24.03.1925
Neðri deild: 41. fundur, 37. löggjafarþing.
Sjá dálk 219 í B-deild Alþingistíðinda. (34)

1. mál, fjárlög 1926

Forsætisráðherra (JM):

Háttv. þm. V.-Ísf. (ÁÁ) þarf jeg engu frekara að svara, því að hið eina atriði í ræðu hans, sem aðrir voru ekki margbúnir að taka fram, var verkamannainnflutningurinn, sem hann þó játaði, að væri ekkert stórmál. Þá talaði hann og um sakamálsrannsókn á hendur einhverjum presti. Jeg man nú ekkert, hvernig í því lá, en víst var það, að á hann voru bornar sakir, þannig vaxnar, að ómögulegt var annað en láta athuga málið.

Háttv. 3. þm. Reykv. (JakM) þarf jeg sömuleiðis litlu að svara. Hann sagðist ekki þurfa að fá samþykta þál. til þess að sannfærast um, að stjórnin væri sek um Krossanesmálið. (JakM: Jeg sagðist ekki þurfa að fá þessa nefndarrannsókn til þess að sannfærast um, að Krossanesmálið væri athugavert). Það er sama og jeg sagði.

Jeg skal ekki fara mikið út í það, sem háttv. þm. sagði um starfa sinn. En jeg hygg, að alt standi óhrakið, sem jeg sagði þar um. Hann hefir viðurkent að hafa aldrei komið í bankana sem eftirlitsmaður.

Þá vil jeg víkja nokkrum orðum að háttv. 1. þm. Árn. (MT). Það er í þriðja skiftið nú, sem hann svarar hinni stuttu ræðu minni. Og altaf kvartar hann um, hve jeg hafi verið vondur við sig. En jeg tek ekkert aftur af því, sem jeg sagði, hvað oft sem háttv. þm. kvartar. Því að það, sem jeg sagði, átti hann fyllilega skilið.

Háttv. þm. mintist á varalögreglufrumvarpið og sagði, að í því hefði strax verið bráðapest, en nú væri það farið að úldna. Líklega heldur þessi háttv. þm. þessum pestarskrokk, sem hann kallar, svona lengi hjá sjer, af því að honum þykir góður af honum ilmurinn.

Þá sagði háttv. þm., að jeg hefði lært að hegða mjer betur eftir viðureignina við hann. En því verð jeg að svara: „Nemo me impune lacessit“.

Þá sagði háttv. þm., að jeg hefði sagt, að hann mundi ekki þora að láta ræðu sína koma óbreytta í þingtíðindunum, og fór að hæla sjer fyrir, að hann hefði gert það; aðeins bætt dálitlu í hana. Jeg veit nú ekki, hvað er að breyta ræðu, ef það er ekki breyting að bæta í hana.

Þegar háttv. þm. var að tala um, að jeg kynni ekki að hegða mjer upp á við, skildi jeg hann ekki. (MT: Því trúi jeg vel). En hann er nú stundum myrkur í máli, og því ekki gott að skilja hann. Þá talaði háttv. þm. um, að hann hefði stöðvað mig í einhverju máli, svo að jeg hefði ekki farið út fyrir efnið. Jeg kannast ekki við þetta. Að minsta kosti er háttv. þm. ekki orðinn forseti ennþá.

Þá talaði þessi háttv. þm. um, að mál hefði verið tafið fyrir sjer, áður en hann fór frá Ísafirði, og að skjöl í málinu hefðu verið lánuð. Þessu er jeg ókunnugur. Annars er jeg hissa á, að háttv. þm. skyldi ekki taka það fram, að hann væri svo sem ekki reiður við mig, eða hann væri svo sem ekki að ráðast á mig fyrir það, þó að jeg hefði gert honum rangt til í embættaveitingum, sem hann hefir svo oft tekið fram, og bætt því við, að forsjónin hafi hefnt sín.

Það er nú svo, að jeg tel langt frá, að jeg hafi nokkurn tíma gert honum rangt til í embættaveitingum, því að í þeim hefi jeg altaf fylgt hinni sömu reglu, — reglu, sem mjer er svo að segja orðin meðsköpuð.

Háttv. þm. var og í þessu sambandi að vitna til mjög merks látins þingmanns. Út af því vil jeg minna þennan háttv. þm. á, hvað þessi góði látni þm. sagði um þetta atriði, og úr því hann er ekkert reiður við mig, þá vænti jeg, að hann sjái, að efasamt er, hvort mjer hefir að öllu leyti verið sjálfrátt með veitingu þessa embættis. Þessi merki látni þingmaður sagði, að þegar það hefði frjest fyrir vestan, að núverandi háttv. 1. þm. Árn. (MT) hefði sótt um lögreglustjóraembættið hjer, þá hefðu gengið heit um alla sýsluna og þess beðið, að honum yrði veitt embættið. En á hinn bóginn hafi hjer í Reykjavík og gengið heit um það, að hann fengi ekki embættið, og með því að Reykvíkingar hafi verið fjölmennari, þá hafi þeirra heit mátt sín meira. Hv. þm. hlýtur því að sjá, að hjer hafa æðri öfl tekið í strenginn.