30.03.1925
Neðri deild: 46. fundur, 37. löggjafarþing.
Sjá dálk 474 í B-deild Alþingistíðinda. (86)

1. mál, fjárlög 1926

Sveinn Ólafsson:

Það er ekkert sjerstaklega ánægjulegt að eiga brtt. við fjárlögin að þessu sinni, því að það virðist svo, sem álíka hátt sje gert undir höfði allra sanngjarnlegustu kröfum og þeim, sem lítið gildi hafa. Þetta er í raun og veru nokkuð eðlilegt, þegar litið er til þess, að öll þau sjálfsögðu útgjöld verður að skera við nögl. Með þetta fyrir augum hefi jeg líka farið svo skamt, sem jeg sá mjer fært, og yfirleitt neitað að bera fram brtt. þær flestar, sem jeg hefi verið beðinn um að flytja. Jeg á þó við þennan kafla fjárlaganna eina till., sem jeg tel mikils um vert. Að vísu er nafn mitt tengt við 2 aðrar till., en þær eru minni háttar. Þessa aðaltill. ber jeg fram ásamt hv. þm. N.-M. (ÁJ og HStef). Hún er 25. liður á þskj. 235. Við förum fram á 60 þús. kr. fjárveitingu til viðbótarbyggingar við skólann á Eiðum. Jeg veit, að þessi upphæð vex mörgum hv. þm. í augum. En jeg skal reyna að sýna fram á það, að hún er fyrst og fremst það allra lægsta, sem hún getur verið, og í öðru lagi, að Alþingi hefir bæði lagalega og siðferðilega skyldu til að sinna henni. Samkv. lögum nr. 36 frá 1917 var alþýðuskólinn á Eiðum stofnaður, jafnframt því sem Múlasýslur afhentu ríkissjóði til eignar hina svo nefndu Eiðaeign, þ. e. a. s., skólann með öllu, sem honum hafði fylgt, en það var höfuðbólið Eiðar ásamt 4 öðrum jörðum, bústofn skólans, gripir allir, húsgögn, búsgögn, verkfæri og bókasafn gamla búnaðarskólans. Afhendingin, sem ekki fór fram fyr en í fardögum 1918, var því skilyrði bundin, að ríkissjóður um leið og hann tók á móti eigninni kostaði framvegis vel útbúinn æðri alþýðuskóla annaðhvort á Eiðum eða annarsstaðar í Múlaþingi. Eignin var metin, þegar hún var afhent, á tæpar 90 þús. kr., og hún var vissulega ekki hátt metin, því það voru yfir 80 jarðarhundruð, sem eigninni fylgdu. Bústofninn var eitthvað á 4 hundrað fjár og milli 10 og 20 nautgripir og hross. Auk þessa fylgdi auðvitað skólahúsið sjálft, sem nýlega var bygt, og þau önnur hús, sem jörðinni hafa fylgt. Voru þau öll sæmilega á sig komin og töluvert mikils virði. Það var nú auðvitað engin áhersla lögð á það, þegar eignin var afhent, að fá hana metna háu verði, vegna þess, að hún var þá fengin í hendur ríkissjóði til eignar og gengið að því vísu, að skilorðinu fyrir afhendingunni yrði fullnægt. Var líka þá þegar gerð tilraun af hálfu stjórnarinnar til að efna skuldbindingu þessa, stigið fyrsta fótmálið, bæði með því að koma kenslu þarna á og skipa þar dugandi kennara, og í öðru lagi með því að undirbúa byggingu á stóru og vönduðu húsi, því að þá þegar var sýnilegt, að gamla skólahúsið var of lítið, og það því fremur, sem skipa þurfti tvo kennara, sem eftir lögunum áttu rjett á bústað í skólanum.

Árið 1919 komu út lög um húsabyggingar ríkisins, og var þar ákveðið meðal annars að reisa þetta skólahús það allra fyrsta. Rjett á eftir var af húsameistara ríkisins gerð áætlun um kostnaðinn við að reisa skólann og aðrar opinberar byggingar. Eftir áætlun hans átti þessi bygging á Eiðum að kosta 180 þús. kr.

Það var þá þegar farið að afla efnis til byggingarinnar, ekið að sandi og möl og lagður vegur þar, sem þurfti að fara með flutninginn. Var verkið undirbúið á ýmsan hátt, svo að hægt væri að hefjast handa með sjálfa bygginguna 1921. Að vísu var lán það tekið, sem heimilað var 1919 til húsabygginga ríkisins, innanríkislánið svonefnda. Mun það hafa numið 2 milj. kr. og átti að ganga til allra þeirra bygginga, sem ríkið, eftir nefndum lögum, ætlaði að reisa. En ekkert af því hefir gengið til fullnustugerðar á þessu fyrirheiti um byggingu á Eiðum, nema að því leyti, sem goldinn var malaraksturinn 1921. Hinsvegar hefir láni þessu verið varið sumpart til annara bygginga, sem ríkið þurfti að annast, svo sem skólans á Hvanneyri og að nokkru leyti hælisins á Kleppi. En megin fjárins fór alt aðrar leiðir, einkum þó, að því er jeg hygg, í Flóaáveituna. Síðan hefir þess þráfaldlega verið leitað að fá fje til skólabyggingarinnar, en það hefir altaf strandað á sama skerinu, fjárþurð og erfiðleikum ríkissjóðs, eða — rjettara sagt — skólinn hefir verið látinn sitja á hakanum fyrir öðrum framkvæmdum og bíða. Verður ekki annað sagt en að Austfirðingar hafi beðið með þolinmæði eftir efndum byggingarloforðsins til þessa dags og lítt kvartað. Afleiðingin af því, að ekki tókst að byggja skólann 1921, er meðal annars sú, að um það helmingur umsækjenda hefir orðið að hröklast frá skólanum á hverju ári, og stundum hefir ekki helmingur komist að. Skólinn starfar í tveim deildum, og hefir aðeins með mestu naumindum verið hægt að koma að í báðum deildum röskum 40 nemendum. En húsþrengslin hafa verið svo átakanleg, að annar kennarinn hefir orðið að rýma skólann, og hefir hann haft bústað í gróðrarstöðvarhúsi kippkorn frá Eiðum. Þannig hefir þetta gengið um 6 ár og um það helmingur umsækjenda orðið frá að hverfa árlega, og þeir látnir sitja fyrir árið eftir, hafi þeir þá ekki verið komnir út í buskann og búnir að leita annara staða.

En önnur hlið er líka á þessu máli. Þar er í raun og veru ekki einungis um menningarmál að ræða fyrir Austfirðinga, heldur er þetta á sinn hátt líka heilbrigðismál og skólabyggingin óumflýanleg. Það hefir sem sje sýnt sig hvað eftir annað, í 3 vetur er mjer óhætt að fullyrða, að þarna hefir verið óvenjulega kvillasamt meðal nemenda, og jeg hygg, að húsþrengslin eigi ekki svo lítinn þátt í því. Fólkinu hefir verið þjappað þarna saman vegna þrengslanna, svo að tæpast getur talist forsvaranlegt.

Með þetta fyrir augum, sem jeg hefi nú að nokkru drepið á, verð jeg að vænta þess, að þingið muni nú vilja uppfylla það loforð, sem það gaf 1917 og endurnýjaði 1919.

Við flm. förum hjer fram á aðeins 1/3 af því, sem 1920 var ætlað til þessarar byggingar, og það er gert í samráði við skólastjóra og með mesta sparnað fyrir augum. Að farið er fram á svo lítið nú, kemur meðfram til af því, að hugmyndin er að breyta til frá því fyrirkomulagi, sem húsameistari hafði fyrir augum 1920, og reisa viðbót við eldra húsið, í stað þess að reisa sjerstakt hús. Hinsvegar eru nú ástæður breyttar orðnar. Á tímabilinu, sem liðið er síðan, hefir komið upp í Þingeyjarsýslu allstór og myndarlegur alþýðuskóli, sem gerir það að verkum, að ekki þarf að hugsa fyrir eins stórum skóla þarna austur frá. Þess vegna má láta sjer lynda minni byggingu og ætla, að aðsóknin verði ekki eins vítt og breitt að og verið hefir.

Húsameistari hefir eftir ósk minni gert áætlun um kostnað við 10 metra viðauka. Við skólahúsið gamla, sem er tvílyft, vandað steinhús, en lítið. Telur hann kostnað við hana um 70 þús. kr. alls. Ætla jeg samt, að 60000 kr. geti nægt, bæði vegna þess, að nú þegar er búið að afla nokkurs efnis á staðinn, og einnig vegna þess, að gera má ráð fyrir nokkru lægra verkkaupi þar eystra en húsameistari miðar við hjer í Reykjavík.

Mjer finst út af því, sem þegar hefir verið tekið fram að það verði að ætlast til þeirrar sanngirni af háttv. þingdeildarmönnum, að þeir samþykki brtt. mína, þó að háttv. fjvn. hafi ekki fundið ástæðu til að taka hana upp. Jeg hefi skilið hv. fjvn. svo, að þótt meiri hl. nefndarinnar sje ekki með till., þá hafi þó nefndarmenn flestir óbundin atkvæði um hana. Nú er líka um lækkaða upphæð að ræða, 60 þús. kr. í stað 70 þús. kr., sem fyrir nefndinni lá.

Jeg hirði ekki að lýsa því nákvæmlega. hversu ill áhrif það hefir og mun hafa, ef lengur dregst að koma þessu skólahúsi upp, því að það munu allir sjá og skilja, sem á annað borð eru hlyntir þeirri stefnu að hafa skólana í sveitum fremur en í kauptúnunum. Að hafa skólana í sveitunum miðar að því að spekja unga fólkið í sveitinni, sem ella mundi flæmast á brott og leita til sjávarþorpanna, er það getur ekki notið þeirrar fræðslu heima fyrir, sem það þráir og hefir þörf fyrir.

Ýmsum háttv. þm. hefir virst 60 þús. kr. of há upphæð. Hún er það aðeins þegar hún er borin saman við eitthvað minna, en ekki þegar miðað er við efndir á áður nefndu fyrirheiti og því, sem í móti hefir komið að gjöf. Heldur ekki verður hún talin há, þegar um er að ræða nauðsyn fjölmenns landshluta, sem auk þess er ein styrkasta stoð ríkissjóðsins. Jeg veit ekki betur en sýslurnar, sem þarna eiga hlut að máli, hafi á næstl. árum greitt um það af öllum ríkistekjum. Þess vegna má ekki líta á kröfu vora eins og neina frekju eða stafkarlshátt, og það því síður, sem hjer er um einu mentastofnunina að ræða í þessum landshluta, sem ríkið kostar, auk lögákveðinnar styrktar barnaskólum. Þar er enginn bænda- eða sjómannaskóli, enginn kvennaskóli eða iðnskóli; yfirleitt engin opinber mentastofnun önnur en þessi eina, sem þó er gjöf frá hjeruðunum.

Í þremur eða fjórum þingmálafundargerðum að austan, er hjer liggja frammi, er byggingar skólans mjög eindregið óskað. Auk þess hafa hjer verið lögð fram undirskriftarskjöl úr flestum hreppum í Múlaþingi með nöfnum nærfelt 500 kjósenda, og er í þeim öllum einarðlega krafist rjettar hjeraðsins um skólabygginguna. Vænti jeg, að háttv. þdm. taki máli þessu vel. Og með þessu fororði ætla jeg að afhenda háttv. deild þessa brtt. mína og læt svo ráðast hvernig um hana fer.

Jeg kem þá að 2 litlum brtt., sem jeg á hjer á þskj. 235 undir XXXIV. lið. Sú fyrri lýtur að breytingu á athugasemd fjvn. um skiftingu styrksins til stúdentafjelagsins, og fer jeg fram á, að 200 kr. af styrknum gangi til fyrirlestra í Austfirðingafjórðungi, en önnur skifting haldist óbreytt. Þessi fjárveiting til alþýðufræðslu hefir staðið um mörg ár í fjárlögum, en af öllum þeim fyrirlestrum, sem stúdentafjelagið hefir annast um, munu aðeins 3 eða 4 hafa verið fluttir á Austurlandi. Finst mjer því ekki til mikils mælst, þótt farið sje fram á fjárins einu sinni til fyrirlestra þar Þessa hefir oft verið óskað eystra og á 2 eða 3 þingmálafundum þar næstl. haust var þessi ósk afgreidd þar í ályktunar formi, ef mig minnir rjett. Till. gerir ráð fyrir, að 300 kr. gangi til fyrirlestra í Norðlendingafjórðungi, og virðist þá ekki ósanngjarnlegt að óska eftir 200 kr. til Austfirðinga.

Þá er síðari tillagan, undir sama tölu lið á þskj. 235, um 2000 kr. handa Þórarni Jónssyni, sem nú dvelur við tón listarnám í Berlín. Jeg get að vísu gert ráð fyrir því, að slík tillaga eigi ekki marga stuðningsmenn í þessari háttv. deild, og samskonar fjárbeiðnir hafa ekki fengið hjer mikinn byr á undanförnum þingum, en bæði er það, að standandi fjárveiting er í fjárlögum til tónlistarmanns og auk þess hafa slíkir styrkir stundum verið veittir áður. Þess vegna vildi jeg ekki neita umsækjanda um það, að leita lítils styrks fyrir hann. Hann biður að vísu í umsókn sinni um 6000 kr., og jeg veit, að þetta, sem hjer er farið fram á, er aðeins lítil úrlausn eða viðurkenning, og maðurinn á viðurkenningu skilið.

Þessi maður, sem frá næstl. hausti hefir dvalið á Þýskalandi, hefir sent hingað með umsókn sinni ágæt meðmæli þýskra tónlistarmanna, sem kenna honum; en auk þess fylgja meðmæli ýmsra merkra manna eystra, sem þekkja umsækjanda, svo sem meðmæli Jóns prófasts Guðmundssonar, sýslumannsins í Suður-Múlasýslu og fleiri dómhæfra manna, sem áherslu leggja á verðleika mannsins til styrktar. Þessi maður hefir sýnt svo framúrskarandi áhuga og kapp í því að komast fram á þessari leið, sem hann er lagður út á, að jeg tel sjálfsagt að veita honum þessa viðurkenningu. Dugnaður þessa manns er alveg einstakur. Hann hefir þurft að styðja bláfátæka móður og yngri systkini, sem nú eru svo á legg komin, að þau geta sjeð fyrir sjer sjálf. Þá leggur hann út á þessa hungurbraut listiðkunar, dvelur hjer tvo vetur í Reykjavík og nýtur tilsagnar hjá Þórarni Guðmundssyni, Páli Ísólfssyni og þýskum tónlistarmanni, en vinnur fyrir sjer jafnframt náminu. Hefir hann álitleg meðmæli þessara kennara. Næstliðið sumar er hann í kaupavinnu og leggur svo af stað næstl. haust í þessa einstöku Bjarmalandsför til Berlínar, fjelaus að kalla með lítinn styrk frá nokkrum góðvinum, sem treysta viljieinbeittleik hans og þrautsegju. Von hans um að geta lokið námi er því að mestu á því bygð, að einhver styrkur fáist frá Alþingi, og það er trúa mín, að jafnvel þessi litla upphæð, sem jeg bið um, verði honum svo mikil hvöt, að hann brjótist að markinu einhvernveginn Jafnvel mun hann keppa til hins ýtrasta, því að þolgæði hans og áhugi er með afbrigðum. Jeg veit að vísu, að þessar 2 þús. kr. eru tæplega meira en einn fjórði hluti þess, er hann þarf með til að ljúka náminu, en þær yrðu honum þó ómetanleg hvöt og uppörvun, ef veittar væru, og tel jeg það sæmdarauka og velgerning að rjetta honum hjálparhönd.

Þá eru örfá orð, sem jeg vildi víkja að öðrum brtt., sem jeg sje ástæðu til að vekja athygli á; t. d. brtt. háttv. 2. þm. Rang. (KIJ), eða XXXV. liðurinn, um 35 þús. kr. til landmælinga. Sú till. á mikinn rjett á sjer, þótt til útgjalda horfi. Jeg held það sje víða um land ekki mikið áhugaefni almenningi, að haldið verði áfram þessum mælingum, sem svo lengi hafa tafist og sem hefði átt að vera lokið.

Að síðustu vil jeg taka það fram, að þótt eitthvað meira eða minna verði samþykt af þeim þarfari og betri tillögum, sem fyrir liggja og til útgjalda horfa, þá tel jeg engar líkur til, að nálæg sje sú hætta, sem háttv. frsm. (ÞórJ) gat um í ræðu sinni og sagði, að framundan lægi, þ. e. alger fjárþurð ríkissjóðs. Jeg er sannfærður um, að slík hætta er hjer alls ekki til, og til þess að finna þessum orðum mínum frekari stað, vil jeg benda á ummæli og upplýsingar þær, sem hv. 3. þm. Reykv. (JakM) kom fram með og rökstuddi vel. Jeg er honum alveg sammála um það, að mikill tekjuafgangur verður á yfirstandandi ári, og það er einnig augljóst, að tekjuáætlunin fyrir 1926, sem háttv. fjvn. hefir þó hækkað nokkuð frá stjórnarfrv., þolir enn talsverða hækkun á ýmsum liðum. Mjer kæmi ekki á óvart, þótt tekjuafgangur yfirstandandi árs og þess komanda yrði um eða yfir hálfa miljón króna með þeirri varlegu tekjuáætlun, sem nú er, og útgerðarauka þeim, sem fyrirsjáanlegur er. Jeg tel það því enga hættu vera eða nokkurn skaða skeðan, þó að ýmislegar nauðsynlegar fjárveitingar verði samþyktar fram yfir till. háttv. fjvn. En auðvitað verða þessar aukafjárveitingar, sem samþyktar kunna að verða, að vera til sjálfsagðra og nauðsynlegra hluta eða fyrirtækja. Það verður ekki talið neitt böl eða vandræði, þótt veitt verði til nauðsynlegra fyrirtækja það fje, sem fyrirsjáanlega verður afgangs útgjöldunum. Því má verja svo vel, að betur sje komið en í kistuhandraðanum hjá ríkissjóði.