25.03.1925
Neðri deild: 42. fundur, 37. löggjafarþing.
Sjá dálk 1243 í B-deild Alþingistíðinda. (502)

13. mál, smjörlíki

Hákon Kristófersson:

Jeg skal taka undir þau orð, sem hv. þm. Str. (TrÞ) mælti; aðeins vil jeg lýsa yfir því, að jeg er sannfærður um, að hæstv. atvrh. (MG) gengur ekki annað en gott til að því er framkomu hans snertir í þessu máli. Hæstv. atvrh. var að tala um það, eins og reyndar fleiri háttv. þm. hjer í deildinni, að þetta væru aðeins heimildarlög, en heimildarlög, sem vitanlega verða notuð, og í því skyni að fá lagalegt innsigli fyrir það, sem gert er í heimildarleysi. (Atvrh. MG: Það er hægt að kippa leyfinu aftur). Já, það er nú svo, en jeg skil ekki, hvers vegna hæstv. atvrh. lítur svo á, að frv. þetta megi endilega til með að verða að lögum í dag, þar sem það er vitanlegt, að þetta mál er eitt af þeim fyrstu, og jeg býst þar á ofan við, að ekkert verði fyrir því tafið. Hvers vegna má þá ekki taka málið út af dagskrá í dag til að gefa Búnaðarfjelaginu kost á að segja álit sitt um það? Það eru tekin stærri mál af dagskrá í líkum tilgangi.

Hv. 2. þm. Árn. (JörB) sagði, og mjer virtist hæstv. atvrh. taka undir það, að þessi smjörlíkisgerð væri ekki meiri en svo, að það væri aðeins fyrir sveitina, en það sannar ekkert, að hún geti ekki orðið meiri í framtíðinni. Því hefir verið haldið fram, að það kæmi niður á viðkomandi búi, ef missmíði fyndust á smjörinu, en mjer er það mjög óskiljanlegt, því ef smjörið er sent til útlanda og líkar illa, þá verður naumast sagt, að smjörið sje frá Áslæk, heldur verður alment sagt, að íslenska smjörið reynist illa, og jeg held, að það næði alveg eins til þeirra, sem ættu engan skylduhlut að máli, auk þess sem mætti búast við, að þetta yrði misnotað gagnvart innanlandssölu. Mjer er þegar sagt, að íslensku smjörlíki sje hnoðað saman við smjörið, og einmitt frá þessu búi, en það á að heita svo, að það sje gert til þess að koma sveitamönnum, sem hlut eiga að máli, til að eta smjörlíkið. En jeg skil ekki í því og vil ekki trúa þeim orðrómi, sem þá mundi leggjast á okkur bændur, enda hygg jeg, að slíkt mundi fljótt koma niður á okkur sjálfum, á þann hátt, að illa gengi að fá fólkið til að vinna fyrir sig, að minsta kosti held jeg, að jeg gæti ekki gert slíkt, þótt jeg, efnahagslega sjeð, gæti haft sömu tilhneigingar og aðrir bændur. Jeg get því ekki sjeð, að með þessum orðum mínum hafi á nokkurn hátt verið hneigt að því, að þetta eina rjómabú hefði alt á hættu, og jeg held því fram, að þessi hætta geti í flestum tilfellum náð yfir alla.