25.03.1925
Neðri deild: 42. fundur, 37. löggjafarþing.
Sjá dálk 1237 í B-deild Alþingistíðinda. (498)

13. mál, smjörlíki

Jörundur Brynjólfsson:

Jeg vil þakka hæstv. atvrh. (MG) fyrst og fremst fyrir það, að hafa borið þetta frv. fram, og í öðru lagi fyrir meðmæli hans og stuðning í málinu fyr og síðar.

Eins og hv. deild man, þá gekk málið hjer í gegn umræðulítið. Það var fyrst, er frv. kom til hv. Ed., að bera tók á mótspyrnu gegn því. Sá mótþrói var víst sama eðlis og líkt rökstuddur og nú hjá hv. þm. Barð. (HK), og er því ekki úr vegi að athuga mál þetta nokkru betur.

Jeg vil þá fyrst taka það fram, að hjer er alls ekki um það að ræða, hvort hagkvæmara sje að taka upp ostagerð eða smjörlíkisgerð. Búið hefir sem sje þegar aflað sjer vjela og tækja til smjörlíkisgerðar, þó í smáum stíl sje og aðeins til heimilisnotkunar. Að strokknum einum undanteknum er ekkert þessara tækja notað við smjörgerðina, og sjálfur er strokkurinn svo einfalt áhald til hreinsunar, að óhugsandi er, að smjörið dragi dám af því smjörlíki, sem strokkað yrði í honum. Sömuleiðis er byggingu hússins svo háttað, að óhugsanlegt er, að smjörið geti úr loftinu orðið fyrir nokkrum áhrifum af smjörlíkinu.

Mjer fanst það koma fram í ræðu þm. Str. (TrÞ), að hann byggist við, að ef eitthvað yrði aðfinsluvert við smjörgerðina, þá myndi það koma niður á öllu íslensku smjöri, sem kemur á erlendan markað. (TrÞ: Jeg hefi ekkert sagt í þessa átt). Þetta eru alt veigalitlar ástæður. Þó að þetta kynni að koma fyrir, sem jeg fyrir mitt leyti fer sannfærður um, að ekki verði, þá lendir sú sök hjá því rjómabúi einu, sem smjörið er frá. Smjörið frá hverju rjómabúi er merkt, og ef um einhvern galla á vörunni er að ræða, þá tilkynnir það firma, sem smjörið hefir fengið, það þegar því rjómabúi, sem hlut á að máli. Og til hvers er háttv. þm. Barð. (HK) þá að spyrja? Það getur ekki þýtt annað fyrir þá, sem til þekkja, en að hann vilji á þennan hátt koma málinu fyrir kattarnef, úr því að búnaðarmálastjórinn er andvígur málinu, en jeg hygg, að andstaða hans og annara sje algerlega af misskilningi sprottin og að íslenska smjörið haldi því áliti, sem það hefir unnið, og meira að segja, þrátt fyrir það þótt mistök kynnu að verða á smjörgerðinni frá þessu eina rjómabúi, sem jeg vona, að ekki komi fyrir. Þetta kom einnig fram í hv. Ed., en þar var frv. samþykt með 9 eða 10 atkv. á móti 1. Viðvíkjandi því, sem hv. þm. drap á, að rjettara væri að fá eftirgjöf á láni því, sem rjómabúið fjekk 1923, vil jeg minna hv. þm. (HK) á, að á síðasta þingi var farið fram á eftirgjöf, en að þessi hv. deild feldi þá málaleitun með yfirgnæfandi meiri hl. atkv. Ennfremur hefir nú verið leitað til fjvn. beggja deild um það, hvort þær vildu mæla með þessari eftirgjöf, og hafa þær sagt, að þær vildu það ekki. Jeg vænti því, að háttv. deild samþykki þetta frv., því að fyrir þeim andmælum, sem hjer eru borin fram, eru ekki svo veiga miklar ástæður, að þær ættu að verða frv. að falli.