25.03.1925
Neðri deild: 42. fundur, 37. löggjafarþing.
Sjá dálk 1234 í B-deild Alþingistíðinda. (495)

13. mál, smjörlíki

Tryggvi Þórhallsson:

Jeg verð að játa þá yfirsjón mína, að jeg hefi fylgst illa með gangi þessa máls. En þar sem það er nú komið aftur fyrir hv. deild, finst mjer rjett að gera stutta fyrirspurn til hæstv. stjórnar. Geri jeg það ekki með það fyrir augum að spilla fyrir frv.

Það, sem jeg vildi forvitnast um, var aðeins það, hvort mál þetta hefir verið borið undir Búnaðarfjelag Íslands. Minnist jeg þess ekki, að það hafi verið gert meðan jeg hefi átt sæti í stjórn þess fjelags, en máske það hafi verið gert áður, eða skotist framhjá mjer. Er það sjerstaklega eitt atriði í þessu sambandi, sem gerir það að verkum, að rjett hefði verið að leita álits og ráða Búnaðarfjelagsins. Svo er mál með vexti, að ostagerð hefir aukist hjer mjög í seinni tíð, en það er vitanlegt, að smjörlíkisgerð í sambandi við rjómabúin hlýtur að spilla fyrir ostagerðinni. En hvort hagkvæmara sje, læt jeg ósagt, en það er atriði, sem kemur til athugunar í sambandi við þetta mál og Búnaðarfjelagið væri bærast að dæma um.