27.04.1925
Neðri deild: 65. fundur, 37. löggjafarþing.
Sjá dálk 1665 í B-deild Alþingistíðinda. (878)

9. mál, vatnsorkusérleyfi

Atvinnumálaráðherra (MG):

Hv. 1. þm. Árn. (MT) fanst mjer vera með getgátur um það, að ótti við þingið hefði komið fram í síðara brjefinu, sem jeg las upp áðan, eða iðrun yfir fyrra brjefinu. (MT: Nei, nei!). Jú, það er eins og vant er um þennan háttv. þm. (MT), að hann hagar orðum sínum svo, að áheyrendur hljóta að skilja þau sem getsakir, en þegar bent er á getsakirnar, þá lætur þessi þm., sem það hafi ekki verið tilgangur sinn. Þá etur hann alt í sig aftur. Háttv. 1. þm. Árn. hefir haft skjöl þessa máls til meðferðar í mánuð, og veit hann því vel, hvernig málið er í pottinn búið, og þarf ekki að koma með neinar getsakir út af því.

Hv. þm. Str. (TrÞ) vil jeg segja það, að ef hann vill ekki leggja svo mikið í vald stjórnarinnar eins og brtt. hv. 1. þm. S.-M. (SvÓ) fer fram á, þá verður hann að koma með brtt. sjálfur.

Annars vona jeg, að þessar umræður um málið verði til þess að ýta því í höfn, því jeg vil vona, að það sje vilji þingsins að setja nú lög um þetta efni og segja skýrum orðum, hvað stjórnin má gera og hvað ekki, því að verði engin lög sett um þetta efni, er engin trygging fyrir, að stjórnin nú og síðar fari að vilja þingsins.