16.04.1925
Neðri deild: 57. fundur, 37. löggjafarþing.
Sjá dálk 1481 í B-deild Alþingistíðinda. (729)

12. mál, fiskifulltrúi á Spáni og Ítalíu

Tryggvi Þórhallsson:

Örfá orð. Það var gaman, að hæstv. ráðherrar spruttu upp hvor af öðrum til að sanna samlyndi sitt. Má vera, að þeir geti gert það í orði, en jeg ætla, að enginn hv. þdm. gangi þess dulinn, að þeir hafa fyllilega ólíkar skoðanir í þessu efni, þótt þeir kynoki sjer við að játa það. Annars er jeg hissa á, að jafnskýr maður og hæstv. fjrh. (JÞ) er skuli halda því fram, að skoðanirnar sjeu að stangast í höfðinu á mjer, þótt jeg segi, að „principielt“ megi skipa bankanum að gera þetta, en það sje samt rangt að gera það. Hæstv. fjrh. (JÞ) veit, að þetta er ekkert ósamræmi. Hæstv. atvrh. (MG) segir, að hægt sje að afnema lögin, en hann vill ekki benda á afleiðingarnar að því er snertir manninn, sem stöðunni gegnir. Hvernig á að losna við hann? Jeg er viss um, að tugir, já, hundruð radda hrópa gegn því, að honum yrði kastað út á gaddinn og honum engu bættur stöðumissirinn. Þess vegna á að ákveða strax, hve lengi lögin eigi að gilda.

Hæstv. atvrh. (MG) lýsti skýrt yfir, að upphæðin ætti ekki að koma inn í fjárlögin. Vill hann þá ekki bera fram brtt. við 26. gr. um að þetta skuli ekki koma gjaldamegin? Annars er enn nógur tími til þess að setja þetta í fjárlögin fyrir 1926 — eða heldur hæstv. ráðherra, að konungur neiti að staðfesta lögin?

Hvers vegna má þessi upphæð ekki standa í fjárlögunum, ef hún á að greiðast hvort sem er Jeg held því fram, að annaðhvort eigi þetta að standa í fjárlögum eða ekki greiðast.