04.03.1926
Neðri deild: 21. fundur, 38. löggjafarþing.
Sjá dálk 1573 í B-deild Alþingistíðinda. (1199)

42. mál, innflutningsbann á dýrum o. fl

Frsm. (Halldór Stefánsson):

Þær aths., sem komu fram við frv. þetta við 1. umr. þess hjer í deildinni, koma nú fram að mestu leyti í brtt. á þskj. 91, og verður athugasemdunum varað með því að ræða um brtt. Eins og jeg hefi tekið fram áður, er aðeins um heimildarákvæði að ræða í 2. gr. frv., bygð á áliti dýralæknis. Hvernig og hvenær því verður beitt, fer að sjálfsögðu eftir því, hver nauðsyn þykir á að banna þennan innflutning, og á hvern hátt.

Fyrri liður brtt. fer fram á, að feldar sjeu niður tvær vörutegundir, sem banna má innflutning á eftir frv.

Út af þeim ummælum háttv. þm. N.-Ísf. (JAJ), að óþarft væri að banna innflutning á mjólk, vil jeg benda á, að það er ekki svo langt hjeðan til mestu landa, að ekki megi vel flytja nýmjólk hingað í kælirúmum. Það fer ekki miklu lengri tími til þess en að flytja mjólk hingað til Reykjavíkur sunnan úr sýslum. Hvort nýmjólk er sýkingarhættulaus 24 klst. gömul, get jeg ekkert sagt um af eigin þekkingu.

Verð jeg því að vísa til þess, að ákvæði 2. gr. eru bygð eingöngu á áliti dýralæknis. Um hálminn gat hv. þm. N.-Ísf. þess, að engin trygging væri fyrir því, að hann væri í raun og veru frá því landi, sem hann komi hingað frá. Þetta getur vel verið rjett. En þá virðist mjer frekar ástæða til að setja ennþá strangari skilyrði um hann. Annars verður það að vera sjerfræðinga að skera úr því, hvað sje hættulegt í þessu efni og hvað ekki.

Þá mintist hv. þm. N.-Ísf. á það, að það mundi vera fullvíðtækt orðalag á 1. gr. frv., og mætti jafnvel eftir því banna innflutning á mönnum og farfuglum — og þótti þetta að vonum hálfskoplegt. Jeg hjelt satt að segja, að enginn bygði á því, að byrjað væri á mansali að nýju, en svo aðeins gæti verið að tala um innflutning manna í þessu sambandi, að þeir væru ekki frjálsir ferða sinna. Aðrir geta ekki komið til mála, og er því ekki rjett að tala um innflutningsbann á mönnum í þessu sambandi. Svo er og um farfugla, að þeir koma óboðnir hingað, og mun fæstum geta komið til hugar, að hægt sje að banna innflutning á þeim. En ef svo væri, að einhverjum kynni að detta í hug að flytja inn rottur t. d., ætli þá væri nokkur goðgá að banna það? Ákvæði frv. ná að sjálfsögðu aðeins til þeirra dýra og fugla, sem flytjast hingað að þeim ósjálfráðum.

Það var minst á það við 1. umr., hvort ekki mundi rjett að banna innflutning á heyi af öðrum ástæðum en greindar eru í frv., og vísa jeg til þess, sem jeg sagði þá um það efni. Frv. þetta gengur ekki inn á aðrar ástæður en þar eru taldar; þar er t. d. ekkert farið út í það, hvort heppilegt sje af almennum þjóðhagslegum ástæðum að banna innflutning á heyi. Ef menn því vilja fá framgengt innflutningsbanni á heyi af öðrum ástæðum en til grundvallar liggja fyrir þessu frv., þá verður að bera það fram alveg sjerstaklega.

Jeg vil að lokum minna á það, að óvíst er, hvort og hvenær þarf að nota ákvæði 2. gr. frv. um heimild til að banna innflutning, og því ákvæði verður ekki beitt nema full ástæða þyki til. T. d. um það gæti jeg hugsað mjer, að koma mundi til álita, hvort ákvæðunum um hálm mætti ekki haga líkt og stendur í brtt. á þskj. 91. Frá sjónarmiði nefndarinnar er það betra, að heimildin sje of rúm heldur en of þröng, því að óþarfi er að beita henni fremur en ástæða þykir til, þótt rúm sje.