25.03.1925
Neðri deild: 42. fundur, 37. löggjafarþing.
Sjá dálk 1241 í B-deild Alþingistíðinda. (501)

13. mál, smjörlíki

Atvinnumálaráðherra (MG):

Út af því, sem hv. þm. Barð. (HK) sagði, vildi jeg aðeins benda á það, að það er ekki tilgangur þessa frv. að innleiða það sem reglu, að það megi hafa saman smjör og smjörlíkisgerð, heldur aðeins leyfa það í þessu eina tilfelli, leyfa þeim að halda áfram atvinnu, sem byrjað hafa á henni áður en lögin komu, af því að þess var ekki gætt, þegar lögin voru sett, að veita þessa undanþágu; hefði þess verið gætt þá, er jeg viss um, að það hefði þótt sjálfsagt. Ef þessir menn vildu nú fara að svíkja sína vöru, þá kemur það niður á þeim sjálfum, því að varan er merkt, og jafnvel þó að þessi undanþága væri gerð, þá kemur mjer ekki til hugar að halda, að það fljúgi eins og eldur í sinu út um öll lönd, að Áslækjarrjómabúið hafi nú fengið þessa undanþágu og að öllu íslensku smjöri sje hætta búin af þessu á erlendum markaði. Auk þess er þetta aðeins smáframleiðsla, er bændur hafa þarna til þess að geta selt meira að smjöri; þeir eru ekki að selja smjörlíki út um alt eða að bjóða það hjer í Reykjavík.

Hv. þm. Str. (TrÞ) kvaðst hafa fylstu samúð með þessu frv., og fyrst svo er, að hann vill láta bæta rjómabúinu skaðann, þó ekki með eftirgjöf lánsins frá 1923, því að þeirri leið var hann mótfallinn í fyrra, þá sje jeg ekki annað en hann hljóti að fylgja þessu frv., en ef hann gerir það, þá skil jeg ekki, hvers vegna hann vill fá umsögn Búnaðarfjelagsins um málið. En jeg þekki líka annan mann í stjórn Búnaðarfjelagsins; hann veit um þetta frv. og er ekkert á móti því. Jeg hefi líka talað við búnaðarmálastjóra; hann var nokkuð hikandi, þótt hann virtist ekki eindreginn á móti málinu, svo að það mundi fara svo í stjórn Búnaðarfjelagsins, að tveir menn þar myndu vera með því, svo að jeg veit ekki, til hvers á að senda frv. þangað. Og ef það kemur umsókn frá þessu rjómabúi, þá skal jeg senda hana Búnaðarfjelaginu til umsagnar, svo að það geti komið fram með þær athugasemdir, sem það kynni að vilja gera. Annars vil jeg segja það, að hvað sem Búnaðarfjelagið kynni að segja um þetta, þá myndi jeg samt sem áður fylgja fram þessu frv., því að þótt jeg vilji gjarnan sækja ráð til Búnaðarfjelagsins, og geri það oft, þá get jeg ekki látið binda mig við álit þess, enda er hjer ekki um neitt landbúnaðarmál að ræða. Hjer er aðeins um sanngirnismál að ræða, rangindi, sem þarf að leiðrjetta, og hættan er engin, því að ef þessum mönnum dettur í hug að fara að svíkja smjör sitt, sem mjer dettur ekki í hug að halda, þá verður það verst fyrir þá sjálfa og afleiðingarnar af því bitna á þeim einum.