29.04.1925
Neðri deild: 67. fundur, 37. löggjafarþing.
Sjá dálk 1684 í B-deild Alþingistíðinda. (893)

9. mál, vatnsorkusérleyfi

Tryggvi Þórhallsson:

Hv. 2. þm. Rang. (KIJ) og hæstv. atvrh. (MG) hafa lagst allmjög á móti brtt. minni á þskj. 405. Skal jeg þá fyrst snúa mjer að hv. 2. þm. Rang., þótt jeg sje að jafnaði óvanari að eiga orðakast við hann.

Háttv. þm. vjek að því, að frv. þetta hefði verið skemt við 2. umr., þar sem tími sá, sem veita má sjerleyfi til án samþykkis Alþingis, var styttur. Nú telur hann það ennþá skemt, ef till. mín verður samþykt, og þar af leiðandi eðlishestaflatala sú, sem leyfa má virkjun á án samþykkis Alþingis, minkuð.

En það er enginn að segja, og tillaga mín felur alls ekki í sjer það, að ekki megi leyfa að virkja hversu mikið sem er. Heldur hitt, að þegar um langan tíma og sterka stöð er að ræða, þá megi það ekki án samþykkis Alþingis. Þá gat hv. þm. þess, að ef þingið ætti að fjalla um þetta mál, myndi pólitík komast inn í það. Út af þessum ummælum vil jeg benda á, að stjórnin hlýtur altaf að hafa meiri hl. þingsins, og þarf hún því ekki að óttast, að þingi veiti ekki öll þau leyfi, sem hún vill, ef ekkert er tortryggilegt við þau.

Þess vegna segi jeg, að ef um gott og sjálfsagt mál er að ræða, þá er ekkert á hættu, þó að bera þurfi það undir Alþingi. Og úr því að það er varlegra, hví skyldi þá ekki eiga að gera það ?

Þá sagði háttv. þm., að ekki dygði að einblína á eina stjórn. Það voru heldur ekki mín orð, heldur hitt, að þetta mætti ekki festa í lögum fyrir framtíðina. Ennfremur sagði hann, að ef þessi ákvæði yrðu samþykt, þá mundu árnar enn um tugi og hundruð ára fá að syngja sinn söng án þess að verða teknar í þjónustu okkar. Út af þessu vil jeg segja það, að jeg tel betur farið, að þær haldi áfram enn um langan tíma að renna óbeislaðar sína gömlu leið og syngja sinn fagra söng, heldur en að veitt sje leyfi til að virkja þær, sem þjóðinni getur staðið hætta af. Jeg álít hættuna á því geta verið svo mikla, að sjálfsagt sje, að Alþingi fái um að fjalla.

Hæstvirtur atvinnumálaráðherra (MG) vildi halda því fram, að ekki mætti setja svo ströng skilyrði fyrir sjerleyfi, að enginn vildi ganga að þeim. Jeg er alls ekki að halda því fram, að setja eigi ströng skilyrði, heldur að Alþingi eigi að hafa hönd í bagga með veitingu slíkra leyfa. Ef þeir, sem leyfin vilja fá, sýna svo mikinn hroka að vilja ekki beygja sig fyrir því að sækja um þau til Alþingis, þá segi jeg: Burt með þá. Því hvers er þá af þeim að vænta síðar, þegar þeir eru orðnir stóriðjuhöldar í landinu og hafa fjölda manna í þjónustu sinni, ef þeir telja sig of stóra þegar í byrjun til að eiga tal við Alþingi? Ætli þeir vilji þá beygja sig mjög fyrir vilja Alþingis? Jeg býst við ekki.

Að síðustu vil jeg taka það fram, að vonir mínar um virkjun fossanna eru ekki þær, að þar rísi upp Stóriðnaðarborgir með þúsundum verkamanna, þar sem fáir auðkýfingar safna miljónum, heldur að með fossunum verði unninn áburður úr loftinu til að rækta og bæta landið, sem hafi í för með sjer fjölgun sjálfstæðra býla í landinu og bættan almennan efnahag.