21.04.1925
Efri deild: 57. fundur, 37. löggjafarþing.
Sjá dálk 649 í D-deild Alþingistíðinda. (3351)

101. mál, sveitarstjórnar, bæjarstjórnar- og fátækralöggjöf

Ingvar Pálmason:

Jeg vil mótmæla, og það kröftuglega, þeim orðum hæstv. atvrh. (MG), er hann sagði, að ræða mín hefði verið óvingjarnleg í hans garð. Jeg veit ekki, hvernig jeg get verið vingjarnlegur við stjórn, sem jeg ekki styð, ef jeg var það ekki nú í ræðu minni. Jeg beindi aðeins þeirri ósk til hæstv. atvrh., að hann tæki til greina nokkrar bendingar um málið yfirleitt, vegna þess, að jeg taldi forlög þáltill. ráðin. Jeg vona líka, að hann athugi þessar bendingar. Og taki hann hjer enn til máls, þá vænti jeg, að hann byrji ekki ræðu sína á því aftur, að jeg hafi mælt til hans óvingjarnlega. Þá er eitt atriði, sem hæstv. ráðh. mintist á í sambandi við ræðu mína, sem sje það, að með breytingu á vegalögunum frá í fyrra hefði sú breyting orðið, að hreppavegagjöld þeirra kauptúna, sem eru hreppsfjelög út af fyrir sig, mætti ekki lengur nota til vegalagninga innanhrepps nema að hálfu, en áður að öllu leyti. Hann vitnaði til þess, að hann hefði ekki verið þessu fylgjandi í Nd. í fyrra, og tek jeg það trúanlegt og vænti þess fastlega, að þetta atriði verði athugað við væntanlega breyting á sveitarstjórnarlögunum.

Þá mintist hæstv. atvrh. á dæmi það, sem jeg nefndi, er Neshreppur í Norðfirði greiddi einn næstum 1/4 af öllu sýslusjóðsgjaldi Suður-Múlasýslu, og kvað það enga sönnun, þó að jeg nefndi tölur. Það væru engar upplýsingar í þeim. Jeg býst nú við því, að mjer muni ekki auðnast að fœra nóg rök og upplýsingar um þetta atriði nú, en jeg vildi benda á það sem einn lið, sem vert væri að gefa gaum að. Liggur þetta að nokkru leyti í því, eins og vitanlegt er, að skuldlausar eignir í þessum hreppum eru aðallega húsin. Í þorpum eru venjulegast bygð timburhús, en allir vita, hve endingargóð þau eru. Nú er farið eftir 7 ára gömlu fasteignamati, og getur því komið fram mikið misrjetti. Á Austfjörðum standa slík hús venjulega ekki lengur en 20 ár, sjerstaklega við sjó. Og við sjáum það, að þegar 8–10 ár líða milli mats, verður það óábyggilegt.

Jeg ætla ekki að koma fram með neina breytingartillögu, heldur benda á þá agnúa, sem á löggjöfinni eru.

Hæstv. atvrh. sagði, að jeg legði meira í till. en í henni fælist. En ef málið fer til stjórnarinnar, þá er greinargerðin fallin.

Að síðustu sagði hæstv. atvrh., að jeg vildi gera málið að flokksmáli. Jeg veit ekki, hvernig honum dettur það í hug. Jeg hefi áður tekið það skýrt fram, að óheillavænlegt væri að gera það að flokksmáli. Hitt er annað mál, að ýmislegt, sem komið hefir fram, bendir til þess, að það eigi að gera það að flokksmáli, en jeg hefi ekki gefið neitt í skyn um, að jeg ætlaði að gera það. Jeg þykist hafa talað um málið á þeim grundvelli, að það færi til hæstv. stjórnar, þótt jeg hefði talið heppilegra, að það hefði fengið þá afgreiðslu, sem til var ætlast. Af svörum hæstv. atvrh. hefi jeg sjeð, að ýmislegt er undirbúið í málinu, og ættu því að geta legið töluverðar umbætur fyrir næsta þingi.

Jeg sje ekki ástæðu til að orðlengja um þetta. Það, sem kom mjer til að standa upp, var það, að jeg vildi svara hæstv. atvrh., vegna þess, að hann taldi fyrri ræðu mína miður vingjarnlega.