27.04.1925
Neðri deild: 65. fundur, 37. löggjafarþing.
Sjá dálk 1657 í B-deild Alþingistíðinda. (870)

9. mál, vatnsorkusérleyfi

Tryggvi Þórhallsson:

Jeg mun ekki lengja þessar umr. nema lítið. Jeg vil taka undir með hæstv. atvrh. (MG) og öðrum, sem líkt hafa látið í ljós, að jeg tel gott og nauðsynlegt, að málið fái afgreiðslu nú. En jeg get líka tekið undir með öðrum um það, að það sje leitt, að málið kemur svo seint fyrir deildina, því þar af stafar hætta á því, að það verði ekki afgreitt með eins mikilli vandvirkni og vera ætti. Mjer dylst það ekki, að þetta er eitt af allra stærstu málunum, sem varða ákaflega mikið framtíð þessarar þjóðar. Það hefði því átt það fyllilega skilið, að því væri fullur gaumur gefinn og ætlaður nægur tími til athugunar og rækilegs frágangs að öllu leyti.

Það er alkunnugt og viðurkent, að land vort á, þar sem vatnsaflið er, auðæfi, sem eru nú þegar mikils virði og verða þó enn verðmeiri síðar. Og nú reynir á það, hversu tekst að binda svo um hnútana, að þessi auðæfi verði okkur ekki til tjóns, heldur gagns, þegar farið verður að nota þau. Það má gera ráð fyrir því, að útlendingar líti hýru auga til þessara auðæfa og að þeir muni gera tilraunir til þess að færa þau sjer í nyt, og ef ekki tekst nú að leggja rjettan grundvöll að þessari starfrækslu í framtíðinni, þá er það víst, að þjóðlífi voru stafar meiri hætta af nýtingu þessa afls en af nokkru öðru. Það má því alls ekki flaustra af þessu máli. Jeg er að vísu ekki á móti því, að því verði nú ráðið til lykta. En jeg legg mikla áherslu á það, að þótt nú sje mjög á liðið þingtímann, þá gefi menn sjer þó tíma til þess að athuga það vel. Jeg mun svo ekki tala meira um málið alment, að svo miklu leyti sem það er framtíðarmál, sem mikið veltur á að sje heppilega afgreitt.

En í þessu sambandi vil jeg beina fyrirspurn til hæstv. atvrh. (MG) um það, hvort það sje rjett, sem heyrst hefir, að þetta sjé ekki aðeins framtíðarmál, heldur liggi nú fyrir dyrum, að stofnað verði til stórframkvæmda í þessu efni. Í blaði einu, sem stendur hæstv. stjórn mjög nærri, var svo frá skýrt árið sem leið, að veitt hefði verið leyfi til stórvirkjunar austanfjalls. Síðar var það borið til baka, að búið væri að veita leyfi, en hinsvegar stæði ekki á öðru en að semja um ýms smáatriði milli hæstv. stjórnar og þeirra, sem hjer ættu hlut að. Ennfremur var það sagt, að gera ætti í þessu sambandi ýmsar stórkostlegar framkvæmdir, svo sem að leggja járnbraut austur um sýslur. Jeg þykist vita, að hæstv. atvrh. muni þykja gott að fá tilefni til þess að geta gefið upplýsingar um þetta. Og þar sem svo er til ætlast, eftir þeim till., sem fyrir liggja í þessu máli, sem hjer er til umr., að slík mál sem þessi skuli koma til úrskurðar Alþingis, þá vil jeg ennfremur spyrja hæsfv. atvrh. (MG), hvort það sje víst, að þessu máli verði ekki ráðið til lykta fyr en Alþingi fær að segja um það álit sitt. Eins og jeg legg áherslu á það, að þessum málum verði vel skipað í framtíðinni, eins legg jeg áherslu á það, að þetta fyrsta fyrirtæki, sem nú er talað um að eigi að hlaupa af stokkunum, verði vel athugað, og að sjálfsögðu ekki til þess stofnað nema með samþykki frá Alþingi.