26.03.1925
Neðri deild: 43. fundur, 37. löggjafarþing.
Sjá dálk 274 í B-deild Alþingistíðinda. (48)

1. mál, fjárlög 1926

Atvinnumálaráðherra (MG):

Það er ekki nema ein grein fjárlaganna í þeim kafla þeirra, sem nú er til umræðu, sem mjer viðkemur sjerstaklega. Vil jeg því segja fáein orð viðvíkjandi brtt., er fram hafa komið við hana, sem sje 13. gr.

Er þá fyrst brtt. háttv. fjvn., er hún bætir við nýjum lið, Vaðlaheiðarvegi. Jeg skal viðurkenna, að hjer er hin mesta nauðsyn á því, að þessi vegur sje gerður. Það er vitanlegt, að á síðasta sumri var leiðin nálega ófær. En ástæðan til þess, að stjórnin tók ekki upp þennan veg í frv. sitt, var sú, að það er ákveðið, að hinn nýi vegur liggi á öðrum stað en sá gamli, og kemur hann því ekki að notum fyr en hann er kominn nokkuð langt áleiðis Var því svo til ætlast, að hann biði enn eitt ár og yrði þá veitt hærri upphæð. Þetta tek jeg ekki fram til þess að mæla á móti till. hv. nefndar, heldur til þess að sýna, hvers vegna þessi vegur var ekki tekinn upp í stjfrv.

Þá er 22. brtt. hv. nefndar, um að hækka fjárveitinguna til viðhalds þjóðvega um 5 þús. kr., til þess að halda áfram vegi í Dalasýslu. Eftir því, sem segir í nál., þá er jeg í vafa um það, hvort hjer er um viðhald eða áframhald að ræða, og furðar mig á því, að nefndin skyldi ekki setja þetta á nýjan lið, ef um áframhald er að ræða, í stað þess að setja það hjer inn. (BJ: Áframhaldið er stutt og samþykt af vegamálastjóra). Þá þarf ekki að óttast um það, að vegamálastjóri sjer um, að unnið verði fyrir þetta fje. — Um þrjá næstu liði hefi jeg ekkert að segja; þeir eru allir smáir.

Um 25. lið vil jeg segja, að jeg er þakklátur nefndinni fyrir það að taka þann upp samkvæmt tilmælum frá mjer. Eins og kunnugt er, kemur til mála að gera nýjan samning við Stóra norræna ritsímafjelagið frá 26. ágúst 1926, því að þá er úti sá 20 ára leyfistími, sem fjelaginu var veittur 1905. En ástæðan til þess, að hjer er ekki sett föst upphæð tilstækkunar loftskeytastöðinni, er sú, að ekki er hægt að segja um, hvað mikið fje stækkunin muni kosta, en það er vel hugsanlegt, að hún kosti alt að 200 þús. kr., ef gera á stöðina svo sterka, að hún geti tekið ein að sjer sambandið við umheiminn. Nú má vera, að samningur náist við Stóra norræna, en jeg vil benda á það, að þó að samningur takist, þá getur samt verið hagkvæmt og rjett að stækka stöðina, því að það er ekki útilokað, að hægt sje að tryggja henni tekjur, eftir að hún hefir verið stækkuð, svo að stækkunin borgi sig á fáum árum. Og ef það sannast, að þetta sje hægt, þá vil jeg skoða það svo, sem þessi heimild gildi, þó að ekki komi til þess, að stöðin þurfi að sjá ein um skeytasamband við umheiminn. En þó verður hún samt ekki notuð nema sýnt verði fram á, að af því verði beinn gróði. Jeg get sagt, hvað það er, sem þessu veldur. Það eru veðurskeyti. Ef það fást sannanir fyrir því, að við getum náð samningum við útlönd um veðurskeytin og haft svo mikið upp úr þeim, að þessi aukning loftskeytastöðvarinnar borgi sig á fáum árum, þá verður hún framkvæmd, en sennilega eitthvað ódýrari en jeg nefndi áðan. Sem sagt, jeg geri ráð fyrir því, að í tillögu þessari felist nokkurskonar umboð til stjórnarinnar um það, að semja um símasambandið. Jeg hafði ætlað að halda fund með hv. þm. um þetta mál. Það þarf að koma einhversstaðar fram berum orðum, að þetta umboð hafi verið veitt. Vildi jeg við það tækifæri skýra frá því, sem gerst hefir í þessu máli, og hvað til er ætlast, að reynt verði að ná.

Þá kem jeg að 26. lið brtt. hv. fjvn., um 50 þús. kr. fjárveitingu til vita. Í frv. stjórnarinnar var engin fjárveiting til að reisa nýja vita, af sömu ástæðu og dregið var úr mörgum öðrum framkvæmdum, sem sje vegna greiðslu lausaskuldanna. En það hafa heyrst miklar og sterkar raddir um það, að það megi ekki draga úr byggingu vita, þar sem ríkissjóður taki svo hátt vitagjald af skipum. En það hefir líka verið bent á, að þetta er ekki allskostar rjett, því að ríkið er búið að leggja í meiri kostnað við vitagerðir heldur en nemur vitagjöldunum frá upphafi. Sumir líta svo á, að það sje skylda hvers ríkis að kosta af eigin efnum allar nýbyggingar vita, hvað sem vitagjaldi líður. En á það verður að líta, að það er á valdi hvers lands, hvort vitagjald er haft svo hátt, að það megi bæði til rekstrar og nýbygginga á vitum. Og jeg lít svo á, að við þurfum að hafa vitagjaldið svo hátt, að það nægi til hvorstveggja, þegar það er athugað, hvað fáment landið er í hlutfalli við stærð þess. Jeg skildi háttv. frsm. (ÞórJ) svo, að það yrði á valdi stjórnarinnar, til hvaða vita þetta fje yrði notað, enda er hún ekki bundin við neinn sjerstakan vita í till. hv. nefndar. Að vísu tók jeg eftir því, að hann mintist á einn sjerstakan vita, en sem sagt er þetta óbundið frá hálfu nefndarinnar, og tek jeg till. hennar svo, að stjórninni sje heimilt að skifta fjenu í fleiri staði, ef rjett þykir.

Um 27. lið vildi jeg mega mælast til þess við hv. nefnd, að hún tæki þá till. aftur til 3. umr., og leyfði mjer á þeim tíma viðtal við sig. Fjárveitingu þessa þarf að laga. Hún þarf að nema 2250 kr. til þess að líkur sjeu á, að hið umrædda land fáist til banda vitanum. En það er auðsær hagur fyrir landssjóð að eignast þetta land, því að þá mundi vitavörðurinn geta sætt sig við lægri launaákvæði en nú, því að land þetta er í fullri rækt og getur hann haft á því kú sjer til hagsbóta, og kemst þá af með minni laun. Jeg tel því rjett, að þetta land sje keypt, og jeg verð að telja verðið sanngjarnt, því að þetta land var keypt á uppboði 1923 á 2250 kr.

Þá er brtt. á þskj. 204, frá háttv. þm. Dala. (BJ), og skal jeg hjer aðeins nefna þær, sem viðkoma 13. gr. Er þar fyrst að nefna einn lið um síma og annan um vegi. Jeg verð að segja það, að jeg sje ekki, að fært sje að taka þessa liði út úr, þar sem búið er að ákveða lagning sjerstakra síma, en framkvæmdum hefir orðið að fresta frá ári til árs. Sama er að segja um þennan veg. Vegamálastjóri segir, að hann sje ekki eins nauðsynlegur og ýmsir vegir aðrir, sem enn eru ógerðir.

Þá er 6. liður á þskj. 204. um styrk til fyrverandi eiganda Breiðafjarðarbátsins Svans, til skuldalúkningar. Jeg skal geta þess, að svo vildi til, að jeg var staddur í Stykkishólmi í sumar, þegar sýslunefndir Dala- og Snæfellsnessýslu hjeldu sameiginlegan fund um þetta mál. Var þar samþykt, að hvor sýslan tæki að sjer 12 þús. kr. af skuld bátsins og sparisjóðir sýslnanna 2 þús. kr. hvor, en samt hefir þessi upphæð orðið eftir. Mjer skilst, að fáist ekki þetta fje frá hinu opinbera, þá skelli skuldin á fáeinum mönnum, 2 úr Dalasýslu og 1 úr Snæfellsnessýslu. En sú upphæð, sem hjer er farið fram á, er öll skuldin, sem eftir stendur, og finst mjer satt að segja efamál, hvort hið opinbera eigi að greiða hina alla. Jeg veit ekki nema það geti komið til mála að skifta henni milli ríkissjóðs og hlutaðeigandi sýslna, og jeg verð að segja, að það er hart, að hún skelli á þessum fáu mönnum. En jeg held, að rjettara væri, að hv. þm. Dala. (BJ) helmingaði upphæðina, og tækju svo sýslufjelögin hinn partinn. Jeg get ekki sjeð, að sýslusjóðir geti ætlast til þess, að einstakir menn greiði slíka fjárhæð sem þessa.

Viðvíkjandi brtt. einstakra þm. á þskj. 235 skal jeg vera fáorður. Er þá fyrst till. um framlag til Biskupstungnavegar. Vegamálastjóri lagði til, að þessi braut yrði látin bíða til 1927. Það er að vísu rjett, að af þessari braut er mestu ólokið af hinum gömlu flutningabrautum. Hún er sem sje ógerð frá Torfastöðum að Geysi. En hjer er farið fram á svo litla upphæð, að naumast má telja praktiskt að skifta svo smátt til vegagerða. En þó skal jeg ekki leggja á móti þessari fjárveitingu. Ef hv. þd. sjer sjer fært að hækka fjárveitinguna til vega, þá get jeg sem samgöngumálaráðherra ekki haft á móti því. En vegamálastjóri leit svo á, að það væri búið að verja svo miklu fje til vega í þessari sýslu, að sanngjarnt væri, að hún biði eitt ár frekari fjárveitinga í því skyni.

Þá er framlag til Kjalarnesvegar. Er tilgangurinn sá, að gera akfært upp á Kjalarnes og í Kjós. En um þetta er hið sama að segja og Biskupstungnabraut. Vegamálastjóri lagði til, að þessi vegur biði dálítið, enda er það svo, að hingað í nágrenni Reykjavíkur hefir farið svo mikið fje til vegagerða, að athugavert er, að önnur hjeruð verði ekki afskift. En auðvitað er þetta nauðsynlegur vegur og kemur að notum fyrir tiltölulega litla upphæð.

Þá vil jeg þakka háttv. samgmn. fyrir það, að hún leggur til að hækka styrk til flóabáta úr 70 þús. kr. upp í 83 þús. kr. hefir nefndin reiknað nákvæmlega út, að ekki er unt að komast af með minna. (JAJ: Nál. kemur á morgun). Þá er ekki vert að tala nánar um þetta. En úr því að nefndin vill hækka þennan styrk svona 1926, þá tek jeg það sem heimild til þess að veita alt að þessu á árinu 1925, enda sjáanlegt, að ekki er unt að komast af með minni upphæð.

Um símalínu frá Mýrum til Núps er það að segja, að það er svo lítil upphæð, að ekki skiftir miklu máli um hana. Og þó að til sjeu eldri loforð um lagning síma, þá er upphæðin svo lítil, að einu gildir, hvort hún er veitt eða ekki. En jeg er ókunnugur þar vestra, og get því ekki dæmt nauðsyn þessa. Jeg man eftir, að það var rætt um þetta mál á þinginu í fyrra, og því var lýst yfir, að þörfin er víða mikil og varhugavert að rjúfa gefin loforð um nýjar símalínur.