21.04.1925
Efri deild: 57. fundur, 37. löggjafarþing.
Sjá dálk 625 í D-deild Alþingistíðinda. (3341)

101. mál, sveitarstjórnar, bæjarstjórnar- og fátækralöggjöf

Jónas Jónsson:

Jeg skal verða stuttorður. Báðir meðnefndarmenn mínir virðast nú hallast að þeirri stefnu að vísa málinu til stjórnarinnar. Er þá hruninn sá grundvöllur, sem bygt var á, en af því að stjórnin mun koma til með að fjalla um málið, vil jeg nota tækifærið til að svara einstökum atriðum í ræðu hæstv. atvrh. (MG). Sumum af þessum atriðum hefir þegar verið vísað til stjórnarinnar, að minsta kosti gerði hv. 2. þm. S.-M. (IP) það í þessari deild í fyrra, og hefir ekkert komið út af því. Jeg hefi að vísu ekki reynslu fyrir mjer í því efni, en mig minnir, að það hafi oft áður verið talað um það við fyrri stjórnir að reyna að fá allsherjarskipulag á sveitarstjórnar- og fátækralöggjöf landsins, en það hefir ekki verið gert, þótt full ástæða væri til þess, því að þörfin er svo bersýnileg. Jeg tel því tregðu stjórnanna um að leysa þetta mál sem vott um það, að stjórnirnar hafi verið ófúsar á að taka upp þetta mál og reyna að leysa það í heild sinni. Þetta er þess vegna sterk ástæða fyrir þeirri leið, sem nefndirnar hafa komið sjer saman um, því að það er ekkert í aðstöðu hæstv. stjórnar nú, sem geri henni auðveldara að leysa þetta mál nú heldur en fyrir síðasta þing. Jeg vil t. d. benda á það, sem er ákaflega óþægilegt fyrir alla lögfræðinga og þá, sem ekki eru það, að það skuli vera sjerstök löggjöf fyrir hvern kaupstað á landinu. Það hafa t. d. verið búin til sjerstök lög fyrir Akureyri, Vestmannaeyjar og Reykjavík, og jeg vil benda hæstv. atvrh. á það, að ný lög hjer í Reykjavík, sem koma með nýjum venjum á þessu sviði, gera það nauðsynlegt að fá samræmda löggjöfina fyrir alla kaupstaðina, og ef hæstv. atvrh. tekur þetta að sjer, þá vil jeg ekki draga úr því áliti, sem fram kom hjá okkur í nefndunum, að það ætti að koma fram heilsteypt löggjöf fyrir kaupstaðina, og jeg get ekki sagt, að leyst sje úr óskum okkar nefndarmanna, þó að teknir væru einhverjir útskikar af málefninu og þeir leystir.

Hæstv. atvrh. (MG) bjóst við því, að það gæti komið til mála að hreyfa ekki við sveitfestiatriðinu, því að það mundi mega telja það svo, að sumir vildu hafa sveitfestitímann lengri, en sumir styttri. T. d. sá hv. 1. þm. N.-M. (HStef), sem hv. þm. Vestm. (JJós) vitnaði í, sem segir, að dvalarstaður ætti að vera sveitfestistaður, þessi maður hefir svo róttækar skoðanir í þessu máli, að jeg verð að líta svo á, að svo langt verði ekki komist. Svo er annað atriði, um bygðarleyfið. Sveitirnar geta ekki sætt sig við það, sem nú er. Þær ala upp fólk handa sjávarplássunum, sem sest þar að, en er svo kastað heim á sveitirnar, þegar illa gengur fyrir því. Jeg get tekið eitt dæmi hjeðan úr nágrenninu. Það er Bessastaðahreppur hjer á Álftanesinu. Hann er alveg að sligast undir sveitarþyngslum. Áður fyr voru þar margar verstöðvar. Var róið þaðan fjölda áttæringum. Margt af því fólki, sem hjer er á togurunum, er alið þar upp, og svo hefir reynslan orðið sú, að talsvert mikið af þessu fólki, sem unnið hefir öðru sveitarfjelagi meðan það gat, hefir svo verið kastað heim, og það er nú komið svo langt, að þessi sveit hefir orðið að biðja um sjerstaka ríkishjálp til þess að losna úr þessum kröggum, og það er ekki hægt að synja um það, því að þessi sveitarþyngsli eru ekki með eðlilegum hætti. T. d. verður einn bóndi þar að sjá fyrir sem svarar 6 sveitarómögum. Þess vegna eru komnar fram sterkar raddir um það, að sveitfestitíminn sje gerður styttri en 4 ár og þurfi leyfi til að flytja í bæinn eða hreppinn. Þegar talað var um sveitfestiatriðið á þinginu 1923, þá kom til orða að stytta tímann niður í 2 ár, og þá man jeg eftir því, að það barst í tal við hv. þm. Ísaf., núverandi hv. þm. N.-Ísf. (JAJ), og kvaðst hann þá mundu verða neyddur til að bera fram till. þess efnis, að menn, sem flyttu í bæinn, yrðu að fá leyfi til þess, í þeim tilgangi að takmarka innflutning til bæjarins. Þarna mætast einmitt hagsmunir sveitanna og bæjarfjelaganna um það að takmarka með nokkrum hætti þennan innflutning. Jeg held því, að það sje hvergi nærri eins auðvelt að leysa úr þessu máli eins og hæstv. atvrh. heldur. Það verður erfitt að koma því fyrir, t. d. því, hvernig tryggja skuli kauptún eins og Norðfjörð og önnur fleiri, sem í raun og veru eru kaupstaðir, en hafa ekki enn fengið bæjarrjettindi. Jeg held því, að þessi leið, sem hv. deild ætlar að fara, hafi ekki aðrar afleiðingar en þær, að það seinki málinu. Hæstv. atvrh. (MG) vildi eiginlega skilja orð mín þannig, að jeg væri að lofa því að verða á móti stjfrv., sem fram kæmi um þetta efni. En það er oftrú hjá hæstv. atvrh., því að jeg hefi, eins og hann veit, stutt sum af frv. hæstv. atvrh., þótt jeg hafi ekki verið ánægður með þau. (Atvrh. MG: Jeg tók það fram, að jeg skoðaði það ekki sem hótun). Já, en hæstv. atvrh. tók það þó sem umtal um slíkt. En að jeg tók það fram, að sum frv. stjórnarinnar hefðu átt mjög erfitt uppdráttar, þá var það ekki til að áfella stjórnina, því að það hefir komið fyrir um fleiri stjórnir, heldur til að sýna, að það er mjög erfitt að undirbúa slík stórmál, sem hjer er um að ræða, þegar landsstjórnum verður hált á smámálum. Það hefir verið bent á það, að nefndin gæti klofnað, og þá væri starf hennar ónýtt, en það er alls ekki. Í einu máli hjer á þingi hefir fjhn. klofnað í fernt. Nú er verið að gefa út þessi álit, og held jeg, að það verði gott fyrir kjósendur landsins að fá þessi mismunandi álit. Jeg held meira að segja, að þó að það komi oft fyrir hjer í þinginu, að nefndir klofni, þá fáist þó oft allgóðar niðurstöður við þau ljós, sem rannsókn nefndanna hefir skapað. Þá vildi hæstv. atvrh. (MG) hafa það á móti þessari nefndarskipun, að slátrað hefði verið tveimur eða þremur stjfrv., sem sparnaðarnefndin hefði undirbúið. Þetta er að vísu rjett, en hæstv. atvrh. (MG) getur ekki áfelt mig í því sambandi, því að jeg geri ráð fyrir, að hann muni það, að jeg og hv. þm. A.-Húnv. (GÓ) bárum fram þessa till. í upphafi, en hún gekk þá út á alt annað, sem sje ólaunaða menn úr öllum flokkum, sem skyldu undirbúa samanfærslu embætta. Þetta vildum við gera fyrir stjórnina, en hún setur í staðinn launaða nefnd, þvert ofan í það, sem tillögumenn höfðu upphaflega ætlast til, og endirinn varð sá, að þessari nefnd — jeg held ekki af því að hún var launuð, heldur af því að hún var ekki í nógu nákvæmri snertingu við þingflokkana — gekk starfið illa.

Hv. þm. Vestm. (JJós) fjelst á það hjá mjer, að þessu máli yrði erfitt að koma fram og að endanleg lausn fengist ekki með öðru en því að samræma þessi lög, og tók til dæmis útsvarsatriðið. Það er rjett. Það er brennandi spurning. Það var t. d. komið í það óefni hjer, að menn hjeðan gátu flutt sig út fyrir bæinn og búið þar, en stundað hjer atvinnu eftir sem áður. Svo fengu Reykvíkingar löggjafarvaldið til að bæta úr þessu, en það er alls ekki nóg, af því að það hefir ekki verið leyst úr málinu í heild sinni, og nú verður hæstv. atvrh. að koma með nýtt frv. um þetta, en jeg er ekki ánægður með það. Mjer væri kærara, að málið væri athugað í heild sinni, því að mjer fanst lausnin ekki vera góð. Hv. þm. Vestm. (JJós) talaði um það, að ríkisstjórnin mundi fá sjer góða og sjerfróða aðstoð, en honum láðist að athuga það, að þótt nokkrir góðir og gamlir lögfræðingar, sem ekki eru í snertingu við neitt af þessum málum, aðstoði hana, þá getur þetta í eðli sínu verið sjerfróð hjálp, án þess að hún þó verði að nokkru gagni fyrir framgang málsins.

Þótt jeg sjái það af ræðu hv. þm. Seyðf. (JóhJóh), hvernig hann ætlar að taka í málið, vil jeg þó benda hv. þm. (JóhJóh) á það, að þetta er það, sem menn kalla að sjá sig um hönd. Máske hafa samnefndarmenn okkar fengið útdrátt úr gerðabók okkar, þar sem það er sagt, að þetta sje bókað, sem jeg annars skal leyfa mjer að lesa upp. Það var á fundi allshn. Nd. 4. mars. Allshn. Ed. kom á fundinn. í fundargerðinni stendur:

„Varð það að samkomulagi að fela allsherjarnefnd neðri deildar að semja þingsályktunartillögu um skipun milliþinganefndar í sveitarstjórna- og kaupstaðamálefni“.

(JóhJóh: Þetta er alveg það sama og jeg sagði). Já, þetta er ákveðið af nefndunum sameiginlega, að bera fram svona þáltill. Nú, jeg vil ekki væna hv. þm. Seyðf. (JóhJóh) um það, að honum hafi ekki líka dottið í hug hin leiðin, sem er svo algeng, en hv. þm. (JóhJóh) fyrir sitt leyti gengið inn á þessa till., og mjer hefði ekki dottið í hug að samþ., að þessi till. væri borin fram, ef hv. þm. Seyðf. hefði ekki verið með því, því að jeg bygði þar á samstarfi flokkanna, og jeg hjelt, úr því að báðum nefndum kom saman um það, að það væri afráðið, og það er víst, að þessi till. hefði ekki komið fram í því formi, sem hún er nú, ef hv. þm. Seyðf. hefði ekki verið okkur samdóma. En jeg þykist vita, að það hafi verið, því að jeg hefi oft haldið því fram í samtali milli okkar, að milliþinganefnd væri sjálfsögð í þessu máli, en jeg vil ekki hæla mjer svo mikið, eins og gefið var í skyn af hálfu hv. þm. Seyðf., að jeg hefði snúið honum í þessu máli, en jeg skoða það sem „kompliment“, en sjeð eru nú forlög Karthagoborgar í þessu, og þykir mjer leitt, að hv. þm. Seyðf. skyldi ekki hafa sjeð þessa leið fyr. Þó að það leiði ekki til mikils, þá hefði það þó getað sparað okkur þetta ómak í dag.