30.03.1925
Neðri deild: 46. fundur, 37. löggjafarþing.
Sjá dálk 499 í B-deild Alþingistíðinda. (88)

1. mál, fjárlög 1926

Bernharð Stefánsson:

í þessum kafla á jeg eina brtt. Það er 24. brtt. á þskj. 235, og fer fram á 5000 kr. styrk til Ólafsfjarðarhrepps í Eyjafjarðarsýslu, til þess að reisa barnaskólahús.

Í fyrri fjárlögum var jafnan veitt ákveðin fjárhæð til þess að reisa skólahús, gegn tvöföldu tillagi hlutaðeigandi skólahjeraða. Þetta var felt af fjárlögunum í fyrra, og virðist sem við eigi að sitja enn, því að hæstv. stjórn gleymir þessu í frv. sínu og fjvn. tekur heldur ekki upp slíka fjárveitingu.

Jeg neyðist því til að bera fram þessa brtt., vegna þess að á þessum stað — Ólafsfirði — er ekkert undanfæri, að reisa verður skólahús. Ef það er ekki gert, verður kenslan í þessum hreppi að falla niður, og er öllum ljóst, hvaða vandræði það eru, þar sem þetta er sjávarþorp.

Það væri kannske fremur viðlit, ef um sveit væri að ræða, þar sem börn verða þó heldur fyrir einhverjum menningaráhrifum á heimilunum heldur en hægt er að koma við í sjávarþorpi.

Jeg geri ráð fyrir, að Ólafsfirðingar sjái sjer ekki annað fært, vegna barna sinna, en að byggja skólahús á þessu ári, hvort sem styrkur fæst til þess eða ekki. En spurningin verður þá þessi: Á þessi hreppur að njóta jafnrjettis við önnur skólahjeruð og fá styrk til skólabyggingar, eins og öll önnur hjeruð hafa fengið, sem reist hafa skóla, eða á hann það ekki? Kjósendur mínir hafa ekki falið mjer að flytja þetta mál, heldur hafa Ólafsfirðingar, eins og sjálfsagt var, snúið sjer til fræðslumálastjóra, og mjer er kunnugt um, að hann skrifaði fjvn. og lagði með þessu. Málið er vel undirbúið. Brjefi fræðslumálastjóra til fjvn. fylgdi uppdráttur af væntanlegu skólahúsi og brjef frá hlutaðeigandi hjeraðslækni, um það, að hús það, er notað hefir verið, sje algerlega ónothæft.

Enda er þetta hús, sem nú er notað til að kenna börnum í, alls ekki skólahús, heldur bygt til alls annars, og hefir þar verið útbúin ein stofa til þess að nota fyrir kenslustofu. Hefi jeg einu sinni komið í þá stofu og veit, að það er neyðarúrræði að þurfa að kenna þar börnum. Það er líka komið svo nú, að hreppurinn hefir ekki lengur nein umráð yfir húsinu, og því er þarna algerlega húsnæðislaust til skólahalds. Þar sem hv. fjvn. hafði þessi gögn í höndum og henni var send málaleitunin frá fræðslumálastjóranum, þá hafði jeg vænst þess, að hún tæki till. um þetta upp og að jeg þyrfti ekki að verða til þess. Vænti jeg þess, að þegar hv. frsm. (TrÞ) tekur aftur til máls, þá geri hann grein fyrir, hvaða ástæður hafi valdið þessu. Jeg skal svo ekki orðlengja um þetta frekar, en aðeins taka það fram, sem jeg hefi áður bent á, að úr því fræðslulögin leggja skólahjeruðum þá skyldu á herðar að halda upp kenslu, þá er í þorpi eins og þarna í Ólafsfjarðarhorni ekki hægt að inna þá skyldu af hendi nema menn hafi sjerstakt skólahús. Til þess að framfylgja lögunum þarna verður því að byggja hús. Um annað er ekki að gera. Áður hefi jeg tekið það fram, að þar sem skólahús hafa verið bygð undanfarið í öðrum þorpum, þá hafa menn notið til þess styrks úr ríkissjóði, eða því sem nemur 1/3 kostnaðar. Á nú Ólafsfjarðarhreppur, ef hann neyðist til þess að byggja skólahús, ekki að njóta jafnrjettis við önnur skólahjeruð ? Jeg skil ekki í öðru. Jeg sje enga ástæðu til að setja þá sveit eina hjá. Jeg hefi raunar fleira að segja um málið, en jeg vil ekki tefja tímann með því að fara lengra út í það að sinni, nje heldur vil jeg að þessu sinni taka fleiri atriði fjárlagafrv. til athugunar.