25.02.1925
Neðri deild: 16. fundur, 37. löggjafarþing.
Sjá dálk 1298 í B-deild Alþingistíðinda. (563)

21. mál, styrkveiting til handa íslenskum stúdentum við erlenda háskóla

Forsætisráðherra (JM):

Háttv. þm. Dala. (BJ) er ennþá að tala um svikin loforð í sambandi við þetta mál. Jeg hefi áður átt tal við hv. þm. um þetta, og jeg kannast alls ekki við, að nokkurt loforð hafi verið gefið um þetta árið 1918. Og að jeg hafi aldrei skilið þetta svo, held jeg að sjáist berlega á framkvæmd þessa máls fyrst eftir 1918. Þá voru aðeins veittar 8 þús. kr. í þessu augnamiði og alls ekki heldur borgað meira út en veiting var fyrir. Þetta ber allsæmilega vitni um það, að jeg hefi ekki álitið, að loforð um það, sem hv. þm. heldur fram, hafi verið til. En hitt veit jeg um, og jeg benti á það við 1. umr. þessa frv., að fjvn. þingsins, líklega fyrir dugnað þessa hv. þm., hafa litið á þetta, máske ekki sem loforð, en sem vilyrði fyrir því, að þetta yrði gert eins og hv. þm. Dala. vill vera láta. Og þó svo hefði nú verið, að loforð hefði verið gefið um þetta, þá gæti það loforð ekki staðið til eilífðar. Hvernig gæti þá þetta loforð hafa verið svikið? Til þess að þingið gæti ekki breytt þessu, þyrfti eitthvað að hafa verið sett í stjórnarskrána því viðvíkjandi. Hv. þm. Dala. er og stundum spaugsamur. Hann er það, er hann er að tala um það í þessu sambandi, að þetta sje tekið frá munni barna landsmanna. Það er rangt hjá hv. þm., er hann segir, að þjóðin hafi ekki tímt að koma sjer upp mentastofnunum. Því samanborið við fjárhagsgetu og fólksfjölda höfum vjer mjög margar mentastofnanir hjer á landi. (BJ: Hverjar?). Það er og vel gert af þjóð, sem ekki er nema 100 þús. manns, að eiga háskóla, þótt ekki sje annað talið. Háttv. þm. telur, að við hefðum getað lagt fram meira fje í þessu skyni. Jú, að vísu hefðum við getað það, en það hefði þá orðið með því að vanrækja ýmislegt jafnnauðsynlegt. Að öllu samtöldu staðhæfi jeg, að vjer leggjum mjög sómasamlega fje úr ríkissjóði til menningar.