30.03.1925
Neðri deild: 46. fundur, 37. löggjafarþing.
Sjá dálk 496 í B-deild Alþingistíðinda. (87)

1. mál, fjárlög 1926

Jón Baldvinsson:

Það, sem jeg hefi hjer að flytja, eru tveir gamlir kunningjar frá síðasta þingi.

Hinn fyrri er brtt. 26 á þskj. 235, um styrk til kvöldskóla verkamanna. í fyrra voru skólanum veittar 350 kr. Það var að vísu farið fram á 500, en þetta þurkaðist af í meðferðinni. Jeg vil geta þess, að bæjarsjóður Reykjavíkur styrkti skólann með 500 kr. 1924, og sami styrkur er honum veittur í ár.

Það hefir ekki legið fyrir fjvn. nein beiðni um styrk frá skólanum. Hún kom til mín fyrir fáum dögum, ásamt skýrslu um starfsemi hans. Skólinn er stofnaður 1. nóv. f. á., Og tók þá þegar til starfa.

Í efri deild var það sagt í fyrra undir fjárlagaumræðunum, að hann hefði verið stofnaður fyr, en það er ekki rjett.

Skólinn stóð í rúma 3 mánuði, og voru nemendur eitthvað um 35. Hann fór fram í húsi, sem bærinn hefir umráð yfir og ljeði endurgjaldslaust. Jeg held vegna þess, sem um hann hefir verið sagt í blöðum, og þess, að hann hefir vakið töluvert umtal, að þá væri rjettast að gera nokkra grein fyrir námsgreinum í skólanum.

Þar var kend saga, bók Wells lögð til grundvallar, enska eftir kenslubók G. T. Zoega, íslenska, lesnar þjóðsögur og æfintýri, danska eftir kenslubók Jóns Ófeigssonar, landafræði og náttúrufræði, einkum í fyrirlestrum, bókfærsla og reikningur, og loks þjóðfjelagsfræði. Það er rjett, af því að það mun einkum hafa verið sú námsgrein, sem amast hefir verið við, að taka það fram, að kennari í henni var Stefán Jóhann Stefánsson lögfræðingur.

Nemendur voru einkum yngri menn úr verkamannafjelögunum, sem stunda daglega vinnu og geta litið skólagjald borgað. Aðsóknin var svo mikil, að varla hefði verið unt að taka fleiri, og fyrirtækið var vinsælt og komu oft menn úr verkalýðsfjelögunum og hlýddu á fyrirlestra auk hinna föstu nemenda.

Það bagaði skólann, að húsnæðið var ekki gott. Úr því verður bætt næsta vetur. Fulltrúaráð verkamannafjelaganna hefir nú von um betra húsnæði, og verður það væntanlega tekið, þótt hitt hafi þann kost að vera ókeypis.

Nú er Alþingi beðið lítils styrks handa þessum skóla, og hygg jeg, að margri fjárhæð sje ver varið en til þess að veita verkamönnum kost á fræðslu. Margir, er þennan skóla sækja, hafa lítillar barnafræðslu notið, eru nýkomnir til bæjarins þaðan, sem hún er ónóg.

Jeg þykist vita, þó að reynt hafi verið að hafa móti skólanum, þá muni hv. þm. ekki láta blaðadeilur hafa áhrif á atkv. sín. Þeir geta fengið að sjá skýrslu skólans, sem liggur frammi í lestrarsal, og spurst fyrir um áhuga verkamanna fyrir þessu.

Jeg held ástæðulaust að fara fleiri orðum um þetta; vona, að hv. þm. láti þetta ná fram að ganga.

Þá kem jeg að brtt. á þskj. 235, XLII, sem er brtt. við 17. gr. fjárl., sem fjallar um almenna styrktarstarfsemi. Er hjer farið fram á styrk til styrktarsjóðs verkamanna- og sjómannafjelaganna í Reykjavík. Sjóðurinn er þannig tilkominn, að verkamannafjelögin hjer í bæ fengu til umráða nokkuð af fje því, sem fjekst þegar botnvörpuskipin voru seld 1917, eins og sárabætur fyrir atvinnutjón það, er verkamenn biðu þá. Af þessu fje var síðan stofnaður styrktarsjóður verkamanna- og sjómannafjelaganna í Reykjavík, og er hann nú kringum 100 þús. kr. Úr sjóðnum eru árlega veittar 6–7 þús. kr. Eins og menn sjá, er það meira en sem nennir vöxtum af sjóðnum. En verkamannafjelögin hafa lagt fram tillag. Aðrir hafa ekki í hann lagt. í fyrra var sótt til Alþingis um styrk fyrir sjóðsins hönd, en fjekst ekki. En nú þykist jeg viss um, að háttv. þm. greiði atkv. með þessari litlu fjárveitingu. Þessi sjóður hefir nú starfað í 4 ár, og eru styrkþegar hátt á annað hundrað nú orðið.

Upphæðir veittar einstökum mönnum hafa verið frá 70 krónum upp í 400 kr. Hafa þær verið veittar mönnum, sem slasast hafa eða þjást af langvarandi veikindum, eða konum, sem lengi hafa verið veikar. Fólk utan af landi hefir einnig notið styrks úr sjóðnum. Þannig er ástatt um marga, að þeir eru eina vertíð á togara, ganga í eitthvert verkamannafjelagið og halda rjetti sínum, þótt þeir fari úr bænum, og njóta styrksins.

Jeg er ekki í neinum vafa um það, að styrkur úr sjóðnum hefir forðað mörgum manni frá að þiggja af sveit. Aðsóknin hefir verið afarmikil, því að þetta er sú eina styrktarstarfsemi, sem almenningur á aðgang að. Og þó að sjóðurinn sje miðaður við verkamenn í Reykjavík, þá er það ekki svo lítill hluti af verkamannastjett landsins, talsvert yfir 2000 manns.

Þess vegna hefir nú stjórn sjóðsins sent Alþingi beiðni um 5000 kr. styrk. Jeg hefi þó ekki þorað annað en að hafa till. til vara 4500 kr., ef einhverjum þætti of hátt farið. Annars skal jeg ekki tefja umr. Jeg vænti þess, að sparnaðarmenn láti mig njóta þess við atkvgr., ef jeg spara nú tímann.