18.04.1925
Neðri deild: 59. fundur, 37. löggjafarþing.
Sjá dálk 1628 í B-deild Alþingistíðinda. (843)

29. mál, aðflutningsbann á áfengi

Frsm. meiri hl. (Jón Baldvinsson):

Jeg á hjer með öðrum hv. þdm. brtt. á 2 þskj. Önnur þeirra, brtt. á þskj. 345, er aðeins formsatriði, en brtt. á þskj. 344 er breytingaratriði, og fer fram á tvent. Fyrra atriðið er að hækka sektir í 500–5000 kr., og er það í samræmi við 7. gr. stjfrv. En hitt fer fram á að svifta lækna rjetti til þess að gefa út lyfseðla á áfengi, er þeir hafa brotið tvisvar. Get jeg ekki skilið í öðru en að þeir, sem á annað borð vilja að bannlögin haldist, hljóti að fallast á það, að læknar þeir, er þannig misnota þennan rjett sinn, verði sviftir rjetti til þess að gefa út slíka lyfseðla. Benda má á það, að allmargir læknar hafa verið kærðir fyrir að hafa misnotað þennan rjett lækna til að gefa út lyfseðla á áfengi, og í einu læknishjeraði hafa tveir læknar nýlega verið kærðir fyrir að hafa, hvort um sig, gefið út slíka seðla, ekki svo tugum eða hundruðum skiftir, heldur jafnvel svo þúsundum skiftir á einu ári. En sektir þær, sem í lögunum eru lagðar við, ef brotið er á þennan hátt, eru svo lágar, að þær beinlínis egna þá, sem svo eru gerðir, til lögbrota.