17.02.1925
Neðri deild: 9. fundur, 37. löggjafarþing.
Sjá dálk 1593 í B-deild Alþingistíðinda. (815)

29. mál, aðflutningsbann á áfengi

Forsætisráðherra (JM):

í greinargerð frv. þessa er gerð allítarleg grein fyrir þeim breytingum, sem ætlast er til, að gerðar verði á núgildandi bannlögum, og vona jeg, að þær þyki ekki óskynsamlegar.

Aðaláherslan er fyrst og fremst lögð á það að taka ómjúkum tökum á þeim, sem gera það að atvinnu að flytja inn og selja áfengi, því að svo munu flestir líta á, að slíkum mönnum eigi ekki að hlífa. Um útfærslu landhelgislínunnar vona jeg, að ekki verði skiftar skoðanir. En um það get jeg látið vera að tala nú, því að í greinargerðinni fyrir frv. þessu hygg jeg, að það atriði sje nægilega skýrt.

Þá er eitt ákvæði í frv. þessu, sem jeg hygg vera í samræmi við almenna heilbrigða rjettartilfinningu, en það er, að þeir menn, sem ekki geta beinlínis talist framkvæma brotin, heldur eru aðeins hlutdeildarmenn, sleppi ekki við refsingu. En eins og lögin eru nú, er í almennum lögreglumálum varla hægt að fá þeim refsað, en slíkir menn eru oft í raun og veru miklu sekari en þeir, sem verkið framkvæma.

Að vísu eru reglur þær, sem hjer eru teknar upp, ekki eins víðtækar og í hegningarlögunum, en eigi að síður hygg jeg, að þær taki sæmilega yfir það, sem til er ætlast, svo að þeir geti ekki sloppið, sem hegninguna eiga skilið.

Jeg vona nú, að hv. allshn. taki mál þetta til nákvæmrar yfirvegunar, og er jeg mjög fús til samvinnu við hana, ef henni þykir þörf að breyta einhverju frekara.

Jeg get hugsað mjer, að sumir telji, að hækka megi meir sektarákvæðin við fyrsta brot, en það tel jeg vafasamt.

Loks vil jeg benda á ákvæði, sem jeg tel hafa mikla þýðingu, en það er, að skip, sem flytur hingað ólöglega áfengi, svo að telja megi það verulegan hluta af farmi þess, megi gera upptækt með dómi. Það mætti segja, að rjettara væri að ákveða, hve mikill hluti farmsins þyrfti að vera áfengi til þess, að gera mætti skipið upptœkt En jeg tel heppilegast að hafa ákvæðið eins og það er, enda ekkert athugavert að láta það koma undir mat dómarans.