03.03.1925
Efri deild: 21. fundur, 37. löggjafarþing.
Sjá dálk 1741 í B-deild Alþingistíðinda. (958)

23. mál, atvinna við siglingar

Frsm. (Jóhann Jósefsson):

Þetta frv., sem nefndin nú hefir haft til athugunar og samið er til þess að koma samræmi á í lögum nr. 40 frá 1922, hefir nefndin ekki getað fallist á að öllu leyti. Hún hefir fallist á að breyta ákvæðunum í 18. gr., en ekki í 4. gr. Fyrir þessu er gerð grein í nál. á þskj. 103. Eins og þar er tekið fram, gæti það verið dálítið erfitt í sumum veiðistöðum landsins að afla sjer þeirra rjettinda, sem 4. gr. mælir fyrir að þurfi til þess að geta gengið undir smáskipstjórapróf. Og sama máli gegnir um ákvæðisskyldur stýrimanna, sem þar um ræðir. Yfir höfuð finst nefndinni, að taka yrði eitthvað dálítið tillit til þess, hvernig siglingum er hagað. Það getur nefnilega verið fyllilega rjettmætt að láta stýrimann, auk skipstjóra, á 12 rúmlesta skip, ef ferðalaginu er svo varið, að vökuskifti þurfa að verða, t. d. legið úti sólarhringum saman. Þá ber nauðsyn til þess, að tveir færir menn sjeu á skipinu, sem heimilt sje samkvæmt lögum að hafa stjórn þess á hendi. En aftur á móti þar, sem sjór er þannig sóttur, að bátarnir koma að daglega, sýnist engin þörf á að heimta, að stýrimenn sjeu á skipunum, jafnvel þó þau sjeu 20 rúmlestir. Á þessu byggir nefndin þegar hún kemur með viðauka sína við 18. gr., en vill hinsvegar ekki hrófla við 4. gr. Það gæti reynst erfitt að fá skiprúm fyrir stýrimenn á minni bátum en 20 rúmlesta og því ilt að binda skipstjóraskírteini við það, að viðkomandi maður hafi minst siglt árlangt á slíkum skipum. Annars er þörf á því, að þessi lög sjeu betur athuguð og endurskoðuð að miklum mun. Þau eru yfirleitt samin sem farmannalöggjöf, en eru ekki hentug fyrir fiskibátaflota, eins og eðlilegt er, þar sem þau munu aðallega samin eftir útlendri fyrirmynd, þar sem þau skip eru í miklum meiri hluta, sem sigla á milli landa og eru í strandferðum, en minna er um báta, sem veiðar stunda. En hjer á landi er alt öðru máli að gegna. Hjer þarf sjerstaklega að hafa bátaútveginn fyrir augum. Jeg skal svo ekki frekar tala um þessi ákvæði.

En í samráði við háttv. sjútvn. Nd. tók nefndin nokkrar aðrar breytingar upp í frv., sem henni virtist ekki mega fresta. Þær breytingar voru og bornar undir forstöðumann stýrimannaskólans, og hafði hann ekkert við þær að athuga, að því tilskildu, að nefndin tæki upp eitt ákvæði, er hann kom með og jeg síðar mun víkja að.

Þessar breytingar, sem við komum með, snerta 7. gr. og eru um prófið. Þetta próf má eftir núgildandi lögum aðeins halda í Reykjavík. Það er ljóst af þeim umr., sem urðu, þegar þetta ákvæði var sett, að það var sett eingöngu til þess að tryggja það, að næg kunnátta væri heimtuð af prófsveinunum, og til þess hugsaðist mönnum það ráð, að allir, sem smáskipstjórapróf tækju, skyldu fara til Reykjavíkur. Prófið yrði eingöngu á einum stað. Í fyrsta lagi er nú það við þetta að athuga, að það getur verið dýrt spaug fyrir menn víðsvegar af landinu að verða að ferðast til Reykjavíkur til þess eins að ganga þar undir próf. Í öðru lagi getur kunnáttan verið alveg eins trygg, þó að gengið sje undir prófið annarsstaðar, ef þess aðeins er gætt, að samræmi sje í prófskilyrðunum. Það er ekki hægt að sjá það, að tryggingin sje fólgin í því, hvar gengið er undir prófið, heldur í hinu, hver prófskilyrðin eru. Því lagði forstöðumaður stýrimannaskólans áherslu á það við nefndina, að hún tæki það ákvæði upp, að prófverkefnin skyldu öll samin af forstöðumanni stýrimannaskólans, en ljeti hitt óákveðið, hvar prófin væru haldin. Og sýnist því nefndinni, ef þetta verður samþykt, að eins megi hjer eftir halda þau í smákaupstöðunum, eins og verið hefir.

Þá hefir nefndin borið fram þá brtt., að ríkisstjórnin geti í einstaka tilfellum heimilað þeim mönnum rjett til stærri skipa, sem verið hafa svo lengi skipstjórar á smáskipum, 20–60 rúmlesta, að hægt er að fá vottorð dómbærra manna um sjerstaka verðleika þeirra, bæði hvað skipstjórn og fiskisæld snertir. Það er í rauninni ekki nema sanngjarnt, að manni, sem hefir í mörg ár verið skipstjóri á 60 rúmlesta bát, sje trúað fyrir dálítið stærra skipi, ef gengið er út frá því, að það stundi samskonar veiðar. Það getur og oft og tíðum verið mjög áríðandi fyrir útgerðarmanninn, t. d. þann, sem selur 60 tonna kútter, sem hann hefir átt, og kaupir 100 rúmlesta gufuskip í staðinn. Honum getur verið það alveg bráðnauðsynlegt að mega halda sínum gamla og reynda skipstjóra, en vera ekki neyddur til að taka alveg ókunnan mann á hið nýja skip, þótt hann hafi lögleg rjettindi til að stjórna því.

Nú mun jeg hafa drepið á flestar brtt., sem nefndin hefir leyft sjer að gera við frv. þetta.