03.04.1925
Neðri deild: 50. fundur, 37. löggjafarþing.
Sjá dálk 1256 í B-deild Alþingistíðinda. (512)

13. mál, smjörlíki

Tryggvi Þórhallsson:

Jeg get sagt það aftur við frh. þessarar umr., sem jeg sagði við fyrri hluta hennar, að mjer ber að biðja afsökunar á því, að jeg lagði það ekki fyrri til, sem jeg þá gerði, því að jeg álít rjettara, að það hefði komið fyr fram á þinginu; en hinsvegar þótti mjer það sjálfsagt, þegar jeg fjekk tíma og tækifæri til að hugsa um það. Jeg ætla ekkert að leggja til þeirrar deilu, sem hjer á sjer stað, því að jeg vil ekki hella olíu í þann eld, en aðeins gefa frekari upplýsingar um málið og lýsa því, sem vakti fyrir Búnaðarfjelagi Íslands.

Það er eitt atriði, sem jeg vildi taka fram, að jeg lít töluvert öðruvísi á en hv. frsm. (HStef), og það er töluvert þýðingarmikið atriði í þessu sambandi, nefnilega það, að þessi lög eru komin hingað inn í þingið frá bændunum sjálfum, og má af því sjá, að þeir telja þetta þýðingarmikið atriði, og í frv. því, sem hjer er um að ræða, er það skýrt fram tekið, að þessi undanþága má ekki taka lengri tíma en á meðan verið er að endurgreiða lánið, eða meðan verið er að rjetta hlut þessa rjómabús fyrir austan.

Þá er annað atriði í þessu máli, það, að þeir hv. þm., sem hafa haldið þessu máli fram, hafa haft algerlega á rjettu að standa, því að þeir hafa aðeins haldið því fram, að það bæri að rjetta hlut rjómabúsins, því að það er alveg ófyrirgefanlegt að veita fyrst lánið og banna síðan að vinna að því, sem lánið er veitt til. Slíkt má ekki eiga sjer stað. Þess vegna var hin leiðin farin á síðasta þingi, stungið upp á, að þingið gæfi eftir þetta lán, en þar sem þingið neitaði að gera það, lagði hæstv. atvrh. (MG) það til — og það vil jeg segja honum til hróss — að fara þessa leið, að veita búinu undanþágu, til þess að rjetta hlut manna fyrir austan. Þess vegna er ekki rjett að áfellast stjórnina; en það er kominn nýr grundvöllur fram í málinu, sem þó kemur ekki nógu greinilega fram. Það er brjef Búnaðarfjelags Íslands. Til þess að þessir menn þar eystra fái fullan rjett sinn, þá eiga þeir samt ekki kröfu á því að fá alt lánið upp gefið, þessar 5000 kr., sem þeir fengu lánaðar úr ríkissjóði; þrátt fyrir það, þó leyfið yrði tekið af þeim, svo að þeir yrðu að hætta við smjörlíkisgerðina, þá yrði ekki jafnmikið verðmæti ónýtt fyrir þeim. Það fyrsta er strokkurinn, sem þeir nota við smjörlíkisgerðina; þann sama strokk nota þeir líka við smjörgerðina. Með öðrum orðum, þeir þurfa hvort sem er að hafa þennan strokk, og það er nú upplýst, að þessi strokkur mun vera sá besti, sem til er á öllu landinu. Auk þess er það upplýst, að þar er töluvert af öðrum áhöldum, sem mætti koma í peninga, t. d. ketillinn. Það er einnig upplýst, að hann mætti nota til tveggja eða þriggja annara atvinnugreina. Það er með öðrum orðum upplýst, að það tjón, sem þetta bú biði, ef því yrði bannað að stunda smjörlíkisgerð, yrði ekki 5000 kr., heldur eitthvað frá 2000–3000 kr. Þingið í fyrra neitaði að gefa því eftir 5000 kr., en nú er það upplýst, að það hefir ekki rjett til að fá meira uppgefið en sem svarar 2500 kr., ef leyfið væri tekið af því. Út frá þessu leit stjórn Búnaðarfjelagsins svo á, að þar sem ekki væri um meiri upphæð að ræða, væri það mjög varhugavert að víkja frá þessari meginreglu. Jeg vildi benda á þetta, af því að það kom ekki nógu skýrt fram í brjefi Búnaðarfjelagsins.

Hæstv. atvrh. (MG) sagði, að það væri ekki undarlegt, þó að stjórn Búnaðarfjelagsins kæmist að þessari niðurstöðu, vegna þess að það hefði ráðgast um við smjörlíkisgerðarmenn. En þá er nú ekki nema hálfsögð sagan. Búnaðarfjelagið ráðgaðist auðvitað um við þá konu, sem er ráðunautur stjórnarinnar um smjörbúin, og í öðru lagi við þann mann, sem er sjerfræðingur í þessari grein. Stjórn fjelagsins ráðgaðist ekki um við aðra menn en þessa, en hitt er tilviljun, að þessi kona og maðurinn eru jafnframt riðin við smjörlíkisgerð. En þriðja persónan, sem leitað var ráða til, er efnafræðingur ríkisins, sá maður, sem á að hafa eftirlit með því, að framkvæmdar sjeu yfirleitt fyrirskipanir löggjafarinnar um þessi mál. Hann var þess vegna sjálfsagður, og veit jeg ekki til, að hann sje á nokkurn hátt riðinn við smjörlíkisgerð. En jeg geri þetta ekki að kappsmáli. Það er alveg sjálfsagt, að þessir menn fyrir austan verði ekki fyrir tjóni við þetta, en hjer er kominn alveg nýr grundvöllur. Þeir eiga ekki sanngirniskröfu til að fá eftirgjöf á 5000 kr., heldur á 2500 kr. En hvort heldur þingið gerir í þessu máli, það legg jeg ekkert kapp á. Jeg vildi, sem sagt, gefa upplýsingar um það, sem komið er fram í málinu.