17.02.1925
Neðri deild: 9. fundur, 37. löggjafarþing.
Sjá dálk 1595 í B-deild Alþingistíðinda. (816)

29. mál, aðflutningsbann á áfengi

Tryggvi Þórhallsson:

Jeg ætla aðeins að láta örfá orð fylgja frumvarpi þessu í þetta sinn.

Jeg efa ekki, að það geti orðið að ýmsu leyti til bóta. En jeg veit hinsvegar, að mikill hluti bannmanna í landinu er óánægður með það og telur, að hjer sje ekki gengið nógu langt um að bæta bannlögin. Má þar til nefna, að þrátt fyrir þessa breytingu er læknum heimilt að gefa út áfengislyfseðla. Er þó margsannað, að þeir hafa stórkostlega misnotað þetta leyfi. Og einmitt nú nýlega eru tvö dæmi alkunn orðin, sem áþreifanlega sanna þetta. Þá má í annan stað minna á samþykt læknaþingsins á Akureyri síðastl. sumar, þar sem læknarnir sjálfir krefjast þess, að heimild þessi sje af þeim tekin.

Að lokum vil jeg tjá háttv. allshn., sem eflaust fær mál þetta til meðferðar, að jeg mun síðar koma fram með ítarlegar tillögur um breytingar á bannlögunum, því að jeg hefi, ásamt öðrum þingmanni, fengið uppkast að frv. í þessa átt frá Stórstúku Íslands. En ennþá höfum við ekki fastráðið, hvort við flytjum þœr sem sjerstakt frv. eða afhendum allshn. þær til athugunar með frv., er hjer liggur fyrir.

Vænti jeg svo, að háttv. nefnd fari ekki með þetta frv. eins og tvö slík frv., er hún hafði til meðferðar í fyrra og afgreiddi ekki fyr en rjett fyrir þinglok.