29.04.1925
Efri deild: 63. fundur, 37. löggjafarþing.
Sjá dálk 863 í B-deild Alþingistíðinda. (3456)

1. mál, fjárlög 1926

Sigurður Eggerz:

Jeg skal fyrst leyfa mjer fyrir hönd mentmn. að minnast á brtt. á þskj. 408. Hæstv. atvrh. hefir að vísu minst nokkuð á hana, og get jeg þess vegna verið stuttorður. Vil jeg byrja ræðu mína með því að þakka honum, með hve miklum velvilja í alla staði og skilningi hann hefir talað um þessa till. Mun mjer óhætt að bera það þakklæti fram í nafni allrar mentmn. Eins og kunnugt er, kom snemma á þinginu fram frv. um það að stofna húsmæðraskóla á Staðarfelli, og var því vísað til mentmn., en hún sá sjer ekki fært að mæla með því. En síðar barst nefndinni brjef frá ungfrú Sigurborgu Kristjánsdóttur, þar sem hún býðst til að reka húsmæðraskóla sem einkafyrirtæki á Staðarfelli. Setti hún vitanlega ýms skilyrði. Get jeg tekið það fram, að nefndin átti um þetta marga fundi og talaði við ungfrúna, og niðurstaðan af þessum fundum eru till. þær, sem hjer eru fram komnar, og er þar mikið dregið úr kröfum þeim, sem ungfrú Sigurborg Kristjánsdóttir gerði í fyrstu.

Fyrsti liður brtt. er, eins og hæstv. atvrh. (MG) mintist á, aðeins um breyting og aðgerð á Staðarfellshúsinu. Þar sem hjer er um ríkiseign að ræða, er ætlandi, að ekki gangi erfiðlega að fá þessar 1800 kr. til þess.

Um till. um að setja eldavjel í húsið, sem um leið geti hitað upp miðstöð, þarf fátt að segja. Það er nauðsynlegt, ef þarna á að vera húsmæðraskóli, að þar sje góð eldavjel, og heppilegast, allra hluta vegna, að miðstöð sje í húsinu.

Aðalatriðið og það, sem hefir í för með sjer mest útgjöld fyrir ríkissjóð, er e-liðurinn, eða 3000 kr. til skólahaldsins. En nefndin verður að líta svo á, að með því fyrirkomulagi, sem hjer er hugsað, verði komið á fót húsmæðraskóla með mjög ódýrum kjörum fyrir landið, og þess vegna þykir henni fært að leggja til, að þessi upphæð verði veitt. Hjer á landi eru engir húsmæðraskólar, nema hvað kent mun ýmislegt í kvennaskólanum, sem þar til heyrir. En þótt jeg viðurkenni, eins og jeg svo oft hefi gert í þessari hv. þd., að sá skóli sje í alla staði fyrirmyndarskóli, þá er brýn þörf á húsmæðraskóla eins og þeim, er hjer ræðir um. (GÓ: þm. gleymdi Blönduósskólanum). Jeg veit ekki, hvort slík fræði eru kend við Blönduósskólann. Og jeg vona, að hv. þm. (GÓ) minnist þess, að jeg hefi altaf farið hlýjum orðum um þann skóla. En hann bætir ekki úr þeirri þörf, er hjer um ræðir.

Eitt af því, sem ungfrú Sigurborg Kristjánsdóttir setti að skilyrði fyrir að reka húsmæðraskólann á Staðarfelli, var það, að hún þyrfti, eins og sjálfsagt er, að hafa ráð á því að kaupa áhöfn á skólajörðina. Gerði hún ráð fyrir, að áhöfnin myndi kosta 25000 kr. Nú er farið fram á það í brtt., að ríkissjóður ábyrgist alt að 15000 kr. í þessu skyni. Hinar 10000 kr., sem á vantar, komu alveg á óvæntan hátt, sem sje þann, að Magnús Friðriksson og kona hans, sem áður hafa gefið Staðarfell, bættu nú enn við þessum 10000 kr. til skólahaldsins. Hæstv. atvrh. (MG) kom annars svo mikið inn á þetta, að ekki er ástæða fyrir mig að dvelja ítarlega við þessi atriði. Jeg vil aðeins taka það fram, að það kom til tals, hvort ekki væri hægt að nota gjöf frú Herdísar Benediktsen í þarfir þessa skóla; en eftir mjög skýrri og ótvíræðri yfirlýsingu hæstv. forsrh. (JM) getur það alls ekki komið til mála.

Ungfrú Sigurborg Kristjánsdóttir, sem boðist hefir til þess að koma þessu einkafyrirtæki á stað, hefir numið hjer við kvennaskólann í Reykjavík. Svo var hún á skóla í Sorö nokkur ár, og hefir þaðan mjög góð meðmæli; er hún talin mjög duglegur kvenmaður.

Jeg gat þess í byrjun, að jeg þakkaði hæstv. atvrh. (MG) í nafni mentmn. fyrir það, hve vel hann hefði tekið í þetta mál. En mjer finst og rík ástæða til að minnast hjer á Magnús Friðriksson á Staðarfelli og húsfreyju hans. Það er kunnugt hjer á Alþingi, að Magnús Friðriksson og kona hans hafa gefið landssjóði þessa ágætu eign, Staðarfellið, og þess vegna er nú hægt að koma þessum skóla á fót. Nefndin hefir gefið hæstv. stjórn þá bendingu, að hún teldi heppilegast, að jörðin væri ekki leigð lengur en til 10 ára til að byrja með, en auðvitað verður hæstv. stjórn að ráða þessu og gera það, er hún telur heppilegast. Sem sagt, Magnús Friðriksson og kona hans hafa gefið landinu þessa ágætu gjöf, Staðarfell. Ástæðurnar til gjafarinnar munu vera fleiri en ein, en jeg vil minna á aðaltilefnið. Þau hjónin Magnús Friðriksson og kona hans mistu tvo efnilega syni sína. Hugsun þeirra hafði verið sú, að þessir synir hjeldu áfram hinum mikla rausnarbúskap á Staðarfelli. En þeir druknuðu báðir á ákaflega sviplegan og sorglegan hátt. Aðaltilefnið til þess, að landinn var gefin þessi ágæta gjöf, mun því hafa verið heit ósk þeirra hjóna um að halda uppi minningu þessara sona sinna. En ennfremur mun það hafa vakað fyrir þeim hjónum, að þau vildu gjarnan, að jörðin, þar sem þau höfðu svo lengi alið aldur sinn og lagt mikla vinnu í að rækta og prýða, yrði meira ræktuð og haldið áfram að gera hana sem besta. Annað tilefni gjafarinnar mun því hafa verið ræktarsemi við jörðina sjálfa. Í þriðja lagi mun tilefni gjafarinnar hafa verið hinn mikli áhugi þessa ágæta manns og góðu konu á þessu nauðsynlega skólafyrirtæki. En sem sagt sjest það skýrt, hve mikil alvara þeim hjónum er um það mál, þar sem þau nú, til þess að flýta því, hafa enn bætt 10000 kr. við hina miklu gjöf sína. Þetta er óvenjuleg rausn og það er vert þess, að þessa stóra og mikla höfðingskapar sje getið hjer á hinu háa Alþingi og gjöfurunum þakkað. Jeg hefi sjálfur komið að Staðarfelli, sjeð fegurð jarðarinnar og hve stórkostlega vel hún er hýst, því ekki er þar aðeins hið myndarlegasta og vandaðasta íbúðarhús, heldur og ágætis útihús öll. Jeg get tekið það fram, að brúttótekjur af hlunnindum jarðarinnar voru á þessu ári á fjórða þúsund króna, og í meðalári gefur túnið af sjer um 400 hesta af töðu. Sýnir þetta, hve stórfeld gjöfin er og mikilsverð. Þá má og benda á, að Magnús Friðriksson kom með tvær hendur tómar að Staðarfelli, en hann eignaðist ekki aðeins jörðina og gat hýst hana svona myndarlega, heldur er hann utan þessa mjög efnaður maður, á um 50–60 þús. kr. Sýnir þetta, hve miklir möguleikar felast í jörðinni fyrir þann, sem kann að færa sjer þá í nyt.

Um leið og jeg því mæli með, að þessar till. mentmn. verði samþyktar, vil jeg að minsta kosti í mínu nafni leyfa mjer að þakka Magnúsi Friðrikssyni og konu hans fyrir þá höfðinglegu gjöf, sem þau hafa gefið landinu. Það er gott að vita af slíkum mönnum, sem hafa svo brennandi áhugi á ýmsum málum, sem eru alþjóð í hag.

Jeg skal svo ekki fara fleiri orðum um þetta, en snúa mjer að minni eigin till. á þskj. 408, sem fer í þá átt, að hæstv. stjórn er heimilað að greiða úr ríkissjóði hæfilega leigu fyrir herbergi það, sem Steinunn Sigurðardóttir hefir nú í Landsbankahúsinu. Ástæðurnar fyrir till. eru þessar: Frú Steinunn Sigurðardóttir er ekkja Magnúsar heitins Vigfússonar, sem yfir 20 ár var dyravörður í stjórnarráðinu. Var hann þektur að góðu einu og reyndist hinn duglegasti í starfi sínu. Er hann dó, hjelt ekkjan starfinu um 1–2 ár, en af því að karlmaður verður að gegna þessari dyravarðarstöðu, varð hún að láta það laust.

Meðan hún var í stjórnarráðinu hafði hún frían hita og ljós og ágæta íbúð. Nú stóð svo á, þegar hún varð að fara, að þá var tilætlunin, að landið tæki tvær efri hæðir Landsbankahússins og að ýmsir embættismenn hefðu skrifstofur sínar þar. Til þessa ætlaðist fyrv. stjórn, og jeg má segja þingið. Þess vegna hjet fyrverandi stjórn frú Steinunni Sigurðardóttur, að hún mætti fá eitt kvistherbergi í Landsbankahúsinu. Tilætlunin var ennfremur sú, að hún fengi vinnu við að gera hrein skrifstofuherbergi hinna ýmsu embættismanna, og hefði þannig nokkurn styrk í ellinni. Hæstv. núv. stjórn hefir ekki fundið ástæðu til að nota húsið á þennan hátt; því er ástandið það, að frú Steinunn situr nú í kvistherbergi sínu með mikil vonbrigði. Hefir nú Landsbankinn krafið hana um húsaleigu. Vildi jeg ógjarnan, að hún þyrfti að greiða hana eða flæmast burtu, þrátt fyrir gefin loforð, og þar sem hjer er aðeins um smáupphæð að ræða, vænti jeg þess, að hv. þd. sje fús til að samþykkja hana.

Þá vildi jeg leyfa mjer að minnast á örfáar brtt. aðrar, en jeg skal fara ákaflega fljótt yfir sögu.

Það er þá fyrst 16. brtt., frá hv. fjvn., við 13. gr., um þráðlausu stöðina í Reykjavík. Þar stendur: „Aftan við athugasemdina bætist: Ennfremur er henni falið að gera samning um skeytasamband við umheiminn frá þeim tíma, er einkaleyfi Mikla norræna ritsímafjelagsins er á enda.“ — Mjer skildist á hv. frsm. (JóhJóh), að það væri meira af kurteisis hálfu, að hæstv. stjórn bæði Alþingi um þessa heimild en að það væri nauðsynlegt. Jeg lít svo á, að hjer sje í rauninni um stórmál að ræða. Jeg veit að vísu ekki, hvernig málið horfir nú við, en jeg teldi æskilegt, ef hæstv. stjórn sæi sjer fært að skýra þinginu frá, hvernig það stendur. Má vera, að hún geti það ekki nema á lokuðum fundi, og er sjálfsagt að gera það þá þar, því að jeg geri ráð fyrir, að málið sje svo stórt og þýðingarmikið, að rjett sje að leita samþykkis þings á samningunum eftir á.

Það var aðeins þessi litla athugasemd, sem jeg vildi skjóta til hæstv. stjórnar.

Jeg vil mæla sem best og mest með 19. brtt., við 14. gr., um útgáfu á kenslubókum handa mentaskólanum, 2000 kr. Jeg tek alveg undir það með hv. frsm. (JóhJóh), að það er hrein og bein minkun, að við skulum ekki vera komnir lengra á þessu sviði en að hinar og þessar námsgreinar eru enn kendar á dönskum bókum, svo sem saga, náttúrufræði o. fl. Jeg vona því, að þessi till. hv. fjvn. verði samþykt með öllum atkv.

Þá er hjer till. um að fella niður styrk til nokkurra skálda og listamanna. Jeg vildi í sambandi við þá till. leyfa mjer að skjóta því til hæstv. stjórnar, hvort hún sæi sjer ekki fært að koma með till. í þá átt, að styrknum til skálda og listamanna sje úthlutað eftir till. sjerstakrar nefndar. Jeg skal geta þess, að fyrir nokkrum árum gat jeg komið þeirri till. inn í fjárlögin, að sjerstök nefnd gerði till. um þennan styrk. Jeg man, að þáv. ráðherra hjelt, að þetta væri gert til þess að amast við honum. En það var ekki meiningin. Og þegar jeg tók við stjórninni síðast, þá lagði jeg fast að þinginu að halda þessari nefnd áfram. En till. var samt feld, þrátt fyrir mótmæli mín. Jeg held, að þetta hafi verið ákaflega skakt að farið, og það af mörgum ástæðum. Fyrst og fremst á stjórnin erfitt með að úthluta þessu, af því að hana skortir sjerþekkingu þá, er til þarf, að jeg nú ekki nefni alla þá óánægju, sem hún verður fyrir út af úthlutuninni. Jeg man t. d. eftir einum manni. Þegar hann fjekk ekki styrkinn, sendi hann mjer afskaplega hatramlegt brjef og kvaðst mundu ofsækja mig alt mitt líf. Auðvitað verða stjórnirnar að sætta sig við margar hnútur, en það er óþarft, að þær láti þessar lenda á sjer alveg að raunalausu. Þess vegna vil jeg skjóta því til hæstv. forsrh. (JM), hvort hann vill ekki koma með till. um nefndarskipun í þessu máli, því að jeg geri ráð fyrir, að hann hafi fundið til þess eins og jeg, hve þessi úthlutun er ákaflega erfið.

Þá langar mig til að minnast á 49. brtt., við 16. gr., sem fer í þá átt, að styrkurinn til Lúðvíks Jónssonar falli niður. Þessi Lúðvík Jónsson hefir búið til nýtísku jarðyrkjuverkfæri, og samkvæmt vottorðum frá Búnaðarsambandi Austurlands og merkismanninum Birni Hallssyni lítur út fyrir, að menn eystra hafi mikla trú á þessum verkfærum. Mjer skilst, að einn aðalkosturinn við þessi áhöld sje sá, hve mikla vinnu þau spari, en eins og kunnugt er, þá er búskapnum nú það mest til meins, hversu allur vinnukraftur er ákaflega dýr. Þess vegna finst mjer, að menn eigi að líta með velvild til þeirra, sem búa til verkfæri, er gera mönnum fært að spara hann. Og þar sem menn með sjerþekkingu, svo sem formaður Búnaðarsambands Austurlands, hafa mælt með þessari styrkbeiðni, þá vil jeg segja, að jeg kýs að mæla eindregið með því, að styrkurinn verði ekki feldur niður.

Jeg tel varhugavert að draga úr viðleitni þessa manns til þess að gera endurbætur á þessu sviði. Maðurinn mun vera fátækur, hefir varið fje því, sem hann hefir komist yfir, til tilrauna. Jeg geng út frá því, að þeir, sem unna landbúnaði, taki hjer í líkan streng.

Þá er 57. brtt., við 19. gr., um að heimila stjórninni að greiða Sveini Björnssyni, fyrv. sendiherra, 10 þús. kr. upp í tjón, er hann hefir beðið af húsakaupum í Kaupmannahöfn vegna embættis síns. Jeg stend ekki upp til þess að mótmæla þessari tillögu, heldur til þess að taka fram, að mjer finst hv. nefnd lítið tillit taka til tjóns þess, sem Sveinn Björnsson hefir orðið fyrir vegna embættis síns. Hann mun hafa tapað á húsakaupunum einum um 30 þúsund krónum, og væri það að vísu ekki mjög tilfinnanlegt, ef ekki væri um annað tap að ræða. En laun hans voru svo lág, að hann varð að leggja fram frá sjálfum sjer stórfje árlega. Starfið rækti hann prýðilega, og er öllum kunnugt, hve vel hann vann í þarfir landsins. Nægir að benda á samninginn við Norðmenn um kjöttollsmálið. Má mest þakka Sveini Björnssyni þau málalok, sem þar urðu. Jeg mælist til þess, að stjórnin hækki þessa upphæð. Þó greiddar væru 10 þús. kr.. væri það lítið upp í öll þau smánarlegu töp, sem maðurinn hefir orðið fyrir í þjónustu landsins.

Þá vil jeg minnast á brtt. VI. á þskj. 400. um að veita Listvinafjelaginu styrk til þess að kaupa „Móðurást“ Nínu Sæmundsson. Jeg var beðinn að bera fram till. um þetta, en færðist undan, ekki af því, að jeg vildi ekki styrkja málið, en jeg áleit heppilegra, að einhver úr stærri flokkum þingsins bæri það fram. Jeg tel alveg sjálfsagt að veita þetta fje. Nína Sæmundsson er fátæk stúlka, ættuð úr Fljótshlíð. Af eigin ramleik fer hún til útlanda og brýtur sjer braut, skapar þetta listaverk og kemur því á sýningu, sem ákaflega mikils virði þykir fyrir listamenn að fá aðgang að. Og listaverkið er ekki einungis tekið á sýninguna, heldur láta þessir 100 dómendur, sem velja eiga, svo um mælt, að höfundur þessa listaverks geti framvegis látið gripi á sýninguna eftir vild, án þess að spyrja þá leyfis. Saga þessarar fátæku stúlku úr Fljótshlíðinni er hreint og beint æfintýri. Jeg hefi minst á þessa stúlku í Norræna fjelaginu. Markmið þess fjelagsskapar er að koma á nánara sambandi milli Norðurlanda, bæði á andlega sviðinu og í verklegum efnum. Þetta fjelag hjer er enn í bernsku. Alþingi hefir eitt sinn veitt því lítilsháttar styrk, og þannig viðurkent starfsemi þess. Starf fjelagsins verður vitanlega einkum á andlega sviðinu, en við eigum þar erfiða aðstöðu, þar sem skáld okkar rita á tungu, sem fáir skilja. Það þarf ekki lítinn gáfnaþrótt til þess að kynda andlega elda svo sjáist frá landi til lands. Okkur nægja ekki neinir smáeldar. Nú hefir fátæka stúlkan okkar úr Fljótshlíðinni skapað listaverk, sem fengið hefir stórfelda viðurkenningu í Frakklandi. Hún hefir þannig gert þjóð sinni mikinn sóma. Jeg álít stórhapp fyrir okkur að eiga kost á að fá þetta listaverk heim. Síðar verður það vafalaust margfalt meira virði, svo að hjer er um beinan fjárhagslegan gróða að ræða. Það er enginn vafi á, að við miklu má búast af þessari stúlku, sem þegar hefir hlotið frægð. Jeg geng út frá því sem sjálfsögðu, að þessi tillaga verði samþykt. Jeg vona, að hún verði samþykt með öllum atkvæðum, til viðurkenningar stúlkunni, sem gert hefir Íslandi svona mikinn heiður.

Það er kannske hjáleitt að minnast á Vestmannaeyjavatnið í sömu andránni og talað er um listina, en jeg tel sjálfsagt, að þessi styrkur til þess að rannsaka vatnsveitu verði veittur Vestmannaeyingum.