27.02.1925
Sameinað þing: 3. fundur, 37. löggjafarþing.
Sjá dálk 712 í D-deild Alþingistíðinda. (3408)

68. mál, strandferðir

Flm. (Jónas Jónsson):

Jeg vildi segja hjer fáein orð út af ræðu hæstv. atvrh. (MG). Hann talaði um, að varhugavert væri að koma fram með þáltill. í þessa átt, í stað þess að senda brjef til stjórnarinnar eða samgöngumálanefnda. Jeg hefi annað álit á þessu atriði. Þingið má ekki telja eftir tímann, þegar um slíkt stórmál er að ræða. Slíkt mál sem þetta á að ræða í sameinuðu þingi, til þess að fá heildaryfirlit yfir skoðanir þingmanna. Það er í raun og veru sama og að vísa málinu til nefndar, enda er hjer ekki farið fram á annað.

Þessi undirbúningur málsins hefir þegar haft nokkur áhrif. Forstjóri Eimskipafjelags Íslands hefir rannsakað kostnaðinn við Austfjarðabátinn og haustbátinn.

Jeg skal þegar taka það fram, að jeg tel strandferðunum hafa verið breytt í lakari átt síðastliðið ár. T. d. má geta þess, að árið 1923 fór „Esja“ tvær ferðir, sem tóku ekki nema 9 daga, en á árinu 1924 hefir hún engar ferðir farið svo hraðar. Þegar hæstv. atvrh. sjer, að hjer er um alvarlegan meiningarmun að ræða, þá ætti hann ekki að hafa á móti því, að málið sje rætt opinberlega. Það getur engum ilt gert, en aðeins orðið til skýringar og skilnings á nauðsyn málsins.

Viðvíkjandi því, sem sagt er í athugasemdunum við till. þessa, að ætlast er til, að „Esja“ gæti farið 25 ferðir á ári, hverja á 8–9 dögum, þá held jeg, án þess að jeg vilji gera lítið úr forstjóra Eimskipafjelagsins, að þetta sje ekki ofætlun, einkum þar sem skipstjórinn á „Esju“ hefir lýst yfir því við einn af flm., að hann treysti sjer til þessa, en þó því að eins, að skipið þurfi ekki að flytja vörur til þeirra hafna, þar sem bryggjur eru ekki fyrir hendi. En þetta mun jeg ekki gera að deiluefni, því að úr þessu ætti rannsókn nefndarinnar að skera. Þá ljet hæstv. atvrh. svo um mælt, að ekki væru neinar sannanir fyrir því, að hraðferðirnar bæru sig betur en hinar hægari, og var hann yfirleitt á þeirri skoðun, að hægari ferðirnar gæfu meira af sjer, enda má það til sanns vegar færa, að þær gefi meiri farmgjöld af sjer, þar sem skýrsla um síðastliðið ár gefur líka allmikið undir fótinn í þessu efni. par koma nefnilega til greina tvær utanlandsferðir, til Kaupmannahafnar og Leith, og í þeim var einmitt flutt mikið af vörum, eins og skýrslan ber með sjer, en lítið af farþegum. (Atvrh. MG: Jú, töluvert af farþegum líka). Ekki frá Leith, býst jeg við. Annað atriði kemur og til greina. Af því, hve skipið fer hægt — er 25, 23, 22, 20 og 19 daga á leiðinni — leiðir auðvitað það, að fólki, sem liggur á að flýta sjer, veigrar sjer við að taka sjer far með því. Menn kjósa fremur fjögra daga ferð milli Reykjavíkur og Akureyrar heldur en tíu daga ferð. Fólkið hleðst í útlendu skipin, vegna þess, hve hratt þau fara í samanburði við hin íslensku.

Jeg vil aftur víkja lítið eitt að þessum tveim níu daga ferðum um mitt sumar 1923, einmitt á þeim tíma, þegar minst er um vöruflutninga. Farmgjöld í ferðum þessum voru lítil, 2000 kr. í annari, 3000 kr. í hinni. Fargjöldin námu hinsvegar 8000 kr. í annari og 7000 kr. í hinni. Hraðferðirnar mundu hafa stórum aukin fargjöld í för með sjer, en vöruflutningar með hverri ferð hinsvegar minka. Það er næsta augljóst, hve óþægilegar og dýrar þessar löngu ferðir eru skólafólki og verkafólki, sem þarf að komast leiðar sinnar á skömmum tíma. Það er nauðsynin á því að ferðast hratt, sem gerir breytinguna óhjákvæmilega. Úr því að þessar tvær ágústferðir, sem jeg hefi getið um, urðu með litlum tekjuhalla, einmitt á þeim tíma, þegar minstur er fólksstraumurinn og nær engar vörur, þá held jeg, að engin ástæða sje til að ætla, að hraðferðirnar beri sig ver en hinar, heldur þvert á móti.

Þá töluðu þeir hæstv. atvrh. og hv. þm. Str. (TrÞ) um það, að með þessu fyrirkomulagi færu einstöku hafnir á mis við þær viðkomur, er þær ættu nú við að búa. Jeg skal reyna að skýra þetta nokkuð. Þrjár 9 daga ferðir koma hjer um bil með hinu breytta fyrirkomulagi í stað einnar 25 daga ferðar áður. Strandasýsla, Húnaflói og Skagafjörður, sem hv. þm. einkum nefndu í þessu sambandi, fengju tvær viðkomur í hverri ferð. Satt er það, að þetta kynni að vera einhver skaði fyrir sumar hafnir, en þar á móti legg jeg hlunnindi af fleiri ferðum en áður. Þar að auki geta Goðafossferðirnar bætt úr þessu. Hv. þm. Str. (TrÞ) sagði, að hver þingmaður ætti að vera þingmaður hjeraðs síns og alls landsins í senn. Þessi þáltill. gengur í þá átt að ákveða strandferðir fyrir alt landið og tryggja öllu landinu og um leið öllum hjeruðunum betri samgöngur á þessu sviði en áður.

Mjer þótti leiðinlegt, hve mikið hæstv. atvrh. hafði á móti Austfjarðabátnum. Hann sagði, að ef ætlaðar væru til hans 45 þús., þá væri þetta aðallega kostnaðaratriði. Nú er varið árlega 30 þús. til ferða milli Reykjavíkur og Borgarness. Hjer er talað um 45 þús. í sama skyni til ferða, sem fjórar sýslur njóta góðs af, og getur ekki virst sanngjarnt að neita þeim um þann styrk, eftir samanburð við styrkinn til Borgarnesferðanna. Hjer er vitanlega um beinan kostnað að ræða — og óbeint gagn, sem vafalaust verður eins þungt á metunum.

Þá kvartaði hv. Þm. V.-Sk. (JK) yfir því, að við flm. hefðum gleymt Skaftfellingum. þetta er þó ekki alls kostar rjett. Hjer var hvorki óvilja eða gleymsku til að dreifa, heldur hinu, að við álitum, að í bili nægði „Skaftfellingur“ á þessum slóðum og sá styrkur, er hann nýtur úr landssjóði til ferðanna. Hitt skal jeg játa, að jeg skal verða síðastur manna til að leggja stein í götu hv. Þm. V.-Sk. (JK), ef hann reynir að bæta samgöngurnar austur þar. En hjer stendur einnig nokkuð sjerstaklega á. Það mun vera í aðsigi, að Eimskipafjelag Íslands leggi upp vörur á vorin þar eystra, án þess að láta menn gjalda hafnleysisins í farmgjaldi, og er það þýðingarmikil umbót. Annars minnir mig, að hv. þm. V.-Sk. hafi einhvern tíma látið þá skoðun í ljós, að hann teldi Skaftfellingum hag að einangruninni og að hún hlífði heimilisfriði og siðferði við veraldarágangi. Er hann því að líkindum móti auknum samgöngum við kjördæmi sitt.