24.03.1925
Neðri deild: 41. fundur, 37. löggjafarþing.
Sjá dálk 222 í B-deild Alþingistíðinda. (36)

1. mál, fjárlög 1926

Magnús Torfason:

Jeg var dálítið hissa á því, að hæstv. forsrh. (JM) talaði um, að jeg væri með sífeldar getsakir í sinn garð og hefði japlað á þeim nú um tíma. Mjer hefir aldrei hrotið nokkurt stygðaryrði til hans fyr en á þessu þingi, svo að jeg get ekki sjeð, að þessi ummæli hæstv. forsrh. (JM) sjeu sannleikanum samkvæm. Út af ræðu minni, sem hann hjelt fram, að jeg hefði breytt, skal jeg geta þess, að jeg herti aðeins á henni á stöku stað, þar sem mjer fanst að skrifararnir hefðu mist af krafti hennar.

Þá sagðist hæstv. forsrh. (JM) ekki skilja það, hvað jeg ætti við með „móðgun upp á við“. Það skal jeg strax segja honum. Það vita það nefnilega fleiri en jeg, að sjálfur konungurinn varð eitt sinn að setja ofan í við hann fyrir guðlast. Þetta er það, sem jeg kalla að kunna ekki að „haga sjer upp á við“.

Þá hafði hæstv. forsrh. (JM) það eftir mjer, að forsjónin myndi hefna fyrir það, sem mjer væri á móti gert. Jeg sagði, að hún hefði þegar gert það. í því sambandi mintist hæstv. forsrh. á veitingu lögreglustjóraembættisins hjer. Já, sú veiting hefir engum orðið til sóma nje ánægju, og síst honum. Jeg held, að hefndin hafi komið þar fram.

Í sambandi við þessa embættisveitingu upplýsti hæstv. forsrh., (JM), að farið hefðu fram áheit hjer í Reykjavík um, að jeg fengi ekki embættið. Jeg skal ekki rengja þetta. En hverjir voru það, sem áheitin gerðu? (Forsrh. JM: Betri menn). Já, jeg get vel trúað, að þeir hafi verið það fyrir augliti hæstv. forsrh. En jeg tel mjer ekki til háðungar, þótt þessir „betri menn“ yrðu sterkari í þeirri togstreitu. Þeir voru svo miklu fleiri, sem toguðu að neðan.

Hæstv. forsrh. sagðist ekki muna til, að hann hefði nokkurn tíma gert mjer órjett. Jeg hefi ekki haft orð á því og ætla ekki að gera. Það hafa aðrir gert fyrir mína hönd.