22.04.1925
Efri deild: 58. fundur, 37. löggjafarþing.
Sjá dálk 582 í D-deild Alþingistíðinda. (3319)

101. mál, sveitarstjórnar, bæjarstjórnar- og fátækralöggjöf

Magnús Torfason:

Jeg skal fyrst leiðrjetta þann misskilning hv. 1. þm. G.-K. (ÁF), að þessi till. standi beinlínis í sambandi við frv. hans um breytingu á bæjarstjórnarlögum Hafnarfjarðar.

Uppástungan um þessa milliþinganefnd er fyrst komin frá hv. allshn. Ed. Svo stóð á, að allmörg frv. voru fram komin um breytingu á sveitar- og bæjarstjórnarlöggjöfinni svo og fátækralögunum, ennfremur frv.um bygðarleyfi o. s. frv. Við litum svo á í báðum allshn. þingsins, að ekki myndi tími til vinnast að ganga svo frá öllum þessum málum, að vel væri, þegar af þeirri ástæðu, að þegar farið var að athuga frv. og bera þau saman við lög, sem samþ. hafa verið á síðustu þingum, þá kom brátt í ljós, að hagsmunir hinna ýmsu hjeraða stangast mjög á í þessum efnum. Allsherjarnefndunum varð því fljótt ljóst, að til þess að þessum málum yrði skipað svo vel sem skyldi, þá þyrfti hún að ráða yfir margfalt meiri tíma en mögulegt var að verja til athugunar þessum málum.

Það er t. d. ofur skiljanlegt, að ekki verði hlaupið athugunarlítið að annari eins breytingu og þeirri, að takmarka enn, hvað telja skuli þeginn sveitarstyrk og hvað af honum skuli leiða. Slíkar breytingar hafa í för með sjer mikinn mun á afstöðu hjeraðanna hvers gagnvart öðru. Viðskifti þeirra verða öll með öðru sniði, og því sjálfsagt að skipa þeim öðruvísi í löggjöfinni en nú er gert.

Sjerstaklega er þó áberandi í öllu, sem við kemur skattamálum sveita og bæja, að í þeim efnum er löggjöf síðari ára á skakkri braut. Leit nefndin svo á, að ekki væri viðlit að færa í lag missmíðar, sem orðið hafa á hjer að lútandi lögum, þegar á þessu þingi, og mun enda reynast tæplega hægt, nema með almennum lagabálki.

Nú hefir komið fram stjfrv. um úrskurði í útsvarsmálum sjerstaklega, en lengra náði það frv. ekki. Hefir hæstv. stjórn sennilega ekki treyst sjer til að undirbúa víðtækari breytingar í þessum efnum fyrir þetta þing. En það er fullkomin ástæða til að fá sjerlög um öll skattamálefni sveitanna, sem yrðu þá nokkurskonar rammi, er kauptúnin gætu einnig bygt út í.

Mjer skildist nú á hæstv. atvrh. (MG), að hann treysti sjer til að undirbúa slíka löggjöf fyrir næsta þing. Er það góðra gjalda vert, og því ekki ástæða fyrir okkur að skipa nú milliþinganefnd vegna þessara mála út af fyrir sig.

Í öðru lagi er till. fram borin vegna þess, að nauðsyn þykir bera til að koma öllum ákvæðum um kosningar í sveitar- og bæjarmálefnum í einn lagabálk. Út af fyrir sig getur það heldur varla talist mjög mikið verk, einkum ef aðeins á að safna og samræma þær heimildir, sem eru í núgildandi lögum um þetta efni. Þó kemur ýmislegt fleira til greina í þessu sambandi, þar á meðal hvort ekki sje rjett, að þeir missi kosningarrjett, sem eiga ógoldin útsvör eða önnur gjöld til bæjar- og sveitarsjóða, eins og jeg hefi heyrt að tíðkast hafi í Reykjavík upp á síðkastið. (JBald: Þessu ákvæði hefir aldrei verið beitt þar). Því hefir a. m. k. verið haldið fram í riti, sem jeg hefi nýlega lesið, að þetta væri nauðsynlegt ákvæði til þess að skattheimta til bæjar- og sveitarsjóða geti gengið betur. En kunnugt er mjer líka um, að látnir hafa verið falla vextir á frá gjalddaga, og gæti það verið æskilegri leið. Jeg skal nú engan dóm leggja á þetta atriði, en sjálfsagt er að taka það til yfirvegunar. Og svo mikið get jeg sagt af eigin reynslu, að altaf gengur innheimta þessara opinberu gjalda ver og ver með hverju ári sem líður.

Ennfremur getur verið spurning um, hvort ekki sje rjett að lögbjóða leynilegar kosningar víðar en í bæjunum. Til sveita er sumstaðar farið að nota heimildarlög um leynilegar kosningar, og er mjer kunnugt um, að þau hafa ekki reynst alls kostar heppileg, og þyrfti því sennilega að breyta þeim eitthvað, eða þá fella þau alveg úr gildi.

Jeg er nú ekki í neinum vafa um, að hæstv. stjórn muni geta unnið þessi verk öll saman, án þess að milliþinganefnd þurfi að koma til.

En það er önnur hlið á þessum sveitarstjórnarmálefnum yfirleitt, sem hæstv. stjórn mun eiga erfitt með að ráða fram úr. En það er að samræma hina ýmsu hagsmuni sveitar- og bæjarfjelaganna hvers gagnvart öðru. Það er sýnilegt, að hagsmunir sveita og kaupstaða stangast mjög á og margvíslega, enda er vitanlegt, að atvinnuvegir landsmanna hafa breyst mjög á síðari árum og orðið miklu margbrotnari en áður, og er því ekki nema eðlilegt, að altaf beri meira og meira á milli. Að þessu leyti lít jeg svo á, að öll þessi mál þurfi alveg sjerstakan undirbúning. Jeg sje ekki betur en að þetta sje pólitískt mál, sem tæplega verði til lykta ráðið nema því aðeins, að hinir pólitísku flokkar í þinginu standi að undirbúningi þess. Það mun tæplega vera á færi nokkurrar stjórnar, jafnvel þó að hún njóti aðstoðar sjerfræðinga, að undirbúa svo lög um sveitarstjórnarmálefni alment, þar sem hagsmunir hinna ýmsu hjeraða hljóta altaf að rekast á að meira eða minna leyti, að nokkur von sje til, að þau nái samþykki þingsins. Jeg er í engum vafa um, að ef slík löggjöf á að ná samþykki þingsins, þá þarf hún að hafa fengið samþykki flokkanna fyrirfram, en það fæst varla nema þeir eigi menn í nefnd, sem undirbúi löggjöfina. Það er sjerstaklega frá þessu sjónarmiði, að jeg varð sammála hv. allshn. Ed. um, að nú væri tími til kominn að skipa milliþinganefnd í öll þessi mál.

Hæstv. atvrh. (MG) gat þess, að ef hæstv. stjóra ætti að undirbúa þessi mál, þá mundi hún beiðast álits sýslunefnda um þau. Jeg held nú, að ekki verði ýkjamikið á því að græða, þó að sýslunefndum verði sendar fyrirspurnir um, hverju þær telji æskilegt að breytt verði í sveitarstjórnarlöggjöfinni. Miklu betra væri, að þær fengju ákveðin frv. til umsagnar, er þœr gætu gert við sínar aths. Hitt mun valda glundroða, að leggja fyrir sýslunefndir að gera till. um breytingar á löggjöfinni, enda tæplega þess að vænta, að þær hafi mönnum á að skipa til slíkra hluta, svo að byggjandi sje á till., og það því fremur, sem sýslunefndir sitja ekki nema fáa daga á rökstólum árlega og ynnist því illa tími til þess að gera frumlegar till. um þessi mál.

En eins og jeg sagði áðan, getur allshn. ekki verið mjög fast í hendi, að till. nái fram að ganga, eftir að við höfum heyrt undirtektir hæstv. atvrh. Og í þessu sambandi vil jeg geta um eina ástæðu, sem gerði það að verkum, að jeg var í fyrstu hálftregur til að aðhyllast till. um skipun milliþinganefndar. Hún er sú, að enn er ekki fengin reynsla fyrir því, hvernig breyting sveitfestistímans muni gefast. En við nánari athugun varð jeg að líta svo á, að þetta gæti ekki verið nein aðalástæða til að vera á móti till., vegna þess m. a., að jeg býst við, að milliþinganefndin muni síðast taka til meðferðar skipun fátækramálanna.

Um kostnað við milliþinganefnd má auðvitað deila, en þeir hv. þm., sem mest gera úr honum, munu ekki hafa gert sjer ljóst, hversu mikið stjórnina kostar venjuleg aðstoð við löggjafarstarf sitt. Vil jeg þó á engan hátt telja þann kostnað eftir nje vanþakka lögfræðilega aðstoð, sem allar stjórnir hafa tekið sjer meira og minna.

Hv. þm. Barð (HK) gerði fyrirspurn til allshn. um, hvað frv. hans um breytingu á Reykjavíkurlögunum liði. Hv. þm. (HK) veit, að ekki hefir staðið á mjer, að það frv. kæmi til umr. í hv. deild, en jeg hefi áður getið þess, að ef öll þessi sveitar- og bæjarstjórnarmálefni verða fengin milliþinganefnd til meðferðar, þá hlýtur það að hafa áhrif á framgang þessa frv., eins og annara, sem nú liggja fyrir hv. deild um þessi efni. Að öðru leyti er jeg ekki neitt á móti því sjerstaklega, að þetta frv. nái fram að ganga*).

*) Vantar niðurlag ræðunnar. MT.