01.04.1925
Efri deild: 44. fundur, 37. löggjafarþing.
Sjá dálk 1203 í B-deild Alþingistíðinda. (452)

31. mál, sektir

Forsætisráðherra (JM):

Yfirleitt hefi jeg ekki neitt sjerstakt um þetta mál að segja, annað en jeg þakka háttv. nefnd fyrir móttöku hennar og meðferð á þessu frv., enda um frv. sjálft fátt fleira að segja en það, er háttv. frsm. nefndarinnar hefir tekið fram, og er jeg honum samþykkur í aðalatriðum öllum. Háttv. frsm. talaði um það, að það þyrfti að ákveða sjerstakan sáttafrest í hvert skifti, en þegar við erlenda menn er að eiga, verður þessi frestur að vera stuttur. Þetta verður að vera undir dómaranum sjálfum komið og á hans valdi, og er það tíska víða á þessum tímum að leggja mikið á vald dómaranna.

En um ídæmdar sektir er það að segja, að það mun eflaust rjett vera, að þar hafa ekki öll kurl til grafar komið, ekki eingöngu í einkamálum, og jeg held það hafi líka átt sjer stað þó um sakamál hafi verið að ræða. Jeg felst á það, að rjett væri að hafa þá sömu reglu um slíka dóma hæstarjettar og fylgt var við landsyfirrjettinn, að undirdómarar fengju afrit af sektardómum öllum og heimti þeir þær sektir, ella annist um afplánun. Um hæstarjett er það að vísu svo, að ætlast er til, að allir viti um úrslit dóma þar, og ættu eiginlega allir dómarar í landinu að fá hæstarjettartíðindi, svo þeir viti, um hvað þeir eiga að annast. Hitt hefi jeg áður getið um, að þetta eru aðeins lágmarksákvæði um 10 kr. dagsafplánun, og mun ekki verða notað þannig nema um lágar lögreglusektir sje að ræða, enda væri annars hæpið, að refsingin svaraði til brotsins, og sama hygg jeg, að verði uppi um hámarksákvæðið 3 ár. Áður var hámarkið 2 ár, og jeg hygg sennilegast, að varla verði dæmt í harðari vararefsingu en sem því svari, og mjög sjaldan svo hátt. En þar eð undantekningartilfelli geta ávalt komið fyrir og að dómararnir þurfi að ákveða þyngri refsingu, er ekkert hættulegt við að hafa þetta í lögum. Það verður ávalt að miða þetta við, hvað hæfilegt sje að ákveða fangelsishegningu í samanburði við þrotið, en ekki í samanburði við sektina eins mikið og brotið. Þetta er í samræmi við hegningarlögin; þar er þetta lagt í hendur dómaranna, og eins ætti að vera í þessu atriði, að þeim væri vel treystandi að taka ekki of linlega á þessum sökum.