26.03.1925
Neðri deild: 43. fundur, 37. löggjafarþing.
Sjá dálk 225 í B-deild Alþingistíðinda. (41)

1. mál, fjárlög 1926

Frsm. (Þórarinn Jónsson); Undirbúningur fjárlagafrumvarpsins nú og á síðasta þingi er ólíkur. Í fyrra þurfti fjvn. að hækka lögbundna gjaldaliði um 310000 krónur, nú hækkar hún þá um 2000 kr. Þessi verkaljettir hefir verið ærinn. Og þess utan má segja um gjaldahliðina, að hún hefir verið rjettur spegill af því, sem stjórnin vill leggja til. En þó þessu sje þannig varið, þá er þó þessi gjaldahlið fjárlagafrumvarpsins það umþráttaða í nefndinni á hverju þingi. Umþráttuð á þann hátt, hversu mikið megi hækka hana. Viðleitni nefndarinnar verður því ávalt sú, að færa þennan ramma út, eftir því sem hún telur fjárhag ríkisins þola. Skoðanir á þessu hafa ætíð verið misjafnar, og voru það enn. Sumir vilja treysta á þann undramátt teknanna, að jafnanmegi eiga víst, að þœr jafni sakirnar, þótt óvarlega sje farið, enda sje aldrei hægt að binda sig við það, að afgreiða, eða ætlast til, að fjárlög verði afgreidd tekjuhallalaus. Það er nokkuð í þessari skoðun, þegar hún er athuguð í því ljósi, sem reynslan hefir varpað á hana. Það má segja, að góður ásetningur ýmsra hv. þm. fari þar út um þúfur. Þeim fer líkt og þeim manni, sem færi í stríð með þeim ásetningi að úthella ekki blóði nokkurs manns. En þegar í bardagann er komið, verður það fyrsta verkið að drepa mann. Aðstaðan er þannig:

Annarsvegar er framkvæmdaþörf hvers kjördæmis á ýmsum sviðum, meira og minna aðkallandi, hinsvegar er sjálfstæðisþörf þjóðarheildarinnar.

Þó að menn trúi ekki á kraftaverk, þá mildar þó vonin um góða afkomu ríkissjóðs æfinlega þá, stundum hörðu, viðleitni þingmanna að ná sem mestu til sinna kjördæma, og er þetta síst að undra, því að venjulega stendur kjörfylgi í nokkuð rjettu hlutfalli við árangurinn, og það ekki síður hjá þeim kjördœmum, sem jafnframt fjárkröfum leggja ríkasta áherslu á sparnað á ríkisfje.

Þegar þjóðarheildin þolir það, að uppfyltar sjeu framfaraóskir og þarfir landshlutanna og hjeraðanna, þá er þjóðarhagurinn í góðu lagi. Þá er þjóðin á virkilegri framfarabraut. En verði þetta til þess, að skattarnir íþyngi gjaldþoli einstaklinganna, skuldirnar vaxi þeim yfir höfuð, svo þeir vanmegnist undir greiðslunni, þá er ekki verið á rjettri leið.

Þjóðin hefir orðið fyrir árekstri; sjálfstæði heildarinnar stórhnignaði út á við og peningar hennar fjellu mjög í verði. Þingið tók í taumana í fyrra á þá leið, að teppa allar framkvœmdir, draga þannig úr útgjöldunum og höggva þar sem hægt var af annarsstaðar; en það var ekki nóg, heldur þurfti að beita þeim hörkutökum samhliða, að hœkka skattana að mun. Þetta mátti heita að treysta á síðustu þolrif þjóðarinnar eftir alla dýrtíðina. En hún samþykti þetta, viðurkendi rjettmæti þessarar stefnu og kvartaði ekki. En meðan þjóðin þolir þessa ofþyngingu í sköttum, á hún líka fullkomna kröfu á því, að grynt sje á skuldunum og þannig losað fje til aukningar framkvæmdum og afljettingar á sköttum. Hefir hæstv. fjrh. (JÞ) greinilega sýnt fram á það í hinni glöggu skýrslu, er hann gaf um fjárhag ríkissjóðs við 1. umr. þessa máls, að í árslok 1927 værum við búnir að losa 2 milj. kr. til aukningar atvinnuveganna, ef nú væri gengið að því að greiða lausu skuldirnar á þessum árum. Hvort er nú betra, að láta standa í stað athafnamöguleika ríkissjóðs um langt árabil, eða hrista af sjer nokkuð af hlekkjunum og taka svo djarfara á framkvæmdunum með þrótti og uppliti hins frjálsa manns? Úr þessu sker þingið.

Árið sem leið var veltiár, sjerstaklega fyrir annan aðalatvinnuveg landsins, sjávarútveginn. Hagur ríkissjóðs batnaði og hagur fjölmargra einstaklinga batnaði líka. Þetta er gott og blessað, og við skulum vona, að framhald verði á þessu eitthvað, enda þótt byrjun þessa yfirstandandi árs sje ekki nærri eins glæsileg. En þótt það yrði jafngott, —- er samt sem áður rjett að nota hvern eyri til ýmsra útgjalda, en grynna ekkert á skuldum ríkissjóðs? Sama svarið og áður. — Úr þessu sker þingið.

Alveg víst er það, að eftir góðærin koma erfið ár. Væri það ástand betra, að þurfa ef til vill aftur að teppa allar framkvæmdir, geta ekki meira en með erfiðleikum greitt vexti og afborganir af skuldasúpunni og vita sig hafa varið fjenu fremur ógætilega en gætilega?

Úr þessu sker þingið.

En eitt er víst, að þjóðin veitir því nána athygli, hvorri stefnunni fylgt verður. Og annað er víst, sem þjóðin veit vel, að skuldagreiðslan eykur peningagildið, og verður sá þáttur ómetanlegur.

Eins og vikið er að í nefndarálitinu er vont að gera upp á milli þess, hvað taka skal upp og hvað ekki, þegar fyrir liggur hátt á aðra miljón kr. í fjárbeiðnum, sem telja má, að fjöldinn af hafi nokkuð svipaða kröfu til þess að verða veitt jafnsnemma. En það er alger ómögulegleiki fyrir ríkissjóð að sinna þessu nú, nema með þeim takmörkunum, sem nefndin hefir sett til þess að fylgja þessari ákvörðun stjórnarinnar, sem nefndin telur rjetta.

En út af þessu er rjett að gera lítilsháttar grein fyrir því, hvort þetta megi verða, sökum þess að fyrir liggi óumflýjanlegar hækkanir á ýmsum greinum fjárlaganna, er ekki verði hjá komist, þá skal jeg líta yfir greinarnar í fyrri hlutanum og leitast við að sýna fram á, að svo er ekki fram til ársloka 1927.

Fyrsta greinin gjaldamegin, 7. gr., er um vexti og afborganir á skuldum ríkissjóðs. Eru þessi útgjöld nú um 2 milj. kr., eða nær fjórðungur af tekjum ríkissjóðs. Ef lausu skuldirnar yrðu gerðar að samningsbundnum skuldum, eða lán tekið til að borga þær með, eins og sumir vilja, þá hækkar þessi grein um úr milj., og þrengir þannig athafnafrelsi ríkissjóðs með sömu tekjum og nú eru til allra framkvæmda. Eru afleiðingar af þessu auðsæjar. 8. gr. kemur hjer ekki til athugunar. Og í 9. gr. er ekki nema kostnaður við þinghaldið, sem hækkað getur að nokkrum mun þessa grein. Jeg skal játa, að útlitið í þá átt er ískyggilegt eftir störfum þessa þings. Og jeg fullyrði það, að á þeim þingum, sem jeg hefi átt sæti hafa þingstörfin aldrei gengið ver. Virðist eins og skeytingarleysi og ábyrgðarleysi fyrir þessu starfi fari í vöxt. Ekki mun þó þurfa að reikna með því, að fyrir þær sakir verði þessi leið ófær.

Kostnaðurinn við ríkisstjórnina, sem 10. gr. fjallar um, er engin ástæða til að aukist, nema laun til sendiherra verði sett þar inn, sem frestað var á síðasta þingi. Liggur nú fyrir breytingartillaga frá hv. minni hl. fjvn. þar um. En ekki virðist, að þær ástæður hafi fram komið frá síðasta þingi, er geri þetta nauðsynlegt að sinni. Má því búast við þessari grein svipaðri árið 1927,

Á 11. gr. er eftir tillögum nefndarinnar gerð mikil hækkun, þar sem er útgerðarkostnaður landhelgisgæsluskips. Eykst þessi kostnaður að sjálfsögðu árið 1927, en þó naumast svo, að það geri ókleifa þá fyrirætlun að borga lausu skuldirnar á þessum ákveðna tíma.

En það er 12. gr., eða heilbrigðismálin, sem er ásteytingarsteinninn í þessu efni. Það er líka mikið ógert á þessu sviði.

Í 8 læknishjeruðum eru óreistir læknisbústaðir og sjúkraskýli. Og það er það, sem er mest aðkallandi, því að erfiðleikarnir eru þar mestir, þar sem vegna þessa fást ekki læknar í mörg hjeruðin. Þetta kostar ríkissjóð á annað hundrað þús. kr., en það á að vera vel mögulegt að framkvæma þetta á árunum 1927–29, jafnvel þó að á stærri fyrirtækjum yrði byrjað jafnframt eftir 1927, svo sem eins og landsspítala og heilsuhæli norðanlands.

Það er fjarri nefndinni að telja ónauðsynlegar fjárveitingar til þessara fyrirtækja, þegar ríkissjóður er þess megnugur; en að þessu sinni telur hún óhjákvæmilegt að fresta þessu.

Það eru orðin alkunn ummæli, þegar um heilbrigðismál er að ræða, að engin takmörk megi vera í fjárveitingum til þess að vernda mannslífin. Það er mikið í þessu. En þjóðin á þó einn dýrgrip, sem ekki er vert að missa sjónar af, þótt um þetta sje að ræða, og það er efnalegt sjálfstæði. Það er hægt að hugsa sjer það, þó áð jeg vilji ekki gera það að minni spá, að þjóðareignimar komist undir yfirráð erlendra fjárheimtumanna. Álit þjóðarinnar er þá komið í rústir og mannslífin falla niður í spottprís. Ríkissjóður annar því ekki að reisa berklahæli handa öllum berklasjúklingum landins, og það er líka óhugsandi, að þau nái þeim tilgangi, sem formælendur þeirra halda fram. Það mun vera á þessu sviði eins og annarsstaðar, að viðleitnin þarf að beinast að því að grafa fyrir rætur meinsins. Mundu bætt húsakynni í sveitum landsins verða þar styrkastur þáttur. Verð jeg því að telja það mesta menningar- og heilbrigðismál þjóðarinnar að byggja upp býlin í landinu. Og hefir nú þingið það stórmál með höndum, sem er stofnun ræktunarsjóðsins. Til þess má ekki spara.

Í 13. gr. eru það símamálin og vitamálin, sem krefjast aukins framlags. Er það sjerstaklega viðgerð og aukning loftskeytastöðvarinnar í sambandi við væntanlega samninga við Stóra norræna ritsímafjelagið. Aukning hennar má búast við, að kosti allmikið fje.

Hvað vegamálin snertir, þá hefir jafnan þótt mest um vert að fella niður allan styrk til þeirra, er í öngþveiti hefir verið komið með fjárhag ríkisins. Verður því þó ekki neitað, að samgöngurnar eru og verða jafnan lífæð þjóðarinnar. En nú hefir nefndin leitað upplýsinga vegamálastjóra, og hefir hann gefið þær upplýsingar, eins og skýrsla hans ber með sjer, að með því þó að leggja ekki meira fje áfram til þessara mála en sem svarar því, er nefndin gerir till. um, þá yrðu allar stórár brúaðar 1930, 2. flokks nýbyggingar þjóðvega fullgerðar 1936, en 3. flokks 1940, svo að þá yrði kominn akvegur alla leið frá Borgarnesi til Húsavíkur. — Auðvitað er, að taka verður mikið tillit líka til vitamálanna. En jeg hygg, að þessi stefna þurfi ekki að vera þeim til fyrirstöðu.

Jeg vil nú ekki orðlengja þetta frekar, en sný mjer að brtt. nefndarinnar og vona, að jeg þurfi heldur ekki að verða langorður um þær.

Það er þá fyrst tekjuhliðin, sem jeg tek til athugunar. Nefndin leggur til, að sú hliðin hækki um 930000 kr. Þetta er mikil hækkun, en tekjuáætlun hæstv. stjórnar virðist líka vera óvenjulega gætileg. Hefir hæstv. fjrh. (JÞ) skilið rjett, hvernig þingið myndi taka því, og búist við, að áætlunin yrði fremur hækkuð heldur en hitt.

Jeg vil þá minnast á einstakar hækkanir.

Eru þá fyrst aukatekjur ríkissjóðs, sem eru áætlaðar 300000 kr., í stað 280000, sem gert er ráð fyrir í frv. Er sú upphæð svipuð og hún reyndist 1923, en 1924 var hún 400000 kr.

Vitagjöld hækkar nefndin um 40000 kr., eða upp í 250000 kr., sem er svipað því, sem var 1923, en 67000 kr. lægra en þau voru 1924. Er tala nefndarinnar fyrir neðan meðallag tekna af þessum stofni. Virðist því eigi óvarlega farið af nefndinni.

Útflutningsgjaldið hækkar nefndin um 100000 kr., úr 700000 kr. upp í 800000 kr. En þetta gjald var 1924 960000 kr. Það má nú raunar segja, að óvarlegt sje að benda á árið 1924 í þessu sambandi, þar sem það var sjerstakt aflaár. En þó að minna kunni að aflast þetta ár en 1924, þá er þess þó að gæta, að togaraútvegur hefir aukist svo, að þetta ætti að geta jafnað sig upp.

Áfengistollinn hefir nefndin hækkað um 40000 kr., upp í 500000 kr. Hann nam árið 1924 605000 kr. og hefir farið stöðugt hækkandi. Getur þetta því ekki talist óvarlega áætlað. Tollurinn hefir síðan 1923 hækkað um meir en 100000 kr.

Tóbakstollinn hækkar nefndin um 20000 kr. Verður hann samt 70000 kr. lægri en hann var 1924, en svipaður og hann var árið 1923. Aðgætandi er þó, að tollurinn 1923 er ekki reiknaður með 25% gengishækkuninni.

Kaffi- og sykurtollinn leyfir nefndin sjer ennfremur að hœkka um 60000 kr. Er hann samt 100000 kr. lægri en hann varð árið 1924.

Vörutollinn hækkar nefndin sömuleiðis um 150000 kr., eða upp í 1350000 kr. Þessi tollur varð 1560000 kr. árið 1924.

Tekjur af tóbakseinkasölunni áætlar nefndin 275000 kr., eða 75000 kr. hærra en í frv. stjórnarinnar stendur. Þessi liður varð á árinu 1924 350000 kr. Nefndin fann ekki ástæðu til að taka tillit til þess, hvort einkasalan yrði lögð niður nú á þinginu eða ekki. Það, sem nefndin gat gert, var einungis það, að ganga út frá því, sem er. Hygg jeg ekki, að nefndin hafi áætlað þennan lið óvarlega. — Tekjurnar af víneinkasölunni áætlar nefndin sömuleiðis hærri en stjórnarfrv. gerir ráð fyrir, og er það af sömu ástæðum og með tóbakið, að tekjurnar af versluninni hafa reynst talsvert meiri á undanförnum árum en nefndin leggur til. Munar það 75000 kr. árið 1924.

Stærsta hækkunin er þó á verðtollinum. Í frv. er hann áætlaður 450000 kr., en nefndin leggur til að hækka hann um 350000 kr., eða upp í 800000 kr. Þessi tollur varð 830000 kr. árið 1924, og má því teljast varlega farið hjá nefndinni, ekki síst þegar þess er gætt, að verðtollurinn gilti ekki nema 2/3 hluta ársins, eða frá 1. apríl, og auk þess hefir verið losað um nokkrar vörutegundir, sem áður var bannaður innflutningur á. Því eru meiri líkindi til þess að tollurinn hækki heldur en hitt. Verður því varla annað sagt en að þessi brtt. nefndarinnar hafi við góð rök að styðjast.

Þá skal jeg fara nokkrum orðum um brtt. nefndarinnar viðvíkjandi útgjöldunum.

Er þá fyrst brtt. við 7. gr. frv., sem er nýr liður, um greiðslu afborgana á lausum skuldum, að upphæð 600000 kr. Er þetta gert með hliðsjón af því, að telja má víst, að samþykt verði að bygt verði eða keypt nýtt skip til landhelgisgæslu, og þar sem skuldin við landhelgissjóðinn verður að teljast ein af lausum skuldum ríkissjóðs, er ekki nema rjett að setja upphæð þessa í gjaldahliðina.

Næsta brtt. er við 10. gr., um 4000 kr. lækkun á ríkisráðskostnaði frá því sem hann er í frv. Virðist engin þörf á að hækka þennan lið frá því, sem hann hefir verið. En hann var 4000 kr. Enda lágu engin gögn fyrir nefndinni, er gáfu tilefni til þessarar hækkunar.

Næst er 13. brtt., við 11. gr. frv. Er þar lagt til, að tillagið til landhelgisgæslunnar sje hækkað frá því, sem gert er ráð fyrir í frv., úr 85000 kr. upp í 150000 kr. Jeg vil í þessu sambandi taka það fram, að væntanlegt varðskip kemur að líkindum hingað á miðju árinu 1926. Er gert ráð fyrir, að árlegur útgerðarkostnaður skipsins verði ca. 250 þús. kr. Þessar 65 þús. kr., sem liðurinn er hækkaður um, eru því hálfs árs útgerðarkostnaður frá hálfu ríkissjóðs, gegn jafnmiklu framlagi frá landhelgissjóði.

Næsta brtt., við 12. gr. frv., fer fram á 500 kr. lækkun á skrifstofukostnaði landlæknis. Er það þá fært í sama horf og var nú síðast í fjárlögum. Þess skal getið, að nefndin var ekki öll sammála um þessar brtt., þó að jeg vilji ekki fara frekar út í það nú.

Þá er brtt. ennþá við 12. gr., um að hækka styrkinn til læknisvitjana úr 3000 kr. og upp í 6000 kr. Hefir hann undanfarið verið talsvert hœrri en hæstv. stjórn áœtlar, og er nefndinni því ekki ljóst, af hverju upphæðin er sett svona lág. í fjárlögum 1924 er styrkurinn 8200 kr. Nefndin gekk út frá því, að sömu styrkir yrðu veittir sem að undanförnu, en jafnframt var nefndinni ljóst, að úr myndi falla, samkv. till. nefndarinnar um styrk til læknisbústaða og sjúkraskýla, styrkur til Hróarstungu-, Jökuldals-, Hlíðar-, Hjaltastaðar- og Eiðahreppa, sem höfðu 1500 kr., auk 1500 kr., ef þeir rjeðu sjer sjerstakan lækni. Eftir verða þá af styrk þeim, sem nú er notaður, 5200 kr. En aftur hafa nú 3 hreppar í Norður-Ísafjarðarsýslu sótt um styrk til læknisvitjana, 300 kr. hver, og virðist engu síður ástæða til að styrkja þessa hreppa en þá aðra, sem þessa styrks njóta, og er í nál. gerð nánari grein fyrir þeim örðugleikum, sem menn þarna eiga við að búa með tilliti til samgangna. Ýmist verða menn að fara mjög erfiða fjallvegi til að vitja læknis síns, eða þá sjóleiðina, sem verður mjög dýr. Og stundum hvorttveggja, bæði erfiða landleið og dýra sjóleið. Ennfremur eru þessir hreppar símalausir, svo að þeir geta ekki greitt fyrir sjer á þann hátt. Er því ekki auðið að áætla þessu upphæð lægri, þegar þessar beiðnir eru teknar til greina.

Þá er enn brtt. við sömu grein, um að lœkka tillag til aðstoðarlæknis á Ísafirði úr 2000 kr. niður í 1500 kr. Er það með tilliti til þess, að ríkissjóði ber engin skylda til að launa lækni þennan. Annars er nefndin klofin um þennan lið, og skal jeg ekki fjölyrða um hann fyrir hönd meiri hl.

Þá hefir Gunnlaugur Claessen læknir farið fram á, að tillagið til geislalækningastofu ríkisins verði ekki áætlað minna en 11000 kr. eins og á fyrra ári. Telur hann að minna geti eigi nægt, því að ný áhöld þurfi að kaupa, ef stofan eigi að geta staðið jafnfætis erlendum samskonar stofnunum. Sá nefndin sjer því ekki annað fært en fara að óskum hans. Þá vil jeg geta þess, að læknirinn hefir í brjefi til nefndarinnar æskt þess, að stofan yrði eftirleiðis nefnd Röntgenstofan, en ekki geislalækningastofan, eins og verið hefir. Og beini jeg þessu til hæstv. stjórnar.

Næsta brtt. hljóðar um 1500 kr. ferðastyrk til Jóns læknis Kristjánssonar, og er það nýr liður. Svo er þetta til komið, að fyrir tveim árum var fje veitt til þess að kaupa gagnvermi (diathermi-apparat). Það var þó ekki fyrri en í sumar, að úr kaupunum varð, og mun mænusóttin, er hjer gekk, ekki síst hafa gefið tilefni til þess. Fór þá Jón læknir Kristjánsson utan til að annast um kaup á því og læra að fara með það, og gerði hann það eftir tilmælum háskólans. Nú telur læknirinn, að hann hafi orðið að kosta miklu til vegna þessarar ferðar, bæði vegna þess að hann hafi varið til hennar tveim mánuðum og orðið að borga lækni til að hafa störf sín á hendi á meðan, og auk þess verði hann að halda lærða nuddkonu í lækningastofu sinni fram yfir það, sem áður var, vegna þess að hann sje sjálfur upptekinn við áhald þetta, en hafi hinsvegar gengið inn á við landlækni að taka aðeins hálft gjald af sjúklingum fyrir lækningar þessar. Telur því nefndin sanngjarnt að veita honum þennan ferðastyrk, — en aðeins ferðastyrk, þar sem ætla má, að aukin aðsókn vegna áhalds þessa bæti honum upp annan skaða af þessu.

Þá kem jeg að 19. brtt., við 12. gr. 13. e. (sjúkraskýli og læknisbústaðir). Hefir stjórnin lagt til, að á þessum lið sjeu veittar 15000 kr., miðað við það, að á síðasta þingi var aðeins einu hjeraði veittur slíkur styrkur. En nú hafa enn komið fram samskonar beiðnir úr fleiri hjeruðum, sem ekki var sint í fyrra. Leggur nefndin því til, að liðurinn verði hækkaður um 9 þús. kr., sem nefndin ætlast til, að bygðir verði fyrir 2 læknisbústaðir og sjúkraskýli, að viðbættum 2/3 framlags frá viðkomandi hjeruðum. Voru umsóknirnar sendar landlækni, og telur hann þörfina fyrir slíkar byggingar brýnastar í Vík í Mýrdal og á Hjaltastað í Hróarstunguhjeraði. Teikningar að byggingunum hefir landlæknir fallist á, og eins telur hann, að undirbúningur í hjeruðum sje hinn besti. En hvað kostnaðinum við byggingarnár viðvíkur, þá telur nefndin hann munu vera fullhátt áætlaðan, þar sem alt mun vera miðað við að reisa slíkar byggingar í Reykjavík, en nefndinni hinsvegar kunnugt um — og gengur út frá því — að hægt sje að fá miklu ódýrari vinnukraft í sveitunum. Hún verður því að telja upphæð þá, er hún reiknar með, fullnægjandi, þegar enn þess er gætt, að byggingarefni hefir líka nokkuð fallið í verði.

Þess skal getið, að nokkrar fleiri umsóknir bárust nefndinni, en þær komu of seint. Býst jeg við, að þær sjeu líka sprottnar af brýnni þörf og að því væri æskilegt að fjárhagur ríkisins leyfði það, að hægt væri að taka þær til greina. Verður síðar rætt betur um þetta.

20. brtt. nefndarinnar, við sömu gr. frv., er um að veita Halldóri Arnórssyni 1500 kr. til að standast kostnað af umbúðasmíði sinni. Hann hefir starfað að þessu í 2 ár; telur hann sig hafa tapað hvort ár 3000 krónum, og sækir um 7000 kr. styrk. Nefndin getur vitanlega ekki lagt neinn dóm á þetta, en hún verður að taka trúanlegt ýmislegt það, sem tekið er fram í þessari umsókn, og það eru miklar líkur til þess, að það, sem hann heldur fram, sje rjett, þar sem hann hefir ekki nægilegt starf við þetta umbúðasmíði, en getur ekki trygt sjer neitt annað starf, vegna þess að hann verður að hlaupa að því, hvenær sem krafið verður. Þessi starfsemi getur því ekki borið kostnað hans á ýmsum dýrum áhöldum og húsplássi. Annars viðurkennir nefndin það, að þetta er mjög þarft verk og mun hafa dregið úr kostnaði margra sjúklinga, sem annars hefðu þurft að fara af landi burt til að fá sjer lækningu; hún leggur því til, að veittar verði 1500 kr., og býst við, að það verði árlegur styrkur. Það kann að vera, að nefndin hafi þarna verið heldur smátæk, en tíminn leiðir það í ljós, og þá er hægt að gera þetta ríflegra.

Næsta brtt. er um 1200 kr. styrk til Elínar Sigurðardóttur, eða 100 kr. á mánuði, sje hún ekki í sjúkrahúsi. Þessi umsækjandi hafði áður beðið um styrk af þinginu, en ekki fengið; hún hefir verið berklaveik í 20 ár og legið í sjúkrahúsum bæði utanlands og innan. Nefndin áleit, að það myndi vera spámaður fyrir ríkissjóð að leggja þessari konu þessa upphæð á mánuði, ef hún gæti komist hjá að liggja í sjúkrahúsi. Í raun og veru verður altaf um það deilt, ef hún þarf ekki að vera í sjúkrahúsi, hvort það er skylda ríkisins að sjá fyrir sjúklingnum, en nefndin leit svo á, að þar sem hún hefir barist svona lengi við sjúkdóm sinn, þá sje rjett að veita þetta, og með því að það eru einnig líkur til að það dragi dálítið úr gjöldum ríkissjóðs.

Þá eru ekki fleiri brtt. við 12. gr.

Við 13. gr. er fyrsta brtt. 20000 kr. til Vaðlaheiðarvegar. Nefndin hefir í áliti sínu skýrt það nokkuð, hvernig á þessu stendur; hún er með þessum till. sínum að nokkru leyti í andstöðu við vegamálastjóra, því að hann álítur, að til þessa vegar, sem verður dýr, ætti ekki að leggja nema talsvert stórar upphæðir í einu, þar sem það getur ekki orðið að notum, fyr en vegúrinn er kominn langa leið, en nefndin lítur svo á, að rjett sje að taka inn upphæð í fjárlög, vegna þess, að þá verði síður í undandrætti að veita til hans, og trygging fyrir því, að veginum verði haldið áfram. Hitt er nefndinni ljóst, að þessi vegur er illfær og nær ófær á sumum tímum árs, en þetta er fjölfarinn vegur, kaupstaðarvegur, sem getur engan veginn beðið lengi enn.

Þá hefir nefndin hækkað tillagið til viðhalds þjóðvega upp í 180000 kr. Þetta er eftir beiðni háttv. þm. Dala. (BJ), sem skýrði nefndinni frá því, að í hans kjördæmi væri svo ástatt, að þjóðvegurinn á einum stað endaði í forarflóa, og ekki hægt að nota þennan part, sem góður væri, en ef hann væri fullgerður, þá yrði ferðamannaleiðin miklu styttri en nú er, og þess vegna nauðsynlegt, að þetta verði gert. Nokkur hluti nefndarinnar býst við, að þetta yrði gert hvort sem væri, kannske næsta sumar, en meiri hluti nefndarinnar vildi verða við þessum tilmælum, og hækkar því liðinn, til þess að þetta yrði gert. Annars er jeg ókunnugur þarna, og get því ekki af neinum kunnugleik um þetta talað.

Næsta brtt. er um ferju á Hornafirði; það er lítil upphæð, 300 kr., tekur varla að tala um það langt mál, en þetta er beiðni frá 27 búendum í Borgarhafnarhreppi, og ástæðan til þess er sú, að þjóðvegurinn til Hornafjarðar verður oft ófær fyrir vatnavexti, en leiðin sunnan um sandana er altaf fær og þá farin, en þá vantar ferju til að geta komist yfir vötnin á söndunum, því að þar verður oft ófært við vatnavexti. Þarna er jeg einnig alveg ókunnugur, og get því ekki gefið frekari upplýsingar; vil því aðeins benda á, að þetta er sáralítil upphæð.

Næsta brtt. er tveir liðir, a. og b., til tveggja býla, Kleppustaða og Ytri-Kota, um 200 kr. í hvorn stað, til að halda uppi gistingu fyrir ferðamenn. Það eru áður í fjárlögunum upphæðir í svipuðum tilgangi. Nefndinni sýndist þetta sjálfsagt, og það lágu líka fyrir beiðnir um þetta frá hreppsnefnd og póstum, og er nefndin sammála um, að þetta sje nauðsynlegt, þar sem býli þessi liggja við fjölfarna og erfiða fjallvegi.

Þá er næsti liður:

„Landsstjórninni er heimilt, ef hún telur þörf á, að stækka og fullkomna svo loftskeytastöðina í Reykjavík, að hún geti annast skeytasamband við umheiminn“.

Er þetta lagt til sökum þess, að nú seint í ágúst næstk. er útrunninn samningstími við Stóra norræna ritsímafjelagið Og standa fyrir dyrum nýir samningar. Landssímastjóri hafði þegar á þinginu í fyrra farið fram á það við fjvn. að ætla eitthvað til loftskeytastöðvarinnar. Áleit hann nauðsynlegt, að þetta vœri komið í kring áður en samningar byrjuðu, til þess að þeir sæju, að við værum ekki varbúnir og sambandslausir við umheiminn, þótt það slitnaði upp úr samningum. Nefndin hefir, í samráði við stjórnina, ekki ákveðið neina upphæð, heldur gefur henni heimild til að verja til þess sem þarf. Það liggur í því, að ef ekki þyrfti til þess að taka, þá þyrfti ekki að veita nema lítið fje, en hinsvegar gera það rækilega, ef það hefði áhrif á þessa væntanlegu samninga.

Næsta till. er nýr liður, til þess að reisa nýja vita, 50000 kr. Stjórnin hefir ekki lagt til að veita neina upphæð í þessu skyni. Vitamálastjóri hefir í brjefi til nefndarinnar farið fram á, að það væri veitt mikið fje í þessu skyni, og sjerstaklega lagt áherslu á það, að vitagjald eigi að nota til að byggja vita fyrir. Það, sem hann sjerstaklega leggur áherslu á, er landtökuviti við Dyrhólaey. Þessi viti kostar upp undir 150000 kr. Nefndin lítur svo á, að þessi viti eigi að sitja fyrir, og hafa einnig lagt áherslu á það form. Fiskifjelagsins og skipstjórar á millilandaskipunum. Aftur hafa fjórir þingmenn skrifað nefndinni um að veita sjerstaklega 60000 kr. til að byggja nýja vita, sjerstaklega við Stafnes, Grundarfjörð og Vestmannaeyjar. Út af því, sem fram kom, leit nefndin svo á, að mest myndi nauðsyn á að byggja þennan landtökuvita sem fyrst, en aftur á móti sá hún sjer ekki fært að veita fje, svo að hann yrði fullger, en vonar, að hægt verði að byrja á þessari byggingu, en vill hins vegar, ef stjórninni og vitamálastjóra þætti ráðlegra að byrja á þessum smærri vitum, að hún gæti þá gert það og hefði óbundnar hendur.

Viðvíkjandi því, sem talsvert mikið hefir verið talað um, að það væru rjettmætar kröfur til ríkissjóðs að veita til þessara vitabygginga, vegna þess að tekjur hans væru svo miklar af vitunum, en notaðar til annars, þá útvegaði nefndin sjer skýrslu um þessar tekjur frá því að Reykjanesvitinn var bygður. Eftir þessari skýrslu, frá 1878 og til aldamóta, þá hafa vitagjöldin stöðugt verið nokkru hærri en kostnaðurinn, enda er það ekki svo undarlegt, því að fyrst var vitinn ekki nema einn, og um aldamótin stóð það þannig, að tekjurnar voru 30–40 þús. kr. meiri en gjöldin. En eftir því sem lengra líður, breytist þetta þannig, að síðustu árin voru gjöldin hærri en tekjurnar, og að öllu samanlögðu, í árslok 1923, upp undir 1/2 miljón kr., sem kostnaðurinn er meiri en tekjurnar. Nefndinni leist því ekki, að það væri á rjettum rökum bygt, að ríkissjóður þyrfti þess vegna að leggja fram meira fje en lagt hefir verið til í þessu skyni. Hitt viðurkennir hún, að þetta er nauðsynjamál og eigi í næstu framtíð að gerast eins og kostur er á.

Þá er næst brtt. við sömu gr., um kaup á húsi og lóð við Garðskagavita. Það hefir áður legið fyrir nefndinni málaleitun í þessa átt, að ríkissjóður keypti af vitaverðinum þarna hús, lóðir og mannvirki, sem hann hefir keypt á uppboði. En nefndinni fanst, að þetta, sem óskað var að ríkissjóður keypti, væri með nokkuð háu verði, og hafði þess vegna ekki sint því, enda hefir það verið svo, að kauptilboðið hefir stöðugt farið lækkandi, og hefir nú komist lægst. Þó er þessi upphæð ekki nægileg fyrir því, sem þetta er nú boðið fyrir, en nefndin lítur svo á, að rjettast sje, að það sje metið, hversu mikils virði þessi eign sje. Náttúrlega játar nefndin það, að hlutaðeiganda er ekki hægt að skylda til að selja eftir matsverði, en býst hins vegar við, að hann setji sig ekki á móti matinu; en verði verðið ekki hærra en hjer er gert ráð fyrir, þá er ekkert því til fyrirstöðu, að eignin verði keypt.

Fleiri brtt. eru ekki af hálfu nefndarinnar við þennan kafla, og brtt. einstakra þm. ætla jeg ekki að fara út í nú, ekki fyr en þeir hafa lýst þeim frá sinni hlið, en jeg vil aðeins geta þess, að upphæðir þessara brtt., sem nú liggja fyrir, eru ekkert smáar; öll hækkunin á gjöldum fjárlaganna yrði, ef þær yrðu samþ., yfir 900000 kr., till. minni hl. upp undir 300000 kr., og annara þm. 623000 kr. Það er þess vegna ekkert smáræði, sem hjer er um að ræða, og jeg vænti þess fyrir hönd nefndarinnar, að háttv. þm. athugi vel þessa stefnu, sem meiri hluti nefndarinnar og fjármálastjórnin vill fylgja, og ef þeir gera það, þá verður áreiðanlega margt af þessum till., sem þeir ekki munu sjá sjer fært að samþ. að þessu sinni, þótt nauðsynlegar þyki.