjer árásir hans. Mig langar alls ekki til að verjast þeim nje losna við þær, því jeg tel mjer þær miklu fremur til sóma en vansæmdar. Og jeg er viss um, að hver maður vinnur við það að vera rægður af þessum hv. herra. Jeg segi þetta af reynslu. Fáeina menn þekki jeg, sem hafa glæpst til að trúa sumu af því, er hv. þm. hefir sagt um aðra, en þeir eru margfalt, margfalt fleiri hinir, sem hafa litið svo á, að það væri hverjum manni til vegsauka, að þessi hv. herra bæri út um hann róg og níðsögur. Sjálfum mjer hefir stórlega aukist álit manna við allar árásir hans á mig, og sennilega væri jeg nú ekki þm. Ak., ef þessi maður hefði ekki skammað mig eins og hann hefir gert.

Það tekur því ekki að tefja umr. lengur með því að tala meira við þennan hv. þm. (JJ), enda býst jeg við, að við hittumst einhvern tíma á öðrum vettvangi, þar sem það kostar landið minna, að við tölumst við. (JJ: Ætlar hv. þm. ekki að tala um málið?). Jeg ætla að halda mjer jafnt við málið og hv. þm. (JJ) gerði í gær. Þegar jeg kom aftur inn, spurði jeg marga, hvað hann hefði sagt. En það vissi enginn. Menn vissu það eitt, að hann hafði verið að skammast, eins og venjulega, og að efnið hefði verið samantvinnað slúður, rógur og illgirnisgetsakir um náungann.

Jeg læt svo útrætt um þennan hv. herra, en sný mjer að hv. 2. þm. Reykv. (JBald). Vildi jeg aðeins drepa á tvö atriði í ræðu hans hinni löngu. Hv. þm. (JBald) mintist á, að jeg hefði sagt, að einkasalan hefði bitið bakfiskinn úr kaupmönnunum. Taldi hann, að það sannaði vel, hver gróði þjóðinni væri að einkasölunni. Þetta sýnir skýrleik hv. þm. (JBald). Hann hefir ekki hugmynd um, að það er hægt að gera einstaklingum stórtjón án þess að nokkur hafi minsta gagn af því. Jeg get bent á, að þótt hv. þm. (JBald) tækist að gera alla vinnandi menn að ómennum — hver græddi á því? Nei, sannleikurinn er sá, að þessi einkasala hefir tekið atvinnu af fjölda dugandi og góðra manna, sem þekking voru búnir að fá á þessu sviði, en svo var verslunin seld í hendur öðrum, sem aldrei höfðu komið nærri neinu slíku og báru ekki skyn á það.

Jeg vil rjett minnast á annað í ræðu hv. þm. (JBald). Það var guðlastið, sem hann sagði að jeg hefði drýgt. Hvernig átti jeg að gera það? Jú, með því að segja, að hv. 2. þm. Reykv. gleddist ekki eins og guð almáttugur yfir einum syndara, sem bætti ráð sitt. Jeg á mjög bágt með að skilja, að það geti rjettilega talist guðlast, þótt jeg leyfi mjer að fullyrða, að guð almáttugur sje alls ekki líkur þessum hv. þm. Að sönnu hafði Alþýðublaðið orð á því hjerna um árið, að geislabaugur hefði sjest um höfuð þessa hv. þm. En bœði er það, að í því blaði er mörgu logið, og auk þess gæti hjer verið um þá missýningu að ræða, að þetta hafi verið eldglæringar, en enginn geislabaugur, og þær telur þjóðtrú og þjóðsagnir vera í sambandi við alt aðrar verur en þær, sem guði vilja líkjast.

En eitt var það í ræðu hv. þm., sem jeg vildi sjerstaklega athuga. Hann sagði, að jeg hefði ámælt Landsversluninni fyrir, að hún hefði gefið skýrslur. Þetta er ekki satt. Jeg ámæli henni fyrir að gefa ekki rjettar skýrslur. En það er margsannað af hv. aðalflm., að tölurnar í skýrslunni eru rangar.

Alt, sem um þetta hefir verið sagt, er af andstæðingum okkar talið ósannindi, rógur og fals, og þýðir því ekkert um það að tala.

Hv. 2. þm. Rang. (KIJ) hjelt því jafnvel fram, að á tölunum væri ekkert að byggja. Yfirleitt er ekki til neins að bera fram rök gegn þeim mönnum, sem engin rök vilja skilja eða viðurkenna. Það er áreiðanlegt, að aðstaða þingmanna breytist ekki úr þessu til þessa máls, hversu lengi sem um það verður talað hjer á háttv. Alþingi, og óska jeg því, að atkvæða sje leitað sem fyrst.