31.03.1925
Neðri deild: 47. fundur, 37. löggjafarþing.
Sjá dálk 514 í B-deild Alþingistíðinda. (93)

1. mál, fjárlög 1926

Atvinnumálaráðherra (MG):

Þó að nú sje tæplega fundarfært. mun jeg víkja nokkuð að ýmsum brtt. hv. fjvn. og lýsa skoðun minni á þeim.

Um styrkhækkunina til Búnaðarfjelags Íslands þarf jeg ekki að ræða, því að jeg hefi áður sagt álit mitt um hana í hv. fjvn.

Kem jeg þá að Skeiðaáveitunni. Jeg get fullkomlega fallist á þá till. fjvn. að veita til áveitunnar 1/4 kostnaðar við flóðgarðahleðslu, og veit jeg, að þetta er með öllu nauðsynlegt. Eins get jeg fallist á það skilyrði nefndarinnar, að lagi verði komið á fjárreiður fyrirtækisins. En ef til þess er ætlast, að bændur geri það sjálfir styrklaust, þá er víst, að þeim er það með öllu ofvaxið.

Þetta mál var til umræðu hjer í fyrra og var þá Landsbankanum veitt heimild til að gefa eftir tveggja ára vexti og afborganir af lánum áveitunnar. Bankinn hefir þó ekki viljað nota sjer þessa heimild, og má það þó furðulegt heita, þar sem hann hefir notað sjer aðrar slíkar heimildir, t. d. um eftirlaun. Það er ekki nokkur meining í því að láta vexti hlaðast á þessi lán ár eftir ár. Dráttarvextir á veðdeildarlánum eru 1% á mánuði, svo það verða alls 12% á ári, sem bætist á vextina og afborganirnar. Nú er því einu sinni svo varið, að landið á bankann, en ekki stjórn hans. Úr því að bankinn hefir ekki viljað nota sjer þessa heimild, þá vil jeg blátt áfram láta skylda hann til þess.

Jeg skil satt að segja ekki í því, hvernig bankinn getur verið þektur fyrir annað en að hlaupa hjer undir bagga. Lán þetta var óvanalega óhagstætt vegna affalla á bankavaxtabrjefunum. Þetta er í fyrsta skifti, sem mjer er kunnugt um, að stórt landbúnaðarfyrirtæki hefir þurft hjálpar við, og þá lætur bankinn sjer sæma að neita að framkvæma heimild til þess, sem Alþingi hefir veitt honum. Það eru til fleiri dæmi um það, að bankinn er ófús á að styðja landbúnaðinn, en það er eins og enginn þori að segja það.

Það er hverju orði sannara, að koma þarf skipulagi á fjárreiður áveitunnar. En bændur geta það ekki sjálfir. Ef ekki getur tekist samvinna milli þeirra og bankans um það, er alt unnið fyrir gýg. Mjer er ekki kunnugt um, hvað gert hefir verið í þessu efni í haust þar eystra, en heyrt hefi jeg, að engu hafi verið jafnað þar niður í þessu skyni. Vitanlega er það ekki rjett aðferð, en þó finst mjer, að bændum sje nokkur vorkunn, er þeir reka sig á framkomu bankans í þessu máli. Jeg ætlast alls ekki til, að hið opinbera geri hjer alt til að bjarga fyrirtækinu, en það þarf að koma því á rjettan kjöl og láta bændurna síðan borga sinn hluta. Heppileg hjálp væri sennilega að veita áveitubændum lán úr bjargráðasjóði til þess að auka bú sín, því að þess mun þeim mest þörf til þess að geta notfært sjer áveituna að fullu. Jeg tel og rjett, að ríkissjóður taki að sjer að greiða nokkurn hluta af lánunum, en þá með árlegum framlögum einhvers hluta af afborgunum og vöxtum. En Landsbankanum vil jeg þó alls ekki sleppa við að nota heimildina til eftirgjafar, sem samþykt var hjer í fyrra. Það var aðeins kurteisi þingsins gagnvart bankanum að hafa heimildarformið, en fyrst bankinn metur einskis þá kurteisi, verður hann nú að fá skipun.

Um styrkinn til Fiskifjelags Íslands skal jeg lítið segja, nema jeg tel sjálfsagt, að nefndin hefir hækkað hann hlutfallslega við styrkinn til Búnaðarfjelagsins.

Næst koma 15 þús. kr. til bryggjugerðar. Umsóknir námu 30 þús. kr. Nefndin hefir með öllu leitt hjá sjer að gera tillögur um, hvaða beiðnir skulu verða teknar til greina. Skilst mjer, að hún leggi það á vald stjórnarinnar. Vitanlega er erfitt að úthluta þessari fjárhæð, og getur jafnan orkað tvímælis, hvernig tekist hafi, og því hefði jeg kosið, að nefndin hefði hjer gefið einhverjar bendinga.

Þá kem jeg að styrknum til Þórður Flóventssonar. Hv. frsm. (TrÞ) sagði, að hann væri ekki vísindamaður. Þetta held jeg að sje tæplega rjett. Ef hann getur komið laxa- og silungaseiðum til að lifna, þá er hann vissulega vísindamaður í þeirri grein. Annar maður, sem notið hefir hærri styrks en hann og starfað að hinu sama, hefir síst meiru komið áleiðis, þótt lærður sje í þessum hlutum. Þessi gamli maður, Þórður Flóventsson, hefir vakið dæmalausan áhuga fyrir klakinu um land alt, og einmitt nú eru miljónir laxa og silungahrogna að lifna í klakhúsum hingað og þangað um land, sem hann hefir leiðbeint um, en hjá hinum manninum er miklu minni árangur. Jeg styð því þennan styrk fastlega, og það þótt hann hefði numið 2000 kr.

Jeg vildi þá segja nokkur orð um till. nefndarinnar við 17. gr., þar sem hún leggur til, að sjera Hauki Gíslasyni verði veittur styrkur til guðsþjónustu á íslensku af fje því, sem í 5. lið 17. gr. er veitt til bágstaddra Íslendinga erlendis. Jeg get ekki sjeð, hvaða samband er milli þessa og annara fjárveitinga í þessari gr. Þetta fjelag, sem sjera Haukur er prestur hjá, mun vera kristilegt fjelag, einkum til að halda uppi guðsþjónustum. (TrÞ: Það gerir fleira). Þessi upphæð, 1000 kr., sem ætluð er til nauðstaddra landa, er líka svo lítil, að hún er ekki til tvískiftanna. Hún hefir venjulega verið veitt veikum sjómönnum, 50–100 kr. hverjum, oftast til að komast hingað heim, en til þess mun þetta fjelag ekki hjálpa. Auk þess tel jeg vafasamt, að þessi prestur prjediki á íslensku máli.