16.04.1925
Neðri deild: 57. fundur, 37. löggjafarþing.
Sjá dálk 1473 í B-deild Alþingistíðinda. (725)

12. mál, fiskifulltrúi á Spáni og Ítalíu

Frsm. (Jakob Möller):

Jeg finn raunar ekki ástœðu til þess að svara aths. háttv. þm. V.-Ísf. (ÁA), því að hann sagði það eitt, að jeg hefði sagt ýmislegt, en hann hefir hvorki fyr nje síðar svarað neinu af því, sem jeg hefi sagt, með nokkrum rökum. Hann hefir ekki afsannað, að ekki sje öðruvísi ástatt með þennan fulltrúa en sendimenn annara þjóða, heldur hefir hann viðurkent það. En hvernig hann hyggur að hrekja það, sem jeg hefi sagt, með því að viðurkenna það, það er „logik,“ sem er víst alveg sjerstök fyrir þennan háttv. þm. (ÁÁ). Það eina, sem hann í rauninni færði fram, var það, að þessi sendimaður þyrfti minni laun af því að hann hefði enga „representation“, en viðurkendi hinsvegar, að hann hlyti að þurfa að fá meiri laun af því að hann hefði ekkert fast aðsetur. Mjer er nú spurn: Er háttv. þm. (ÁÁ) viss um, að maðurinn geti sloppið við „representation“ ? Jeg er ekki viss um það. Og það þarf meira til að sannfæra mig en segja út í loftið: Hann þarf enga „representation“ að hafa. Það er þó gefinn hlutur, að maðurinn þarf að hafa allmikil viðskifti og samninga við aðra, og jeg skil ekki, hvernig menn geta hugsað sjer, að hann hafi þessi viðskifti og samninga við aðra án þess að kosta nokkru til sem „representation“. Nei, jeg ætla, að meiri líkur sjeu til, að hann hafi talsverða „representation“. Framsláttur háttv. þm. (ÁÁ) var alveg út í hött.

Hv. þm. gerði mikið úr, hve mikla þýðingu þetta hefði sem utanríkismál og að vel þyrfti að athuga, að byrjunin væri góð. Ekki neita jeg því, en þess ber að gæta, að svo er ekki, sem hjer sje verið að binda ríkinu neinn voðabagga um aldur og æfi, þótt ætlast sje til þess, að það borgi 1/3 af launum þessa manns. Hinsvegar er það viðurkent af öllum, að starf þessa manns geti haft svo mikla þýðingu fyrir ríkið, að það skifti miljónum árlega, hvort það verður ríkara eða fátækara, en um það, sem verið er að ræða, kostnaðinn við för sendimannsins — hann skiftir náttúrlega minstu af því fje. Það er óviturlegt að horfa í hann.