26.03.1926
Efri deild: 38. fundur, 38. löggjafarþing.
Sjá dálk 1420 í B-deild Alþingistíðinda. (1006)

55. mál, framlag til kæliskápakaupa o. fl.

Jóhann Jósefsson:

Það hefir nú komið fram í umr., er jeg sagði um Eimskipafjelag Íslands, að það skip, sem nú er ætlast til, að það byggi, nefnilega kæliskipið, er ekki hið æskilegasta fyrir fjelagið; því mundi henta betur alment gott vöruflutningaskip með litlu farþegarúmi.

Um möguleikana fyrir fjelagið að eignast nýtt skip getum við lengi þráttað, hv. 3. landsk. og jeg. Við stöndum þar báðir líkt að vígi og erum jafnókunnugir. En hitt veit jeg, að legið hefir það í loftinu, að Eimskipafjelag Íslands bætti við sig vöruflutningaskipi, en nú fyrir tilstuðlan ríkissjóðs á að breytast í þetta fyrirhugaða kæliskip.

Nú er líklegt, að fjelagið verði eftir eitt ár búið að greiða skuld sína í Hollandi. Finst mjer þá ekki ósennilegt, um það leyti, sem fjelagið borgar bankanum upp, að hann mundi fús á að lána aftur allstóra upphæð, og ekki síður fyrir það, ef ábyrgð ríkissjóðs stæði að baki. (JJ: En þá hjálpar landið). Jú, en það má nú segja um það, að skylt er skeggið hökunni. Ríkissjóður hefir það mikið verið við riðinn rekstur Eimskipafjelagsins, og verður ekki síður eftir að kæliskipið er komið.

Að tjón hafi orðið af tilraun síðasta árs, er vitanlegt, það tjón mun nema frá 80–100 þúsund krónum. Aðalástæðuna fyrir því tjóni hefi jeg bent á, og þarf ekki að fjölyrða meira um það. Hv. 3. landsk. hefir sjálfur viðurkent, að skipið hafi reynst svo slæm, að varan þess vegna hafi orðið lítt útgengileg. Ástæðuna fyrir þessu sýndi jeg fram á áður í umræðum um þetta mál, og hefir hv. þm. ekki getað hrundið því enn.