22.04.1925
Efri deild: 58. fundur, 37. löggjafarþing.
Sjá dálk 590 í D-deild Alþingistíðinda. (3321)

101. mál, sveitarstjórnar, bæjarstjórnar- og fátækralöggjöf

Klemens Jónsson:

Við fyrri umr. beindi jeg þeirri spurningu til hæstv. atvrh. (MG), hvort stjórnin treysti sjer til þess að undirbúa þetta mál sjálf til næsta þings. Svarið var á þá leið, að hann vantreysti sjer ekki til að koma með frv. um þau tvö atriði sem meðal annars er minst á, nefnilega útsvarsskylduna og kosningarrjett til sveitarstjórnar. Svarið var að vísu ekki alveg ákveðið nje skýlaust, en jeg skildi það á þá leið, að hann vantreysti sjer ekki til þess.

Jeg ímynda mjer líka, að hann sje fær um að efna það, því þessi atriði eru ekki svo flókin, að það sje ekki kleift, þótt stjórnin hafi hinsvegar nóg við tímann að gera.

Jeg fór ekkert út í það í fyrirspurn minni, hvort stjórnin kæmi með góð frv. Jeg gekk út frá, að svo yrði. En það er ekki nóg, heldur verður líka að leggja áherslu á það, að frv. sjeu svo úr garði gerð, að stjórnin treysti sjer til þess að koma þeim í gegnum þingið. Það er alkunnugt, að mikil hreppapólitík á sjer stað í þessum málum, og því gæti það reynst mjög erfitt að útbúa þau svo að öllu leyti, að þau gengju þegar í gegn, er þau kæmu. Iðulega hefir þessi hv. þingdeild skorað á stjórnir að undirbúa hin og þessi mál. Stjórnirnar hafa síðan gert það, og oft lagt í það mikla vinnu, en þegar til kom, hefir hin hv. þingdeild felt frv. því er mjög áríðandi, að reynt sje að undirbúa þetta mál svo, að því megi treysta, að það gangi í gegn.

Hvað önnur mál snertir, þá skildist mjer hæstv. atvrh. (MG) ekki fyllilega treysta sjer til þess að undirbúa þau, en ef jeg skildi hann rjett, þá hjelt hann þó, að það gæti raunar tekist, að vísu ekki fyrir næsta þing, en síðar, á þann hátt, að leitað væri álits hrepps- og sýslunefnda og bæjarstjórna um málin. En jeg vil segja hæstv. atvrh, að hann má ekki treysta um of á till. þessara aðilja, og jeg held, að það sje rjett, sem hv. 1. þm. Árn. (MT) sagði, að nær væri að senda þeim frv. að nokkru undirbúin til umsagnar heldur en að biðja beint um till. þeirra að óyfirveguðu máli. Jeg segi þetta ekki út í bláinn. 1923 komu fram frv. um breytingar á bæjarstjórnarlögum fyrir Siglufjörð, Reykjavík og Seyðisfjörð. Þótti þinginu ekki hlýða að lappa upp á löggjöf einstakra kaupstaða, en skaut því til stjórnarinnar, hvort hún sæi sjer ekki fært að undirbúa frv. fyrir næsta þing, þ. e. 1924, þar sem samræmd væri öll kaupstaðalöggjöfin. Var síðan málinu vísað til stjórnarinnar. Jeg var þá ráðherra og tók þessu líklega, eins og hæstv. atvrh. (MG) nú. Og undir eins að þinginu loknu sendi jeg fyrirspurnir til allra bæjarstjórna um, hvaða till. þær vildu gera. Jeg lýsti því í þingbyrjun 1924, hvaða árangur varð af þessu. Hann varð sá, að Siglufjörður vildi ekkert samræmi hafa í löggjöfinni, heldur hefði hver kaupstaður sín lög. Frá öðrum kaupstað, Akureyri, kom ítarlegt og rökstutt álit. Frá Seyðisfirði kom engin till., en þó svar. En frá öllum hinum kom alls ekkert. Enn var það, að allar till. komu svo seint, eða fyrst undir árslok 1923, að þótt allir kaupstaðirnir hefðu sent góðar og greinilegar ályktanir og rökstuddar till., þá hefði verið of seint fyrir stjórnina að undirbúa frv. fyrir þingið. Jeg segi þetta til þess, að hæstv. atvrh. skuli ekki gera sjer of glæstar vonir um að leita álits þessara stjórnarvalda, og til hins líka, að ef þessi stjórnarvöld kynnu að líta í Alþingistíðindin og rekast á ræðu mína, þá kynni það að ýta betur við þeim en fyrirspurnirnar 1923. Ef því málið er svo mikilsvert, að mönnum er umhugað um að binda enda á það, og jeg veit, að svo er eindreginn vilji þessarar hv. deildar, og jeg hygg líka hv. Ed., því tillagan mun vera þaðan komin — ef menn, segi jeg, vilja útkljá málið, þá álít jeg, að langheppilegast sje að skipa milliþinganefnd í það. Að vísu hlýst af því talsverður kostnaður. Jeg skal ekki gera lítið úr því. Það var nefnd hjer upphæð við fyrri umr. Jeg ætla, að aldrei verði það langt undir henni, getur meira að segja farið dálítið upp fyrir hana. En málið er svo þýðingarmikið og veldur nú þinginu svo miklum örðugleikum og kostnaði ár frá ári, að jeg held, að það sje vel til vinnandi að kosta nokkrum þúsundum til þess að koma því í sæmilegt horf. Jeg þykist nefnilega mega treysta því, að nefndin verði svo skipuð, að hún geti það. Það var einmitt milliþinganefnd, sem samdi sveitarstjórnar- og fátækralöggjöfina 1905, og er ekki annað hægt að segja en að sú nefnd hafi unnið vel og dyggilega.

Hv. 1. þm. G.-K. (ÁF) var að gera lítið úr milliþinganefndum yfirleitt og sagði, að till. þeirra væri lítill gaumur gefinn. Rjett er það, að svo er stundum, en oft er líka svo, að eftir að liðin eru nokkur ár, þá eru frv. milliþinganefnda grafin úr gleymsku og þeim komið í gegn með því einu, að breyta þeim lítillega. Jeg gæti bent á ekki svo fá frv. frá milliþinganefndum, sem ekki hafa orðið að lögum fyr en eftir 10 ár. En þá er starfið heldur ekki unnið fyrir gíg, þvert á móti. Annars var sveitarstjórnarlöggjöfin vel undirbúin í fyrstu. Kaupstaðalöggjöfin hefir staðið óhögguð í fjöldamörg ár. Bæjarstjórnarlöggjöfin fyrir Reykjavík frá 1872 var ágæt og stóð óhögguð í 30 ár. Og samskonar löggjöf fyrir Akureyri og Ísafjörð frá 1883 stóð að minsta kosti 20 ár án þess að við henni væri haggað. En á síðustu árum hafa orðið svo miklar byltingar í þjóðfjelaginu, þar á meðal miklir fólksflutningar úr sveitum og breytileg lífskjör, að nú er nauðsyn á, að löggjöfinni um þessi mál verði breytt og hún gerð hagfeldari. En jeg efast um, þótt hæstv. stjórn leiti álits allra aðilja, að hún fái búið frv. svo úr garði, að það verði samþ. af þinginu eins greiðlega og ef milliþinganefnd semdi það, sem skipuð væri mönnum úr öllum stjórnmálaflokkum í landinu. því að jeg legg áherslu á það með hv. frsm. (BSt), að verði till samþ., þá sjeu skipaðir í nefndina menn úr öllum flokkum. Af því, sem hjer hefir fram komið í málinu nú, tel jeg rjett, þótt hæstv. stjórn lofi að undirbúa frv. um útsvarsskyldu og kosningar til bæjar-og sveitarstjórna, að skipa milliþinganefnd í öll þau mál, sem standa í sambandi við sveitar- og bæjarstjórnarlög og fátækralöggjöf þessa lands.