20.02.1925
Efri deild: 10. fundur, 37. löggjafarþing.
Sjá dálk 1208 í B-deild Alþingistíðinda. (466)

13. mál, smjörlíki

Atvinnumálaráðherra (MG):

Jeg hefi ekkert á móti því, að landbn. fái mál þetta til meðferðar og kynni sjer það til hlítar. En jeg hygg þó, að frv. stjórnarinnar muni bera sigur úr býtum, enda mun það ekki vera vanalegt, er lög eru sett, sem iðnrekstur varða, að þau nái til þess iðnrekstrar, sem fyrir er, þegar þau ganga í gildi. Gangur þessa máls er sá, sem kunnugt er, að á árinu 1923 var Áslækjarrjómabúinu veitt lán úr viðlagasjóði til þess að koma á fót smjörlíkisgerð í sambandi við rjómabúið, en sama ár voru sett lög, sem bönnuðu smjörbúum að framleiða á sama stað smjörlíki og smjör. Þessi meðferð er ekki sanngjörn, og því er í frv. farið fram á, að smjörbúum sje veitt heimild til að nota tæki þessi eins og áður var. Að vísu kann það satt að vera hjá hv. 1. landsk. (SE), að smjörlíkisgerðin geti flutt sig, t. d. til Eyrarbakka, en bæði er það, að óvíst er, að menn vilji taka að sjer fyrirtækið með því móti, og þar að auki yrði smjörbúið að afla sjer nýrra tekja til smjörgerðar að einhverju leyti. Það er alveg rjett hjá hv. 1. landsk. (SE), að fullkomin ástæða er til að sýna varúð í þessu efni og gera alt, sem hægt er, til að hindra, að smjör verði falsað; en í þessu tilfelli álít jeg hættuna enga og ekki ástæðu til að gruna slíkt. En eigendur rjómabúsins verða hjer fyrir fjárhagslegu tjóni, ef heimildin er ekki veitt, og þar að auki er það ekki venja, eins og jeg þegar hefi sagt, að lög um iðnrekstur nái til þeirra stofnana, sem fyrir eru við setning laganna.