27.04.1925
Neðri deild: 65. fundur, 37. löggjafarþing.
Sjá dálk 1661 í B-deild Alþingistíðinda. (872)

9. mál, vatnsorkusérleyfi

Jakob Möller:

Jeg ætla ekki að hefja nú neina deilu um það atriði þessa máls, sem áður hefir valdið mestum ágreiningi og hjer hefir verið vikið að undir rós í sambandi við þetta frv. Mjer skilst, að 2. gr. vatnalaganna skeri algerlega úr þeirri deilu, og óþarfi sje að ræða um það neitt frekar, meðan ekki liggja fyrir brtt. við þá grein.

En það, sem kom mjer til að standa hjer upp og tala, er einkum síðasta brtt. hv. 1. þm. S.-M. (SvÓ). Jeg er ekki alveg viss um það, hve langt hún nær. Berum orðum nær hún aðeins til sjerleyfisveitinga samkv. IV. kafla. En hvað er um framsal sjerleyfis samkv. 27. og 28. gr. til útlendinga? Mjer skilst, að það geti verið vafasamt, hvort þar nægi ekki einfalt samþykki stjórnarinnar. Ef svo væri, skilst mjer brtt. gagnslítil. Jeg hefi ekki orðið þess var, að neitt hafi verið tekið fram um þetta, og þess vegna vildi jeg vekja athygli hv. þdm. á því, að þetta ákvæði þarf einnig að ná til framsalanna. En vegna þess, að skýr yfirlýsing af hálfu nefndar eða stjórnar mundi nægja, þá hefi jeg ekki borið fram brtt. um þetta. En komi ekki slík yfirlýsing, mun jeg koma fram með brtt., sem að þessu lýtur, til 3. umr., ef enginn gerir það annar.

En í sambandi við þetta vildi jeg beina þeirri fyrirspurn til hæstv. atvrh. (MG), sem hv. þm. Str. (TrÞ) hefir vakið máls á, en hæstv. atvrh. (MG) ekki svarað, hvort hann álíti ekki, að ef brtt. 9. á þskj. 182 verður samþykt, þá verði ákvæði hennar einnig að gilda um það sjerleyfi, sem hjer liggur fyrir. En eins og málið liggur fyrir, er það ekki upplýst, hvernig ástatt er um þá umsækjendur, sem hjer er um að ræða, hvort þeir ekki einmitt muni falla undir IV. kafla.