28.03.1925
Neðri deild: 45. fundur, 37. löggjafarþing.
Sjá dálk 360 í B-deild Alþingistíðinda. (69)

1. mál, fjárlög 1926

Frsm. (Þórarinn Jónsson):

Það eru liðnir tveir sólarhringar síðan byrjað var á þessu máli, og það er ýmislegt, sem jeg hafði skrifað niður hjá mjer, og þótt jeg ætti að vera betur að mjer fyrir biðina, þá er það þó alls ekki tilfellið. Annars skal jeg þegar geta þess, að jeg vil síst af öllu lengja umr. mikið, og þótt jeg vildi lýsa afstöðu nefndarinnar til þeirra brtt., er fram hafa komið, þá býst jeg við, að það hafi litla þýðingu hvað atkvgr. snertir.

Jeg skal fyrst lítillega snúa mjer að hæstv. fjrh. (JÞ). Hann áleit, að fjvn. hefði gengið helsti langt í því að hækka gjaldaliði. Jeg endurtek þetta af því, að um þetta atriði er meiri hl. nefndarinnar algerlega sammála hæstv. fjrh. (JÞ), og vænti jeg þess, að þetta verði þungt á metunum hjá hv. þm. til þess að viðurkenna, að nógu langt sje farið.

Þá eru einstök atriði, sem hæstv. fjrh. (JÞ) gat um, að nefndin hefði gengið of langt í að hækka, og nefndi þar á meðal verðtollinn, en í sambandi við það frv., sem nú liggur fyrir þinginu, vil jeg benda á, að ef breytt verður til, þannig, að lögin verði látin gilda til ársloka 1927, þá væri tilgangi nefndarinnar náð; hún er samdóma hæstv. fjrh. um þetta og vill styðja hann í því að fá frv. í þetta horf, en það er sök hv. 2. þm. Reykv. (JBald), að þessi glundroði er kominn á málið.

Hæstv. fjrh. vildi helst, að lækkanir nefndarinnar yrðu feldar, en þetta eru ekki nema smáar upphæðir og tekur ekki að deila um það; jeg get látið mjer nægja að minnast aðeins á þetta, og vil ekki reyna að hafa nein áhrif á atkvæðagreiðsluna.

Síðast mintist hæstv. fjrh. (JÞ) á aðstoðarlækninn á Ísafirði. Það hefir orðið til þess, að jeg hefi sett í nál., að ríkinu bæri ekki skylda til að launa aðstoðarlækni þar. Nú hefir hæstv. fjrh. (JÞ) rannsakað þetta til hlítar, og af því verður sjeð, að það verður ómögulegt fyrir þingið að samþykkja þessa brtt. nefndarinnar um niðurfærslu, enda er nefndin skift, en jeg vona, að þessar upplýsingar hafi þau áhrif á þá hv. nefndarmenn, sem voru með brtt., að þeir greiði atkv. með brtt. hv. þm. Dala. (BJ).

Þá er háttv. þm. Dala. (BJ). Það er sjálfsagt þýðingarlaust að deila við hann um stefnu hæstv. fjrh. (JÞ) og meiri hl. nefndarinnar, því að það verður ekki nema til þess að lengja umr. Háttv. þm. (BJ) heldur því fram, að með því að taka lán til að greiða með skuldirnar, verði aðstaða ríkissjóðs betri til framkvæmda í landinu. Nefndin getur ekki fallist á þetta, því að hvort sem þessar skuldir eru samningsbundnar eða ríkið tekur lán til þess að greiða þær með, þá hækkar það afborganir ríkissjóðs vegna þessara nýju lána til langs tíma; það er því ekki betra fyrir ríkissjóð að leggja til framkvæmda á öðrum sviðum, nema síður sje. En aftur, þegar þessar skuldir eru greiddar, þá rýmist til, svo að ríkissjóður getur gert miklu meira en ella. Hv. þm. (BJ) mintist á ýms fleiri atriði, sem óþarft er að svara, t. d. verðmæli á launum embættismanna, ennfremur á það, hvað ætti að taka til greina af fjárbeiðnum, en það hafði jeg áður sagt, að væri mjög mikill vandi að kveða á um, og má altaf um það deila, hvort nefndin hefir komist að rjettri niðurstöðu eða ekki, og skal jeg ekki leggja neinn dóm á það sjerstaklega og skal fúslega játa það, að mikið af öðrum beiðnum á mikinn rjett á sjer, en af því að þær auka útgjöld ríkissjóðs fram yfir það, sem nefndin telur að þau eigi að vera, þá er hún á móti þeim.

Þá hefir hv. þm. (BJ) gert brtt. við sína eigin brtt., afborgun lausaskulda. Mjer finst, að hv. þm. vilji sýna með þessu, að fjárlögin eigi að vera sem tekjuhallaminst, þegar út frá því er gengið, að hann lækkar þennan gjaldalið niður í 300000 kr., svo að eftir hans útreikningi yrði útkoman á fjárlögunun mjög lík. Nefndin getur ekki samþykt þessa lækkun á afborgunum, heldur vill hún láta greiða miklu meira. Yfirleitt er nefndin, eins og hv. þm. (BJ) er kunnugt, og Öllum má vera vitanlegt, á móti öllum þessum till. hans, sem komið hafa áður fram í nefndinni, og er óþarft að fara um þær mörgum orðum. Það eru háar upphæðir í þessum brtt. hv. þm. (BJ), sem nefndin hafði rætt með sjer, þar á meðal til Heilsuhælisfjelags Norðurlands, 50000 kr. í rauninni er þetta minsta brtt., sem farið er fram á til þessa fjelags, en þrátt fyrir það hefir nefndin ekki getað fallist á að vera með henni, nje heldur hinum. Þá er brtt. um styrki til Berklavarnafjelags Íslands og Rauða kross Íslands. Þessi fjelög eru alveg ný, og nefndinni finst það vera mjög hæpið, að ríkissjóður geti þegar í stað veitt fje til starfsemi þeirra. Henni virtist, að fyrst þyrfti að sjá, hvernig fjelögin byrja starfsemi sína, og ef það sýnir sig, að þau starfi heillavænlega, þá telur hún víst, að þingið muni fúst að veita eitthvert fje til þeirra.

Þá er næst Vesturlandsvegurinn. Þetta hafði háttv. þm. (BJ) ekki farið fram á, svo að jeg muni, neitt verulega, en þegar jeg bar þetta saman við till. vegamálastjóra, þá er þessi vegur, sem hv. þm. (BJ) leggur til, ekki í fyrsta flokki. Það er svo fjarri því, að nefndin geti fallist á þetta, því að hún vill sem mest fara eftir áliti vegamálastjóra, því að jafnframt því að hann er langkunnugastur þessum málum, er það öllum háttv. þm. vitanlegt, að mjög margt af framkvæmdum á þessu sviði á fulla kröfu á að ganga á undan þessum vegi, og telur nefndin því rjett að fylgja till. hans í þessu efni.

Sama er að segja um símalagningar. Þar hefir nefndin ekki tekið neitt upp, en eftir till. landssímastjóra, þá voru ýmsar aðrar línur, sem hefðu átt að ganga fyrir þessum, ef nefndin hefði gengið inn á að taka nokkuð upp, en það hefir hún ekki gert.

Þá er 6. brtt., við 13. gr. C. 2., til fyrverandi eiganda Breiðafjarðarbátsins Svans, til skuldalúkningar 13000 krónur. Hæstv. atvrh. (MG) hefir minst á þessa till., og minst á hana heldur hlýlega, því að hann hafði verið staddur þar vestra, þegar fundur var haldinn um þetta mál. Það er náttúrlega rjett og satt, að þeir þar vestra hafa orðið illa úti að ýmsu leyti, en það má undir ýmsum kringum stæðum víða telja til þess, og það virðist ekki vera rjett, að ríkissjóður hlaupi œtíð undir bagga með fjelögum, sem starfsem rækja, þótt illa fari, því að oft má segja að það hafi verið fjelögunum sjálfum að kenna, og þannig mun hafa verið ástatt hjer, en ekki af óviðráðanlegum ástæðum, Og nefndinni hafa líka borist ýmsar sagnir um það, að stjórnin á þessum bát hafi ekki verið góð. Það liggur því margt nær ríkissjóði en að hlaupa undir bagga þar, sem slíkt kemur fyrir, því að víða má finna dæmi, sem eiga líkar rætur. Eins er það heldur ekki satt, að ríkissjóður hafi haft þennan bát útundan með styrkveitingu, meðan hann var þar í förum, svo að það er ekki neins að krefjast frá hans hlið.

Jeg ætla svo ekki frekar að minnast á brtt. háttv. þm. Dala. (BJ), en jeg verð seinna að koma frekar að því, sem hann sagði í seinni ræðu sinni.

Jeg hefi víst hlaupið yfir eina brtt., 1000 kr. til Jóns Kristjánssonar læknis, fyrir kenslu við háskólann. Nefndin veit ekki til, að það sje í ráði, að hann taki að sjer kenslu við háskólann, svo að hún hefir ekki fallist á, að hann verði settur þarna á bekk með læknum háskólans að þessu sinni.

Þá er næstur hv. 1. þm. G.-K. (ÁF), sessunautur minn. Hann var hálfgramur yfir því, að ekki var tekin upp beiðni hans um Kjalarnesveginn og lækni í Kjósina. Hv. þm. (ÁF) lýsti heldur illa ástandinu hjer í kringum Reykjavík. Þá vantaði þar í grendinni bæði lækni, prest og veg, og að Reykvíkingar hefðu ekki einusinni viljað þiggja mjólk af Kjalarnesinu fyrir þessar sakir. Að í kringum Reykjavík væri ekkert gert, heldur öllu fje ríkissjóðs í þessu augnamiði eytt uppi um fjöll og firnindi. Það er ekkert undarlegt, þótt eftirlætisbörnum þyki sárt, ef ekki er gert alt fyrir þau, en jeg verð að halda mjer við það, að mest sje gert hjer í kring, og miklu meira en nokkursstaðar annarsstaðar á landinu. En með tilliti til þessa vegar, þá hefir áður í fjárlögum verið veitt til hans, en ekki verið notað. Nú er í fjárlögunum ætlast til þess, að til hans verði varið 8000 kr. Ummæli vegamálastjóra eru þau, að á þessum Kjalarnesvegi sje aðeins einn km. ófær vagni, og með þessum 8000 kr. er ætlast til þess að gera veginn færan. Þá skildist nefndinni, að það mundi verða gert fært ofan af Kjalarnesinu til bæjarins. Þegar á það er litið, að áður er veitt til þessa vegar, og ekki gert meira til að ljúka við hann, þá er eins og þarna hafi ekki verið sú nauðsyn, sem látið er í veðri vaka. Hitt er líka víst, að þeir á Kjalarnesinu hafa altaf flutt mjólk sjóveg til bæjarins; það hafa vitanlega fallið úr dagar, sem ekki hefir verið fært, en hvort þetta hefir valdið miklu tjóni, liggur ekkert fyrir um, og mjer finst, að þessar 6000 kr., sem hv. þm. telur þetta hafa kostað, sje nokkuð mikil ágiskun. Hitt er líka víst, að það kostar altaf eitthvað að koma mjólkinni til Reykjavíkur, þótt á vögnum sje.

Þegar jeg lít á þetta og aðrar upplýsingar, sem eru í till. vegamálastjóra um þjóðvegina, og ber það saman við ýmsa staði á Norðurlandi, þá er sá samanburður svo, að það verður varla bent á hann, því að það eru hrein og bein ámæli til vegamálastjóra og stjórnar, ef það er gert. Jeg get tekið eitt dæmi. í mínu kjördæmi var byrjað að leggja stutta flutningabraut fyrir fimm árum, frá Hvammstanga að brúarstæðinu á Miðfjarðará. Þessi braut er fullgerð nú eina bæjarleið. Einu sinni kom það fyrir, að sement, sem átti að byggja úr brýr yfir læki og eina smáá á þessari leið og komið var til Hvammstanga, var sent aftur, og nokkuð af því selt á staðnum. Í fyrra átti svo að ljúka við þennan veg fram yfir Króksá, sem er um miðja vega á þessari leið frá Hvammstanga, en það var heldur ekki gert. Vegurinn er enn alófær, og til þess að nota hann þessa einu bæjarleið, þá urðu stórskemdir á engjum manna, og varð því að fyrirbjóða umferðina. Í þessu kjördæmi eru þrjár ár á póstleiðinni óbrúaðar, og hefir ein þeirra fyrir skömmu orðið einum manni að bana. Þar er líka löng kaupstaðarleið framan úr dölum, gríðarlöng leið, og verður þar að flytja alt á klökkum; enginn vagnvegarspotti til. Þannig er ástandið, og verður þarna ekkert aðgert nema þessi stutta braut, sem á að fullgera á árinu 1926. Það er hvergi hægt að líta á þarna, svo að ekki sje alstaðar hægt að gera kröfur, en jeg hefi engar kröfur gert enn sem komið er, og geri naumast fyr en fjárhagurinn batnar; en þá er það alveg víst, að kröfurnar frá þessum hjeruðum verða mjög ákveðnar, og þá á ekki að vera hœgt að neita þeim.

Jeg skal benda á annað til samanburðar. í ummælum vegamálastjóra um það, hvað árlegt viðhald þjóðveganna kostar, sjest, að það kostar að öllu samanlögðu 143000 kr. Það er ómaksins vert að athuga, hvernig þetta skiftist niður á landshlutana.

Á Suður- og Vesturlandi, eða aðallega á Suðurlandi, er viðhaldskostnaðurinn 132 þús. kr. árlega, en á öllu Norður- og Austurlandi einar 11 þús. kr.

Þegar háttv. þm. líta á þetta, vænti jeg, að þeir sjái, að það eru mörg önnur hjeruð, sem fremur mætti kalla olnbogabörn fjvn., og játa jeg þó, að þörfin sje nokkur þarna. Fjvn. lítur svo á, að ef það eigi að fara að gera þennan veg vel akfæran, þá geti svo farið, eins og oft vill verða, er nýir vegir eru lagðir gegn einhverju framlagi frá hjeruðunum, að þá hefir oftast orðið að lána úr ríkissjóði tillag hjeraðsins, sem svo hefir gengið fulltreglega að fá endurgreitt, ef það þá hefir fengist greitt. Fjvn. álítur því, að þetta hjerað geti komist af með þetta fyrst um sinn.

Þá er brtt. II. á þskj. 235, um læknisstyrk fyrir Kjósarbúa og aðra þar í grend. Nefndinni fanst þetta vera talsvert álitamál, en þar lá einnig annað mál fyrir sama eðlis, þ. e. um lækni til Ólafsfjarðar (brtt. 235,111), og ljet nefndin eitt og hið sama ganga út yfir báðar þessar brtt. Fjvn. leitaði álits um þessar till. báðar hjá landlækni, og áleit hann það t. d. ekki vera til neins, þótt fje fengist til þess að launa þennan lækni í Ólafsfirði, því að enginn læknir mundi fást til að fara þangað. Nú stæðu mörg betri — mjög sæmileg — læknishjeruð laus, sem enginn fengist til að sækja um. En hann játaði, að þörf væri þó að bæta eitthvað úr þessu, ef það væri hægt, og jeg vil því ekki beinlínis leggja á móti þessum brtt., ef hv. deild sýndist annað um þær, þrátt fyrir að fjvn. gæti eigi tekið þær upp. Það er svo ætíð um öll slík mál, að það verður erfitt að dæma þar í milli. Þeim, sem við þess háttar hjeruð eiga að búa, hættir jafnan við að lýsa þeim með alt of sterkum litum. Jeg neita því alls ekki, að það sje erfitt að ná í lækni í Ólafsfirði, en fjvn. hefir þó ekki orðið þess vör, að neitt stórtjón hafi hlotist af því ástandi, sem er á læknisskipun þar norður. Um lækninn í Hafnarfirði hefir nefndin heyrt það, að hann sje ófær til ferðalaga á hesti, og er það eina ástæðan fyrir þessari beiðni, en ókunnugt er nefndinni um, hvort þetta er með öllu rjett. Og ekki mun mjög mikið hafa verið gert að því að sækja lækni hingað til Reykjavíkur. Annars skal jeg fyrir mitt leyti ekki leggja sjerstaklega á móti þessu, og læt svo útrætt um það að sinni.

Háttv. 1. þm. N.-M. (HStef) talaði um ferðastyrk Ólafs læknis Lárussonar. Það lágu margar slíkar beiðnir fyrir fjvn., en hún gerði þær allar jafnar og tók enga þeirra upp. Að vísu hefir að undanförnu oftast verið í fjárlögunum styrkur til utanfarar handa læknum, en þar sem hann er ekki í gildandi fjárlögum, sá nefndin ekki ástæðu til að taka hann nú upp, og engar frekari ástæður mæla með því að veita þennan styrk en aðra, nema síður sje. Því sje það gert að fordæmi að veita styrkinn eftir á, getur hver læknir sem er siglt í því skyni.

Hv. 2. þm. Eyf. (BSt) talaði fyrir lækninum í Ólafsfirði, en jeg var búinn að lýsa áliti fjvn. á því, og get jeg því slept að tala um það frekar. En þá er og brtt. frá sama hv. þm. um fjárveitingu til sjúkrahúss á Siglufirði. Fjvn. var kunnugt um, að þessi fjárbeiðni lá fyrir þinginu 1923, og þegar fjvn. nú leitaði til landlæknis um álit hans á ýmsum fjárveitingum, sem við komu læknaskipun og heilbrigðismálum, var þessi styrkbeiðni frá Siglufirði ekki komin fram. Bar það því ekki vott um mikinn áhuga hjá Siglfirðingum að hafa ekki hreyft þessu máli aftur fyr en þetta. í öðru lagi munu áætlanir og teikningar til þessarar sjúkrahúsbyggingar hafa verið gerðar á árinu 1922, og eru þœr því orðnar óábyggilegar og þarf að breyta þeim á ýmsa lund. Og yfirleitt mun undirbúningur þessa máls ekki vera svo vel á veg kominn eins og krefjast ber og krafist er til þess að málaleitun þessi yrði tekin til greina. Fjársöfnun til þessa sjúkrahúss á Siglufirði er heldur ekki næg, þótt eitthvað hafi þegar safnast. Er það ekki svipað því nægilegt gegn því, sem krafist er af ríkissjóði, eftir venju í þeim efnum. Og enn má geta þess, að áætlun sú, sem bygt er á, myndi nú verða talsvert lægri, þar sem byggingarefni hefir nokkuð fallið í verði á þessum árum, og jafnvel vinnan líka. Fjvn. gat því ekki tekið þessa styrkbeiðni til greina, en samkvæmt till. landlæknis, sem sjerstaklega hefir látið uppi álit sitt um þetta mál, telur hann sjálfsagt, að þessi sjúkrahúsbygging verði tekin upp í fjárlög fyrir árið 1927. Mjer þykir rjett að taka það fram, að það virðist undarlegt, að undirbúningur þessa máls skuli ekki hafa verið betri en hann er, eins mikil þörf og þarna mun vera á því að koma upp sjúkrahúsi.

Hv. 2. þm. Rang. (KIJ) vjek að því í upphafi ræðu sinnar, að það hefði verið óþarfi af mjer að draga gerðir fyrv. stjórnar inn í framsöguræðu mína. En með þeim ummælum mínum hafði jeg alls ekki í hyggju að færa neitt að hv. þm. (KIJ). En jeg sá það, þegar jeg athugaði nefndarálit fjvn. frá síðasta þingi, að í yfirlitinu þar, sem gert var af hv. þm. Str. (TrÞ), voru sundurliðaðar hækkanir á lögbundnum liðum frá Öðrum hækkunum. Jeg hafði nú ekki gert þetta í yfirlitinu nú, og því taldi jeg rjett að taka það fram, og stendur það því algerlega fyrir minn reikning. í sjálfu sjer er það ekki það mikilsverðasta af breytingum í þeim efnum, þó núv. fjármálaráðherra hafi á þennan hátt gert fjárlagafrv. betur úr garði, því að meðferð nefndarinnar á því í fyrra hefði átt að geta kent þar hverjum ráðherra sem var. Enda veit hv. þm. það, að mjer er ekki gjarnt að æsa upp flokkaríg í ræðum, því að jeg tel málsatriðin eiga að vera þar einasta umtalsefni.

Háttv. 2. þm. Rang. (KIJ) talaði um tekjuáætlanir fjvn. og taldi þar gæta fullmikils bjartsýnis, en jeg þykist ekki þurfa að verja gerðir fjvn. í þessu efni frekar en jeg hefi þegar gert. Hinu er jeg honum samdóma um, að þegar framkvæmdirnar eru ekki áætlaðar meiri en hjer er, sje óhæfilega mikið fje, sem fer til skólahalds. Og jeg er sömuleiðis hv. þm. þakklátur fyrir, hvernig hann lítur á ýmsar hækkunartillögur, enda hefir hann ávalt verið góður liðsmaður, þar sem um hefir verið að ræða að halda útgjöldunum í skefjum.

Hvað snertir ræðu hæstv. atvrh. (MG), þá þarf jeg ekki neitt að athuga þar sjerstaklega, þar eð mjer virtist hann frekar vera samþykkur þeim brtt. fjvn., sem honum koma við.

Hvað áhrærir afstöðu fjvn. til þeirra brtt., sem komið hafa við 13. gr. fjárl.- frv., mun jeg jafnframt lýsa afstöðu nefndarinnar til þeirra og jeg svara hv. flm. þeirra. Annars virðist mjer hæstv. ráðh. líta velvildaraugum á flestar þessar brtt.

Hv. þm. Dala. (BJ) vjek nokkrum orðum til mín og fjvn. í annari ræðu sinni, um brtt. hans um Vesturlandsveginn, og get jeg vitnað til þess, sem jeg sagði í framsöguræðu minni um það efni. Þá vil jeg heldur ekki þrátta við hv. þm. Dala. um það, sem hann segir um skýrsluna um kostnað við vitana. Það er ekki rjett, að vitarnir sjeu ekki taldir meðal eigna ríkissjóðs, en samkvæmt ummælum vitamálastjóra er ekki eins mikil eign í þeim eins og háttv. þm. kunna að vænta. Vitamálastjóri segir þá suma mjög svo úrelta og lítils virði, og nefndi t. d. vitann á Siglunesi, sem notaðist við tæki, sem væru um 50 ára gömul eða meira. Það sjeu ekki svo fáir vitar, sem þurfi mikillar aðgerðar við. Hvað viðvíkur því, að of lítið fje sje ætlað til viðhalds vega, er því að svara, að fjvn. telur eftir tillögum vegamálastjóra þessa upphæð næga, og þó að hún hafi hækkað þennan lið um 5 þús. kr., svo að hann er nú orðinn 180 þús. kr., þá er það til sjerstakra viðgerða, sem ekki var búist við á þessu ári. Og samkvæmt upplýsingum vegamálastjóra má vænta þess, að þessi liður hækki á næstu árum upp í 200 þús. kr., en þá verða líka fleiri vegir komnir undir viðhald ríkissjóðs. En eins og nú stendur er þetta nægileg upphæð.

Þá vík jeg að loftskeytastöðinni; hæstv. fjrh. (JÞ) talaði um að fá umboð þingsins til að auka við loftskeytastöðina, ef samningar næðust ekki við Stóra norræna. Hvaða leið, sem hæstv. stjórn kann að fara í því máli, hygg jeg, að þetta ætti að nægja, að fá þannig löguð ákvœði inn í fjárlögin; en finnist hæstv. fjrh. ástæða til þess að fá frekara umboð frá þingsins hálfu, er það auðvitað ekki athugavert frá hálfu fjvn.

Háttv. þm. Dala. ber fram brtt. um 45 þús. kr. til sendiherrahalds í Kaupmannahöfn, og þó að þetta eigi í sjálfu sjer talsverðan rjett á sjer, er þó á hitt að líta, að síðasta þing feldi burtu fjárveiting til þessa embættis, vegna þess að það áleit, að komast mætti af með að láta þann mann fara með umboðsstörf vor, sem nú hefir þau á hendi. Síðasta þing lýsti því yfir, að það hefði hið besta traust á þeim manni til að leysa þessi störf sómasamlega af hendi, og jeg hygg, að þetta hafi reynst rjett. Nú veit jeg ekki til, að neitt það hafi borið við, sem ósanni þetta álit síðasta þings á hr. Jóni Krabbe, og jeg hefi hvergi orðið var við umkvartanir yfir því fyrirkomulagi, sem nú er á þessum málum. Sje þetta svo, þá finst mjer hálfóviðkunnanlegt að fara að breyta strax aftur því, sem gert var fyrir ári síðan. Þá var það skoðun margra hv. þm., að það væri í raun og veru nauðsynlegt að fella niður þessa fjárveitingu vegna örðugleika á fjárhag ríkisins, og fjvn. getur ekki sjeð annað en að mjög svipaðar kringumstæður sjeu ennþá ríkjandi að því er fjárhaginn snertir. Og án þess að vilja sjerstaklega mæla á móti nauðsyn þess að hafa sendiherra erlendis, held jeg mjer þó við það, sem ákveðið var í fyrra um þetta, og legg til, að við svo búið verði látið sitja, að minsta kosti þetta árið. Um hitt er jeg ekki svo fróður, að jeg treysti mjer að rökræða, hvort sendiherrar sjeu svo nauðsynlegir, að ekki verði komist af án þess að hafa þá, enda kemur það þessu máli minna við, þegar rætt er um það eitt, hvort haldið skuli við stefnu síðasta þings eða ekki. Hv. þm. Dala. kvaðst vænta, að nú yrði kapphlaup milli flokkanna hjer á þinginu um það að hrinda þessu máli í það horf, sem hann leggur til, að verði gert. Jeg álít fremur, að kappið verði á hina hliðina, að fella þessa brtt. hv. þm. Dala., eða þá að flokkarnir keppist hvor við annan um að taka þetta mál upp eða fella það niður aftur, eftir því, hver þeirra hefir völdin í það sinnið, og alla slíka kepni um þetta mál tel jeg mjög óheppilega. (BJ: Hví byrjar þá hv. þm. V.-Húnv. (ÞórJ) fyrstur á þessu „óheppilega“ kapphlaupi ?). Jeg er ekki að byrja neitt kapphlaup; jeg er að gera hið gagnstæða, — að vara við því, að hlaupið verði í kapp um þetta mál, en jeg er sömu skoðunar um það og jeg var í fyrra og álít þm. óhætt að fresta þessari fjárveitingu um eitt ár ennþá að minsta kosti.

Háttv. þm. Dala. vjek að einhverjum orðum Knud Berlins um þetta mál. Jeg man ekki eftir, að háttv. þm. hafi til þessa tekið svo mikið mark á orðum K. Berlins eða tillögum, enda hygg jeg, að sá maður hafi ekki verið svo hollur í garð okkar Íslendinga, að ástæða sje til þess að hafa hann að miklu marki. Hitt má vel vera, að Berlin fái því til vegar komið, að Danir kalli sendiherra sinn á burt hjeðan, og verði þá ekki við því gert. En ekki sýndist fara neitt vel á því, að við sendum okkar út, er þeir tækju sinn heim. Eitt af því, sem háttv. þm. Dala. sagði um sendiherra, var í þá átt, að mjög væri vandfarið með slíka menn. Hann sagði meðal annars, að það gæti oltið á mörgum miljónum fyrir okkur, að sendiherrann færi sendiferðir fyrir stjórnina á rjettum tíma. Þetta er atriði, sem stjórnin verður að bera ábyrgð á. En sje þetta rjett, þá sýnist geta orðið stórskaði jöfnum höndum, hvort sem sendiherrann er til eða ekki, og verður þá vant að gera þar upp á milli. Jeg hygg þá betra að hafa engan sendiherra en að eiga þess háttar mistök á hættu.

Háttv. þm. Ísaf. (SigurjJ) talaði um álit sjútvn. um vitabyggingar og nefndi vita, sem hann taldi meiri þörf vera á að byggja heldur en landtökuvitann. Jeg hefi áður getið um erindi þessu viðvíkjandi frá nokkrum þm., sem lá fyrir nefndinni; en jeg tek það aftur fram, að fjvn. lætur það laust og óbundið, hvað stjórnin gerir í þessu efni. Þó fjvn. hafi mælt með, að byrja ætti á landtökuvitanum á Dyrhólaey, getur stjórnin samt notað þetta fje á hvern háttinn, sem hún kýs heldur.

Þá var og brtt. þessa sama hv. þm. um endurgreiðslu til sjúkrahússins á Ísafirði á verðtolli á ýmsu til sjúkrahússins. Þetta kom að vísu fyrir nefndina, en því fylgdu engar upplýsingar um málið. Það var aðeins farið fram á að fá þessa upphæð endurgreidda. Þar sem þetta lá þannig fyrir og stjórnin áleit þetta vera sjer óviðkomandi, sá nefndin ekki ástæðu til að sinna því, enda var þessi verðtollur innheimtur eftir gildandi lögum. Ekki vissi nefndin heldur nema hjer gæti verið að ræða um aðra en sjúkrahúsið sjálft, sem nytu eftirgjafarinnar.

Háttv. 2. þm. Árn. (JörB) hefir mælt með brtt. sinni um hækkun á styrk til umbúðasmiðs. Nefndin hefir gengið inn á, að rjett sje að styrkja þetta fyrirtæki, en hvort hún hefir gengið nægilega langt, verður altaf deilt um; annars er hjer um svo lítið að ræða, að ekki tekur umþráttun.

Þá er brtt. hv. sama þm. um Biskupstungnabrautina. Hún er frá mínu sjónarmiði hliðstæð Vaðlaheiðarveginum, sem nefndin tók upp. Vegamálastjóri taldi og báða þessa vegi hliðstæða; hann lagði ekki til, að þeir yrðu teknir upp í fjárlögin, en setti báða í 1. flokk vega, sem vinna ætti að á næstu árum og taka upp í fjárlög 1927. Hjer er líka um svo litla upphæð að ræða, sem ekki mundi hrökkva nema til stuttrar bæjarleiðar.

Þegar þess er gætt, að 14 km. kosta 130 þús kr., sýnist lítill ávinningur fyrir hjeraðið, þó að það fái 10 þúsund í veginn nú, hjá því að fá þá stærri upphæð síðar. Annars er það stefna að minsta kosti meiri hluta fjvn., að fara sem mest eftir áliti og tillögum vegamálastjóra og taka ekkert nýtt upp, sem hann hefir ekki lagt til.

Háttv. 3. þm. Reykv. (JakM) mintist á tekjuáætlunina og þótti hún enn of lág. Um það skal jeg ekkert þrátta, og væri gott ef það rættist, að hún væri of lág. En spursmál er, hvort þær vonir eigi að leiða þingmenn til þess að taka upp fleiri fjárveitingar en fjvn. leggur til.

Tillaga háttv. 3. þm. Reykv. um framlag til byggingar landsspítala er há, og getur ekki eftir eðli sínu verið öðruvísi en há. En hvað sem um það er, þá er síður en svo, að nefndin viðurkenni ekki, að hjer sje um nauðsynjamál að ræða, þó að hún hinsvegar sjái sjer ekki fært að leggja til, að þetta fje verði veitt í þetta sinn. Líka hafði nefndin heyrt, að fje það, sem safnast hefir til landsspítalans, ætti ekki að nota til að byggja hann með, heldur til annars, þegar hann væri kominn upp. En nú hefir háttv. þm. upplýst, að fje þetta eigi að nota til byggingarinnar með tilskildu framlagi frá ríkissjóði.

Að nefndin treystir sjer ekki til að leggja með fjárveitingu þessari, er í og með fyrir þá sök, að nú um langt skeið hefir heilbrigðisstjórnin talið, að viðbótarbygging við geðveikrahælið á Kleppi ætti að sitja fyrir öllum framkvæmdum á því sviði, því að þar væri þörfin mest. Nauðsyn þessi byggist á því, að það er þegar orðið ókleift fyrir sum hjeruð að kosta sjúklinga, sem komast þurfa á Klepp. Þannig eru til dæmi, sem jeg þekki, að borga hefir þurft upp að 30 kr. á dag með einum sjúklingi, sem ekki var hægt að fá rúm fyrir á Kleppi. Með þessu móti þarf því ekki nema einn sjúkling til þess að gera heilt sveitarfjelag ósjálfbjarga, ef ekki verður úr þessu bætt.

Af þessum ástæðum áleit nefndin því, að ekki gæti til mála komið að veita fje til nokkurra sjúkrahúsbygginga á undan Kleppsspítala. En nú lá ekki einu sinni fyrir nefndinni beiðni um fje til þess, og stjórnin hafði ekki treyst sjer til að taka það inn í fjárlagafrv.

Eins vil jeg geta þess, að komin er fram í þinginu þáltill. í þessa átt, þar sem Kleppsspítali er tekinn jafnframt. Er þar bygt á því, sem heilbrigðisstjórnin hefir marglýst yfir, að viðbótarbyggingin við Kleppsspítala eigi að ganga fyrir öllum slíkum byggingum. Mætti því vel bíða og sjá, hvernig henni reiðir af.

Háttv. 1. þm. S.-M. (SvÓ) þarf jeg litlu að svara. Till. hans lá ekki fyrir nefndinni, og því hefir hún engar ákvarðanir um hana getað tekið. Taki háttv. þm. hana því ekki aftur nú, greiðir hver nefndarmanna atkvæði um hana eftir því, sem hann lítur á.

Þá kem jeg að háttv. þm. V.-Sk. (JK). Hann gerði fyrirspurn til nefndarinnar um það, hvor ekki mætti skoða upphæðina til læknisbústaðarins í Vík sem áætlunarupphæð. Þessu svara jeg fyrir hönd nefndarinnar neitandi, því að hún hefir sett upphæðina eftir því, sem telja mátti hæfilegt til þess að koma upp læknisbústað og sjúkraskýli fyrir. Hvað snertir kostnaðaráætlun um byggingu sjúkraskýlanna á Hjaltastað og Vík í Mýrdal, þá hefir landlæknir fallist á hana með þeirri athugasemd, að þar sje alt miðað við Reykjavíkurverð. Nefndinni þótti hún því of há, vegna þessa. Hefir hún því dregið frá upphæðinni, sem upphaflega var 27000 kr., 3000 kr., af því að henni er fullkunnugt um, að vinnulaun o. fl. er að miklum mun ódýrara upp til sveita heldur en hjer í Reykjavík. Og einnig hefir byggingarefni lækkað í verði síðan áætlunin var gerð.

Telur hún því fyllilega trygt, að þessar upphæðir geti ekki reynst of lágar.

Nefndin hefir því aldrei ætlast til, að þessar upphæðir væru áætlunarupphæðir. Síður en svo. Og vill nefndin með þessu stuðla að því, að allar áætlanir sjeu gerðar eins ábyggilegar eins og hægt er. Er hún því eindregið á móti öllum kröfum, sem koma eftir á um viðbótarstyrki, þegar búið er að byggja.

Því að ef tekin væri upp sú stefna að greiða slíkar kröfur, mundu margar beiðnir koma, sem erfitt yrði að gera sjer grein fyrir, hvort fullan rjett ættu á sjer.

Háttv. þm. N.-Ísf. (JAJ) mintist á till. sína um styrk til þess að halda uppi gistingu fyrir ferðamenn á Arngerðareyri. Nefndin leit öðruvísi á þessa beiðni en ýmsar aðrar, sem telja má hliðstæðar. Það hefir að vísu verið venja að veita sáralitla viðurkenningu þar, sem svo hefir hagað til, að nauðsyn hefir verið á að halda uppi gististað. En jeg skal ekkert um það segja, nema gengið hafi verið of langt í því. Það er vitanlega alveg satt, að á Arngerðareyri er endastöð Djúpbátsins, og þangað koma því margir. En þar sem þar er nú verslunarstaður, bæði kaupfjelag og önnur verslun, er mjög líklegt, að þar rísi upp fleiri hús, sem ferðamenn geti einnig fengið gistingu í. Einnig gæti komið til greina, ef mjög mikill ferðamannastraumur er þarna, að þá rísi þar upp hreint og beint gistihús. Nefndin getur því ekki fallist á að mæla með till. þessari. Hinsvegar leit hún svo á, að gististaðurinn þarna ætti að vera undir Þorskafjarðarheiði, því að það er fjölfarinn fjallvegur, og vilja því ferðamenn, sem ætla yfir hana, helst komast sem næst henni, heldur en gista á Arngerðareyri. Með því stytta þeir töluvert dagleiðina yfir heiðina. Af þessum ástæðum fanst nefndinni þessi beiðni ekki vera fullkomlega hliðstæð öðrum þesskonar beiðnum.

Þá kem jeg að háttv. þm. Ak. (BL). Hann biður um styrk til þess að koma upp heilsuhæli fyrir berklaveikt fólk norðanlands. Það er svo með þessa till. eins og hinar aðrar stærri tillögur, að nefndin getur ekki mælt með henni, af þeim ástæðum, sem þegar hafa verið teknar fram gegn till. háttv. 3. þingm. Reykv. (JakM) um fje til byggingar landsspítala í Reykjavík. Nefndin viðurkennir eigi að síður, að hjer sje mikið nauðsynjamál á ferðinni, en vill fresta því þangað til betur árar, því að henni virðist, að á engan hátt sje erfiðara þarna í þessu efni en annarstaðar.

Jeg get ekki stilt mig um að minnast á álit norðlenskra lækna um nauðsyn heilsuhælisins. Þeir játa vitanlega allir, að einum undanteknum, að nauðsyn sje á að fá hælið. En þessi eini þeirra telur, að sjúkrahúsin í hjeruðunum eigi að sitja fyrir. Þessi læknir er Jónas Kristjánsson á Sauðárkróki, sem hiklaust mun mega telja einn fremsta lækni norðanlands. Þetta gefur mjer tilefni til að minnast á það, sem lengi hefir fyrir mjer vakað, og er álit margra góðra lækna, að sjúkrahúsin í hjeruðunum eigi að ganga fyrir öllu. Þau eigi að stækka og fullkomna svo, að ekki gerist. þörf að leita út fyrir hjeruðin með sjúklingana. Vinst þar margt við, og sjerstaklega er það fjárhagslegur styrkur fyrir hjeruðin.

Það er vitanlega rjett, að eins og sakir standa nú eru tæringarsjúklingar meira og minna í hverju sjúkrahúsi. Yrðu þeir því hinir fyrstu sjúklingar, er kæmu í þetta heilsuhæli. Það má sjálfsagt gera ráð fyrir, að þeir fengju að einhverju leyti betri aðbúnað en hægt er að veita þeim í sjúkrahúsunum nú. En hitt er ekki hægt að staðhæfa, að það, eftir þeirri reynslu sem fengin er, skifti svo miklu máli, að knýjandi nauðsyn sje að koma hælinu upp á næsta ári. Að öllu þessu athuguðu og ennfremur því, að undirbúningur er hjer ekki eins góður og æskilegt væri, treystir nefndin sjer ekki til að mæla með því, að þessi fjárhæð verði veitt.

Þá talaði hv. flm. till. (BL) um, að tilvonandi læknir við hælið mundi geta þjónað næstliggjandi hreppum. Jeg er vitanlega ókunnugur þarna norður frá, en ólíklegt þykir mjer það, því að jeg býst við, að hann hafi nógu mikið starf við hælið, og geti því alls ekki þjónað öðrum hjeruðum.

Háttv. 2. þm. Reykv. (JBald) vjek máli sínu til mín. Fyrst mintist hann á verðtollinn og vildi gefa mjer sök á því, hvernig hann væri. En það var einmitt hv. þm. sjálfur, sem kom glundroðanum á um það, hve lengi hann skyldi gilda. Hann setti og út á það, að jeg hefði sagt, að þjóðin væri samþykk þessari tollhækkun. Þetta getur hv. þm. ekki vefengt. Því hvarvetna þar, sem jeg þekki til, er þjóðin ánægð með stefnu síðasta þings í fjármálum. Óánægjan með verðtollinn er því ekki fólgin í því, að hann þyki ósanngjarn sem tollur, heldur hinu, að framkvæmd á innheimtu tollsins hafa margir felt sig illa við, sem liggur aðallega í því, að þær vörutegundir eru ekki taldar sjerstaklega upp, sem hann hvílir á, eða þá þær taldar upp, sem hann hvílir ekki á. Jeg býst því við, að jeg hafi farið þarna með meiri þjóðarsannleika en hann.

Háttv. þm. Str. (TrÞ), meðnefndarmaður minn, á hjer eina brtt., um húsabótastyrk til ábúandans í Grænumýrartungu, sakir gestnauðar. Meiri hl. nefndarinnar gat ekki aðhylst þessa tillögu, af þeim ástæðum, sem hjer skal greina. Það er aldrei nema rjett, sem pósturinn tekur fram í meðmælum með umsókninni, að það sje gott að geta hvílt sig og hesta sína í Grænumýrartungu. En aftur á móti tekur hann ekki fram, að hann hafi gist þar nema einu sinni á 20 árum. Þetta sýnir ljóslega, að gistingarstaðar er þar ekki þörf, enda er stutt þaðan til ágætra bæja, t. d. Hrútatungu, Staðar, Mela og Óspaksstaða, sem pósturinn venjulega gistir á. Alt öðru máli er að gegna með gistingarstaðinn fyrir sunnan Holtavörðuheiði. Ef beiðni hefði því legið fyrir þaðan, myndi nefndin hafa orðið hikandi, því að þaðan er bæði löng og torfarin leið til næsta bæjar. Þarf því ekki að vera vont veður til þess, að ófært sje fyrir ferðamenn að komast lengra, enda gista flestir þar.

Háttv. flm. till. (TrÞ) gat þess, að það myndi vera efnalítill maður, sem byggi þarna. Inn á það vil jeg ekkert fara. En jeg hefi heyrt, að það væri duglegur maður við sæmileg efni. Meiri hl. nefndarinnar getur því ekki fallist á, að þarna sje svo brýn nauðsyn að hafa gististað, að veita eigi fje úr ríkissjóði til þess.

Þá á jeg aðeins eftir hv. þm. V.-Ísf. (ÁÁ). Honum þarf jeg litlu að svara. Nefndin hefir enga símalínu tekið upp. Og línan sem hann vill taka upp, frá Mýrum að Núpi, er einu sinni ekki í símalögunum. En þrátt fyrir þetta hefir nefndin óbundin atkvæði um tillöguna, og skal jeg ekki frá mínu sjónarmiði hafa frekar á móti henni.

Þá vil jeg víkja nokkrum orðum að samgöngumálanefnd. Fjvn. vissi ekkert um starf hennar viðvíkjandi samgöngum á sjó, og bjóst því ekki við tillögum frá henni fyr en við 3. umr. Jeg hefi því ekki nægilega sett mig inn í þessar tillögur, enda var það venja, að fjvn. væru sendar þær til umsagnar um fjárhagsatriðin. Það hefir líka orðið venjan á síðustu þingum, að samgöngumálanefnd hefir öll verið klofin og ósammála, og er því meiri ástæða þar fyrir að athuga vel tillögur hennar. Jeg hefði því fyrir mitt leyti ekki óskað atkvgr. fyr en við 3. umr.